28.02.1931
Neðri deild: 12. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í C-deild Alþingistíðinda. (1494)

54. mál, ábúðarlög

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Hv. 1. þm. Reykv. vék nokkrum orðum að málinu og taldi, að það hlyti að vera var hugavert, úr því hæstv. stj. hefði ekki flutt það. Ég skal þá fræða hv. þm. á því, að á síðasta þingi var málið flutt að tilhlutan hæstv. stj. Hefir hún áður kynnt sér málið rækilega. Mun því sönnu nær, að henni hafi ekki þótt málið stórum athugavert. Slíkt hefir oft komið fyrir áður, og því er engin ástæða til þess að ámæla hæstv. stj. fyrir það, að hafa ekki flutt málið að þessu sinni. Annars skal ég ekki fjölyrða um þetta atriði, en ég vona, að hv. þdm. leggi alúð við málið, fyrst þeim er svo tíðrætt um það.

Ég verð nú að segja, að mér finnst röksemdaleiðsla hv. 1. þm. Reykv. harla einkennileg. Það er rétt, að mþn. vildi ráða bót á ýmsum meinsemdum, sem eru á núverandi ábúðarlöggjöf. En hv. þm. telur, að með till. n. sé gengið nærri eignarrétti jarðeigenda, um leið og verið sé að laða leiguliða til þess að vera leiguliðar áfram. Hann segir, að það sé ráðið til þess að auka sjálfseign, að laða leiguliða til þess að kaupa jarðirnar, og liggi til þess margar leiðir. Mun það ekki fjarri, að ef eigendur vilja losna við jarðirnar, þá kaupi leigjendur þær.

Þá sagði hv. þm., að ef frv. þetta yrði að lögum, þá myndu jarðir falla í verði. Þetta er algerlega gripið úr lausu lofti. Ég býst við því, að núgildandi fasteigna mat gangi sönnu nær. Fari fram kaup og sala, þá eiga eigendur að fá það, sem þeim ber, en heldur ekki meira, og er það réttlátt. Ábúðarlögin eiga ekki að gefa tilefni til neins jarðabralls. Tilgangurinn með jarðakaupunum á að vera sá, að sá, er kaupir, búi á henni sjálfur, nema jörðin sé keypt handa öðrum, sem ætlar að búa á henni.

Hv. 1. þm. Reykv. hefði átt að benda á einhverjar leiðir til þess að laða leiguliða til að eignast jarðirnar. Samkv. núgildandi ábúðarlöggjöf er það síður en svo, að leiguliðar séu laðaðir til að gera um bætur á jörðum sínum. Því þó að ábyrgð hrepps fylgi, þá eru leiguliða á engan hátt tryggðir þeir fjármunir, sem hann leggur í byggingar og aðrar umbætur á jörðinni. Hefir sá leiði leikur, að jarðeigendur geri fjármuni þessa gagnslausa, of oft verið leikinn. Reyndar er gert ráð fyrir nokkurri greiðslu fyrir umbætur. En svo sniðuglega er þessu ákvæði fyrir komið í gildandi ábúðarlöggjöf, að enginn, sem ég þekki, hefir leitazt við að fá greiddar umbætur sínar samkv. þessum ákvæðum.

Vissulega er eignarréttur leiguliða fyrir borð borinn með núgildandi ábúðarlöggjöf. Ég veit ekki, hvort það kemur eins við hv. þm. Dal., þótt eignarréttur leiguliðans sé skertur, eins og eignarréttur jarðeigandans.

Ég vil segja það að lokum, að ég vildi, að hv. 1. þm. Reykv. benti á einhverja leið til þess að laða leiguliða til þess að eignast jarðirnar. Ef hv. þm. gerir það, þá gerir hann þarft verk.