01.04.1931
Neðri deild: 39. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í C-deild Alþingistíðinda. (1627)

283. mál, virkjun Efra-Sogs

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. 3. þm. Reykv. hefir nú fallið frá öllum þeim ásökunum sínum, sem höfðu nokkurt efnisinnihald, og get ég því verið stuttorður, enda var þessi síðasta ræða hans hálfgert undanhald. Einn misskilning vildi ég þó leiðrétta hjá hv. þm. Hann lét svo um mælt, að það hefði verið höfðuð sakamálsrannsókn á borgarstjórann hér í Reykjavík. Þetta er með öllu rangt. Það var kært yfir bæjarreikningunum, og voru það svo þungar ásakanir, að óhjákvæmilegt var að láta rannsókn fara fram í málinu. (MG: Hver kærði?). Einn borgari hér í bænum, sem betra hefði verið fyrir borgarstjórann að vera ekki að etja kappi við með heimskulegum málsóknum. Annars kemur það ekki málinu við, hver kærði, en hjá þessu varð ekki komizt, úr því að borgarstjórinn áleit sér óhætt að leggja mál sín undir dómstólana. — Þar sem hv. flm. hefir fallið frá því að rökstyðja, að Rvíkurbær hefði þurft á þessari ábyrgð að halda, ef fjármálum bæjarins hefði verið vel stjórnað, sé ég ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð.