03.03.1931
Efri deild: 14. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í C-deild Alþingistíðinda. (1712)

69. mál, hlutafélög

Flm. (Jón Baldvinsson):

Það er eiginlega gerð nægileg grein fyrir þessu frv. í grg. þeirri, sem fylgir því á þskj. 69.

Það hefir komið í ljós, að hlutabréf, sem hafa verið veðsett bönkum og sparisjóðum, hafa ekki þótt nægilega trygg veð, vegna þess að viðkomandi hlutafélög hafa vefengt, að þessar stofnanir, þótt þær hafi eignazt þau með nauðungarsölu, gætu selt þau aftur, nema forkaupsréttur sé veittur þeim, sem telja sig hafa hann samkv. samþykktum hlutafélagsins.

Ýmis hlutafélög hafa það í lögum sínum, að stj. félagsins hafi forkaupsrétt að hlutabréfunum og þar næst einstakir hluthafar. Þennan rétt hafa félögin viljað teygja svo, að þeir, sem eignast bréfin á þennan hátt, geti ekki selt þau nema þeir bjóði þeim bréfin fyrst til kaups.

Þetta skiptir ekki miklu máli fyrir banka og sparisjóði; það skiptir mestu fyrir þá, sem eiga þessi bréf. Þau geta verið þægileg, þegar um skyndilán er að ræða, ef hægt er að veðsetja þau, því að þá geta menn ef til vill sloppið við að útvega sér ábyrgðarmenn eða að setja fasteignaveð.

Sennilegt er, að ef dómstólarnir úrskurða áðurnefnda kröfu hlutafélaganna um forkaupsréttinn réttmæta, þá verði hlutabréfin aldrei tekin gild sem handveð, hversu góð sem þau annars kunna að vera. Ef til vill væri oft hægt að fá samninga um þetta atriði við stjórn félaganna, en hitt væri næstum ómögulegt, að fá alla hluthafana til að afsala sér þeim forkaupsrétti, sem þeir eftir samþykktum félags síns kynnu að hafa. Það væri ógerningur að ná til þeirra allra, nema þá í afarfámennum félögum. Sérstaklega væri þetta ómögulegt ef stjórn félagsins væri á öðrum stað.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, en legg til, að frv. verði að umr. lokinni vísað til allshn.