13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1097 í C-deild Alþingistíðinda. (1446)

194. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson):

Mér finnst hv. 2. þm. Árn. vera farinn að haga sér nokkuð einkennilega. Við síðustu umr. þessa máls, þegar um það var að ræða, hvort þm. Reykv. skyldu vera 5 eða 6, kemur hv. þm. fram með ræðu, sem hann hefir sjálfsagt samið heima hjá sér um páskana, og gerir hann þar alstaðar ráð fyrir 9 þm. í Rvík og stangast við þessa tölu allan ræðutíma sinn. En við 3. umr. málsins kemur hann fram með till., sem ekkert kemur því máli við, sem hér er um að ræða, og leggur til, að bætt verði við einum þm. fyrir Siglufjörð. Ég sé ekki, á hvern hátt er hægt að greiða atkv. um þetta hér. Mér finnst, að svona leikaraskapur eigi ekki við hér á Alþ., og legg til, að þessari brtt. verði samkv. 42. gr. þingskapanna vísað frá.