01.04.1931
Neðri deild: 39. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í C-deild Alþingistíðinda. (1616)

283. mál, virkjun Efra-Sogs

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Í gær höfðu tveir hv. fulltrúar Rvíkur og hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. Dal. gert aths. við ræðu mína um þetta mál, og mun ég máske ekki víkja sérstaklega að hverri ræðu, því að í þeim var mikið til sama efni, heldur tala um málið eins og það liggur fyrir. Enginn þeirra treystist til að neita því, að þetta, sem hér á að gera, er ekki mál alls landsins, heldur fyrst og fremst Rvíkur og Hafnarfjarðar, og sú staðhæfing sjá menn nú, að er ekki annað en blekking, þegar þess er gætt, að engir útreikningar liggja fyrir um framkvæmanleik á þessum orkuleiðslum. Þvert á móti eru til hjá rafmagnsnefndinni útreikningar, sem sýna, að leiðslur út frá stöðvunum geta alls ekki borið sig, nema með styrk frá því opinbera.

Enginn þessara hv. þm. gat mælt móti því, að þetta var byrjað sem mál sveitanna. Það var náttúrlega kosningabeita. Þá ætluðu þeir líka að leiða rafmagn um allar sveitir á kostnað ríkisins eftir því, sem með þyrfti. Þeir voru ekki að hugsa um Rvík eina þá, þó að fólkið væri þar flest. Svo snýst þetta allt saman við í höndunum á þeim flokki, sem bar það fram. Hv. 1. landsk. (JÞ), sem átt hefir þátt í þessum neikvæðu útreikningum rafmagnsnefndarinnar, hélt fyrir þremur árum, að það væri leikur einn að leiða rafmagnið út um sveitirnar. Nú er hann alveg horfinn frá því; sér, að það er of dýrt eins og er. Þetta byrjaði bara eins og kosningabeita í sveitunum. (MG: Þetta er vitleysa). Nú eru forustumennirnir hættir að ætla að telja fólkinu trú um, að það sé mál, sem liggi fyrir, að leiða rafmagn um Árnessýslu og Rangárvallasýslu og um allan Skagafjörð.

Þetta er í sjálfu sér aðalatriði málsins nú, að einn bær, Reykjavík, treystir sér ekki til, af ástæðum, sem ég kem að bráðum, eða hefir ekki haft þann dugnað sem þurfti, til þess að útvega sér lán til virkjunar, og kemur til ríkisvaldsins og segir: „Vilt þú hjálpa mér með þetta? Ég get ekkert án þín“. En um leið er sannarlega bægt frá sveitamönnunum, þeim, sem áður átti að veiða. Hv. 2. þm. Reykv. neitar því, vegna þess að nefndin sýnist ekki hafa trúað honum fyrir upplýsingum um málið, eins og það liggur fyrir.

Hér er eiginlega um það að ræða, hvort ríkissjóður eigi að ganga í ábyrgð fyrir hvaða kaupstað, sem biður um hana. Það er mála sannast, að landið hefir gengið í ábyrgð fyrir nokkrum minni upphæðum. Ég hygg t. d., að það hafi ábyrgzt lán til raflýsingar á Patreksfirði fyrir nokkrum árum. En meðan þetta voru litlar upphæðir, sem landið var fært um að taka á sitt bak, ef illu færi, þá tóku menn ekki eins eftir því, hvað var að gerast, og það var ekki heldur eins hættulegt.

Þetta mál er nú orðið að stóru fjárhagsmáli. Það, sem um er að ræða, er, hvort landið eigi að taka á sig ábyrgð fyrir mörgum millj. kr. og hætta þannig lánstrausti sínu. Enginn hv. þm. getur neitað því, að í því liggi hætta fyrir ríkið, enda hafa hv. þm. ekki reynt að svara því. Ef hv. þm. vilja neita þessu, þá vita þeir ekkert, hvað lánstraust landsins er. (ÓTh: Heldur hæstv. ráðh., að Reykjavíkurbær verði gjaldþrota?). Það gæti komið fyrir; það hafa margir bæir orðið gjaldþrota. Í Noregi hafa einmitt margir bæir orðið gjaldþrota fyrir ógætilegar rafmagnslagningar. En um það skal ég ekki tala. Ef Reykjavíkurbær er vel stæður fjárhagslega, þá getur hann tekið sín lán sjálfur, án ábyrgðar ríkisins. (HV: Tóku sveitirnar lánið til Búnaðarbankans?). Það á engin sérstök sveit Búnaðarbankann.

