13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í C-deild Alþingistíðinda. (1452)

194. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Héðinn Valdimarsson):

Hæstv. forsrh. hefir haldið ræðu móti þingmannafjölguninni í Rvík, en ástæðan, sem hann færir fyrir því, er nokkuð önnur en ég hugði. Ég hygg, að það séu ekki fáir menn í hans flokki, sem fyrir nokkru mundu hafa viljað fjölga þm. Rvíkur upp 5, og jafnvel fjölga þm. bæjanna á annan hátt, svo að þetta getur ekki verið neitt stefnuatriði, heldur eitthvað annað, sem á bak við býr.

Ég skil það vel, að ekki liggi vel á hæstv. forsrh. með daginn á morgun fyrir hendi. En mér finnst, að hann ætti ekki að skella sökinni á þessa fjölgun þm., hvernig farið hefir fyrir stj., því að þar á hún sjálf og ein alla sökina.

Vildi ég svo leiðrétta það, að við ætluðum að hafa samvinnu við Íhaldsflokkinn við kosningarnar, því að við höfum þvert á móti fullan vilja á að stilla mönnum upp í öllum kjördæmum á landinu þar sem þess er nokkur kostur í þetta sinn, og er þetta hrein andstaða gegn öllum öðrum stjórnmálaflokkum af hálfu Alþýðuflokksins eins og vera ber.