01.04.1931
Neðri deild: 39. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í C-deild Alþingistíðinda. (1650)

283. mál, virkjun Efra-Sogs

Ólafur Thors:

Af því að ég veit, að ef ég tæki til máls nú, sem ég hefði ærna ástæðu og mikla löngun til, þá mundi það verða til þess, að málið fengi ekki afgreiðslu á þessum fundi, þá mun ég af því, og einungis af því, falla frá orðinu að þessu sinni, til þess að tefja ekki framgang málsins. Hinsvegar áskil ég mér óskertan rétt til þess við 2. umr. að taka margvíslegar firrur hæstv. ráðh. til frekari athugunar.

Að ráðh. hafi veðsett tekjur og eignir ríkisins er tvímælalaust. Að hann blygðist sín fyrir það, eftir allt hjalið um enska lánið 1921, er skiljanlegt og skal af mér með öllu átölulaust. En hitt er ekki vansalaust, að maður, sem er ráðh., að m. k. þó að nafninu til, skuli missa alla stjórn á sér, þó hann sé minntur á yfirsjónir sínar, og venjan hefir nú verið sú, að dómsmrh. hefir verið einn um slíkt æði hér á Alþingi.