Það væri mjög æskilegt, að hv. þm. vildu sanna það, að ríkinu stafi engin hætta af slíkri ábyrgð, að ábyrgðin yrði ekki talin ríkinu sem skuld á erlendum peningamarkaði. Ég skora á hv. þm. að afsanna það, ef slík ábyrgð væri talin sem skuld erlendis, að erlend ríki og peningastofnanir mundu ekki hætta að trúa á lánstraust landsins, er vissri upphæð ábyrgða væri náð. Ætli þau færu þá ekki að reikna út fjárhagsaðstöðu landsins eftir fólksfjölda og öðrum aðstæðum og hætta að treysta ríkinu að meira eða minna leyti?

Ennfremur hafa hv. andstæðingar mínir ekki fært nein rök fyrir því, hvernig skuli gera upp á milli ábyrgða fyrir einstaka landshluta framvegis. Rvík fer hér fram á 8 millj. kr. ábyrgð. Það er mjög líklegt, að t. d. Gullbringusýsla og Vestmannaeyjar vildu þá fá slík lán með ríkisábyrgð. Eiga þessi héruð síður rétt til slíkra lána en Rvík? Og ég fyrir mitt leyti hefi enga trú á því, að þessi héruð gætu borið slík lán, án þess að ég vilji þó særa hv. þm. þessara kjördæma. Þó að t. d. Vestmannaeyjar séu blómlegur kaupstaður, þá hefir hann þó átt mjög erfitt með að byggja sína litlu höfn og hefir leitað til ríkisins um fjármagn. Út frá þeirri reynslu, sem ríkið hefir af því að hjálpa kauptúnum með framkvæmdir sínar, er það ljóst, að með þessari ríkisábyrgðastefnu er ríkissjóðnum bundinn þungur baggi á herðar. En hv. flm. hugsa ekki um afleiðingarnar af þessari stefnu. Þeir hugsa aðeins um augnablikið, en loka augunum fyrir framtíðinni.

Hv. 3. þm. Reykv. fór um það nokkrum orðum, að það væri ekkert óeðlilegt, þó að Rvíkurbær hefði svo lítið lánstraust, þar sem ríkisstj. hefði sinnt kæru, sem komið hafði fram út af reikningum bæjarins. Hv. þm. sagði, að þetta væri ofsókn, og að kæran væri ekki á neinum rökum byggð. Hvað getur hv. þm. sagt um það, þegar kæran er undir rannsókn? Nú er verið að rannsaka reikninga bæjarins. Þegar því er lokið, verður tekin ákvörðun um, hvort rannsókn skuli haldið áfram.

Það stafar eingöngu af ókunnugleika hv. 3. þm. Reykv., er hann fullyrðir, að kæran sé ekki á neinum rökum byggð. Hún er byggð á áliti merks hagfræðings og liggja fyrir henni svo þungvæg rök, að hv. þm. hefir ekkert leyfi til þess að fullyrða neitt um málið, meðan ekki hefir verið sannað, að þau séu röng. Og það er engin vörn fyrir hv. þm., þó að hann viti ekki það, sem aðrir vita. Eigin vanmáttur hans sannar ekkert um málsstað nokkurs manns.

Ég vil þá nota tækifærið til þess að minnast með nokkrum orðum á þá ásökun flokksmanna hv. þm. í garð stj., að hún heiti ofsóknum í réttarrannsóknum sínum. Tökum t. d. Hnífsdalsmálið. Urðu hinir ákærðu ekki sannir að sök? Hvað hefði verið sagt, ef ríkisstj. hefði ekki sinnt kærunum á hendur þessum mönnum? Hvað á að segja um þau blöð, sem ofsóttu dómarann látlaust og fullyrtu, að hinir ákærðu væru saklausir?

Ég get ekkert hugsað mér fyrirlitlegra en framkomu þessara blaða og þess flokks, sem að þeim stóð. Mig furðar á, að hv. 3. þm. Reykv. skuli geta verið í þeim flokki, sem tekur málstað slíkra glæpamanna og hér var um að ræða.

Og það eru fleiri mál en þetta, sem flokksbræður hv. þm. hafa talið ofsóknir af hálfu hins opinbera. Þeir ætluðu að ærast af ofsóknartali, er ríkisstj. lét rannsaka það, hvort yfirvöldum væri leyfilegt að halda dánarbúum á vöxtum og hirða sjálfir vextina. Vill hv. þm. halda því fram, að nokkur heiðarlegur maður standi lengur með Morgunblaðinu í því máli? Það getur óskað sér sjálft til hamingju, en sigur þess sjá áreiðanlega engir aðrir en þeir, sem að því standa.

Þá má minna á mál, sem kom fyrir í haust. Hv. 3. þm. Reykv. fór þá sjálfur í mál við flokksbróður sinn, sem hafði orðið fyrir því óláni að kaupa fyrir nokkur hundruð þús. fisk, sem var veðsettur Útvegsbankanum og skuld á þar. Var það ofsókn að kæra slíkan mann? Útvegsbankinn fór í mál við manninn. Hv. 3. þm. Reykv. leit svo á eins og aðrir, að lögin yrðu að ráða, þó að í hlut ætti maður úr sama flokki og hann.

Í tíð fyrrv. stjórna voru það ýmsir menn, sem margbrutu landslögin, en það var álitið, að ekki bæri að hegna þeim, sem bezta aðstöðu höfðu í lífinu, heldur aðeins þeim, sem enga áttu að. En nú, þegar lögin eru látin ganga jafnt yfir alla, þá kveina þessir menn undan ofsóknum.

Ég hefi þá upplýst það, að hv. þm. veit ekki, að kæran út af reikningum bæjarins er undir rannsókn, og að fyrir henni eru rök frá starfsbróður hv. þm., fyrrv. skattstjóra í Rvík, manni, sem er miklu merkari en þessi hv. þm.

Hv. þm. Dal. hélt því fram, að ekkert væri að því fyrir ríkið að ganga í ábyrgð fyrir þessum 8 millj. kr.

Ég skal taka það fram, að ég beindi ekki fyrirspurninni til hv. þm. Dal. af því, að ég áliti hann mestu sjálfstæðiskempuna hér í þinginu, heldur af því, að þessi hv. þm. hefir talað allra manna mest og hæst um föðurlandsást sína.

Það kom í ljós við ræðu hv. þm., að hann veit ekki, hvað fjárhagsleg innlimun er, þó að hann hafi máske þekkingu á samningslegri innlimun. Nú á tímum fer flest innlimun fram á fjárhagslegan hátt. Þarf ekki annað en minnast á viðskiptastríð þjóðanna. Fyrir heimsstyrjöldina smeygðu Þjóðverjar sér t. d. alstaðar inn með fjármagn sitt. Það eru bankar og fjármál, sem nú er barizt mest um, en ekki pólitískt vald.

Hv. þm. Dal. getur ekki séð, að það sé hættuleg braut fyrir ríkið að ganga í marga millj. kr. ábyrgð fyrir kaupstaði og sveitir. Hv. þm. hefir láðst að geta þess, hvort hann hugsaði sér, að Dalasýsla fengi rafmagn líka. Ef svo færi, þá mundum við vera komnir að 80 millj. kr., því að ef á að hjálpa þeim sveitarfélögum, sem bezt eru stæð, þá er ómögulegt að neita öðrum um hjálp. Þau eiga engu síður rétt á aðstoð ríkisins í þessum efnum.

Þá talaði hv. þm. um fjárhagsvandræði þau, er Eimskipafélag Íslands hefði komizt í erlendis. Hv. þm. spurði, hvers vegna stj. hefði ekki útvegað Eimskipafélaginu fé. Ef þessi hv. þm. hefði verið í stj., mundi hann hafa talið, að félagið kæmi sér ekki við, það væri sjálfstæð stofnun, — þó að hv. þm. væri reyndar óspar á að ryðja fé í Íslandsbanka á sínum tíma. En engin stj. hefir handbærar 2 millj. kr. handa einstaklingi eða félagi, sem hefir ,spekúlera' óskynsamlega erlendis. Stj. bað þó sendiherra vorn í Kaupmannahöfn að reyna að leysa málið eftir getu, og gerði hann það. Auk þess gerði forsrh. tilraun til þess, að málið yrði á fleiri manna vitorði í Danmörku, þeirra er hafa pólitísk völd, þótt Danastjórn hafi að vísu ekki völd til þess að skipa málinu á annan veg en það var komið á. Þó að mál þetta veki mikið umtal og gremju hér á landi, þá getum við samt af því lært. Það, sem hér hefir gerzt, er það að eitt mesta framfarafyrirtæki landsins hefir orðið að þola kúgun vegna mikillar lántöku erlendis. Þetta sýnir ljóslega hættu þá, sem stafar af því, að stofna gætilega til skulda. Og ummæli hv. þm. Dal. um málið sýna ennfremur, að hann ber ekki nógu mikið skyn á þessa hlið sjálfstæðisbaráttunnar.

Þá kem ég aftur að hv. 3. þm. Reykv. Hann var að bera mér það á brýn, að ég væri afturhaldssamur í þessu máli og að ég gæti ekki séð þær framfarir, sem orðið hefðu í Rvík. En ég held, að hv. þm. sé búinn að gleyma fyrri hluta afskipta flokks síns af þessu máli. Málið var tekið upp í bæjarstj. Rvíkur af Sigurði Jónassyni. Barðist hann ósleitilega fyrir því og fékk sinn flokk til þess að fylgja málinu eftir. Lengi framan af gerði Íhaldsflokkurinn ekkert annað en svívirða málið og reyndi að gera það hlægilegt í augum almennings. En fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í fyrra, þegar ljóst var orðið, að meiri hluti bæjarbúa var orðinn málinu fylgjandi, þá fyrst snerist Íhaldsflokkurinn til fylgis við málið og hv. 3. þm. Reykv. varð að láta kúga sig til þess að segja, að það væri hvítt, sem hann hafði áður sagt, að væri svart. Aftur á móti höfum við Framsóknarmenn alltaf verið málinu hlynntir og litið á það með skilningi. Það er töluverður munur á því að fylgja máli, meðan það er óvinsælt og fylgja því á réttum grundvelli, og hinu, að berjast á móti því í fyrstu, en fylgja því síðan út í öfgar. Ég get fullyrt, þó að ekki sé fyrir því nein flokkssamþykkt, að við Framsóknarmenn viljum styðja að því, að Rvíkurbær geti virkjað Sogið, en við viljum ekki, að gengið sé að neinum ókjörum. Við erum eins mikið á móti öfgum íhaldsmanna nú og við vorum á móti þeim áður, er þeir vildu níða málið niður.

Ég hefi áður minnzt á það, að út frá þessum hugsunarhætti er það rétt hjá Sigurði Jónassyni að láta rannsaka málið og reyna síðan að framkvæma það af Rvíkurbæ sjálfum. Og það hefir aldrei komið fyrir fyrr en nú, þegar íhaldsmenn eru búnir að koma fjárhag bæjarins í óreiðu, að bærinn hafi ekki getað fengið lán. Það hefir komið í ljós, að bærinn hefir haft mann nokkurn útlendan í förum, nokkurskonar Kúlu-Andersen, til þess að leita fjármagns fyrir Rvíkurbæ erlendis. Þessi sami maður fór svo jafnframt í erindum fyrir ýms gjaldþrota firmu hér í bænum. Er þá hægt að hugsa sér, hvaða álit maðurinn muni hafa haft á sér. Þetta sýnir ljóslega forustu íhaldsmanna. Nákvæmlega sami aumingjaskapurinn átti sér stað árið 1921. Þeir, sem aðallega stóðu að láninu þá, voru ekki heiðarlegir Íslendingar, heldur þekkingarlausir útlendingar. Vegna þessa aumingjaskapar slá íhaldsmenn sér nú á brjóst og segja, að Rvík geti ekkert lán fengið. En íhaldið hefir aldrei reynt að taka lán á annan hátt en þann, sem aumastur er og ólíklegastur. Ég geri ráð fyrir því, að innan flokks hv. 3. þm. Reykv. séu til menn, sem betur gætu tekið slík mál að sér en þeir, sem flokkurinn hefir notað til þess að leita fyrir sér um lán. Og ég kenni ekkert í brjósti um Rvíkurbæ, þó að hann leiti fyrir sér um lán í þeim þremur peningalöndum, Englandi, Frakklandi og Þýzkalandi, sem vilja lána fé, ef trygging er sett fyrir lántökunni. Geti þeir sömu menn, sem segja, að allur höfuðauður landsins sé samankominn í Rvík, ekki tekið lán fyrir bæinn í þessum löndum, gegn veði í Sogsvirkjuninni, þá verða bæjarbúar líklega að bíða eftir því, að betri stjórn verði á málum þeirra. Undanfarið hefir stjórn bæjarmálanna verið ömurleg. Þá gæti skeð, að augu Rvíkinga opnuðust fyrir því, að ekki væri gott fyrir þá að hafa fulltrúa, sem fyrst kæmu málefnum bæjarins í öngþveiti og leituðu síðan til landsins og bæðu það um hjálp.