05.03.1931
Efri deild: 16. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (19)

29. mál, utanfararstyrkur presta

Frsm. (Guðrún Lárusdóttir):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, ber fram nýmæli, sem ættu smámsaman að geta flutt nýjan, hressandi blæ inn í lognmollu hverdagslífsins í strjálbýli voru.

Íslenzku prestarnir hafa, margir hverjir, átt þess lítinn kost að fylgjast með eða kynnast til muna andlegri starfsemi nágrannaþjóðanna. Til þess hefir þá fyrst og fremst skort fé, og þar að auki hefir almenningi verið það tæplega nógu ljóst, hversu skaðleg einangrun og fasinni er fyrir starf prestsins. Hinsvegar er af prestunum heimtað allmikið, 50–60 stólræður á ári, tækifærisræður að auki, og alltaf er ætlazt til þess, að presturinn flytji fólkinu eitthvað, sem vert er að gera sér mikið ómak til þess að hlusta á.

Sú var tíðin, að prestarnir voru aðalleiðtogar þjóðarinnar og prestsheimilin aðalmenningarstöðvar hennar. Þar lærðu efnilegir bændasynir undir skóla, mörg stúlkan hlaut þar og alla sína undirbúningsfræðslu í húsmóðurstöðuna, og síðast en ekki sízt voru þangað sótt öll ráð og leiðbeiningar í hverskonar vandamálum. Þó að laun prestsins væru þá lág í krónutali, voru prestssetrin alltaf beztu bújarðir sveitanna, og búskapurinn var þá ódýr, svo að nógu var af að taka, þar sem ráðdeild og hyggindi héldust í hendur.

En nú eru tímarnir breyttir. Skólar eru komnir víða um landið, mikill fjöldi ungs fólks sækir þá, í stað þess eins og áður að leita sér mennta hjá presti sínum. Og hin aukna menntun í landinu eykur kröfurnar, ekki síður þær kröfur, sem þjóðin gerir til prestanna. Svo að sá prestur, sem vill standa vel í stöðu sinni, hlýtur að afla sér áframhaldandi þekkingar á hinum margvíslegu viðfangsefnum nútímans. Til þess þarf bæði á fé að halda og tíma. En hvorttveggja er af skornum skammti hjá prestum vorum allflestum.

Lítum á kjör þeirra. Með meiri eða minni námsskuldir á baki sér tekur ungi presturinn við embætti sínu, sem ekki er betur launað en svo, að ef presturinn er fjölskyldumaður og á að geta lifað sæmilegu lífi, þá hlýtur hann að eyða talsverðum tíma til annara starfa en þeirra, sem standa í beinu sambandi við prestsstöðu hans. Honum gefst því of lítill tími til lestrar; þar að auki leyfir efnahagur hans lítil eða engin bókakaup. Verður honum því lítt fært að fylgjast með því, sem gerist á andlegum svæðum þjóðanna, og uppbyggja sjálfan sig, svo að hann geti verið góður og nýtur prestur. Enda er yfirleitt efnahagur prestanna þannig, að þeir eiga þess engan kost af eigin rammleik að veita sér þá andlegu hressingu, sem ferðalög til útlanda allajafnan eru. Það er engin tilviljun, að meiri hluti íslenzkra presta hefir aldrei komið út fyrir landsteinana.

Ég tel ólíklegt, að það verði dregið í efa, að ferðalög og dvöl erlendis verði prestum til mikils gagns, engu síður en t. d. kennurum, og dæmi þekki ég þess, að íslenzkur söfnuður telur utanfarir presta gagnlegar. Dómkirkjusöfnuðurinn samþykkti fyrir eitthvað 15 árum að veita prestum sínum 500 kr. styrk til utanfarar á 5 ára fresti, og ég hefi engan heyrt telja það eftir.

Prestarnir, sem farið hafa utan, eru allt of fáir, en vænt þykir þeim um forina, sem farið gátu. Ef einhver efast um það, gæti hann t. d. spurt þá presta, sem fóru utan sumarið 1929 og sátu lúterska kirkjuþingið í Kaupmh., eða þá, sem fóru á alþjóðakirkjuþingið í Stokkhólmi 1925, hvort þeir telji ekki minningarnar frá þeim ferðum til andlegra verðmæta, sem tæpast verða metin til fjár.

Allir þessir prestar fengu lítilsháttar ferðastyrk og voru mjög stuttan tíma ytra. Þeir, sem fóru á lúterska kirkjuþingið, fengu ókeypis farseðla hjá Eimskipafélaginu og hinir 800 kr. hvor hjá ríkissjóði, enda þótti óhjákvæmilegt, að Ísland ætti fulltrúa á alþjóðakirkjuþinginu.

Ég hefi sjálf átt því láni að fagna að ferðast dálítið um nágrannalöndin og vera þar á fjölmennum safnaða- og alþjóðafundum, þar sem áhugasamir alvörumenn ræddu hin margvíslegu vandamal nútímans. Og ég veit, að auk hinna ýmsu góðu sambanda og kynningar við mæta menn, sem eitt út af fyrir sig getur haft mikla þýðingu, þá verða endurminningarnar eins og góðir förunautar, sem lyfta huganum og hvetja til dáða og starfa.

Ég held, að ver ættum því ekki að sjá eftir því fé, sem varið yrði til þess að gefa prestum vorum kost á að kynna sér starfsháttu og starfsemi annara þjóða. Af þeim er áreiðanlega margt fyrir oss að læra, bæði menningarlegu, kirkjulegu og mannúðarlegu tilliti. Hjá oss eru öll slík störf enn í bernsku. Ég treysti því, að það verði aldrei hægt að segja með sanni, að því fé sé illa varið, — ég treysti því, að góð áhrif séu meira heldur en gulls virði.

Hvað kostnaðinn snertir, þá fæ ég ekki betur seð en að hann sé smámunir einir, í samanburði við stærri upphæðir á reikningum þjóðarbúsins, og samanborið við það gagn fyrir þjóðina, sem óneitanlega er annarsvegar, ef vel er á haldið. Í þessu sambandi vil ég minna á útvarpið og það ákvæði 2. gr. frv., að prestum sé gert að skyldu að flytja erindi í útvarpið um einhver þau efni, sem þeir hefðu kynnt sér, til þess að sem flestir landsmenn nytu góðs af.

Ég treysti því, að hv. þdm. vaxi ekki í augum þessi fjárveiting til prestanna, sem hér er í fyrsta sinn borin fram á löggjafarþingi þjóðar vorrar. Íslendingar hafa að fornu og nýju verið gjarnir til frama og til að auka sjóndeildarhring sinn og auðga andann, og hefir þó oft ekki verið um annað að gera en að skreppa til annara landa.

Efnilegum kandidötum vorum hefir öðru hverju verið séð fyrir utanfararstyrk upp á síðkastið. Er það vel farið og ber þess vott, að sú leiðin, sem hér er farin, er viðurkennd; hitt virðist einnig liggja í augum uppi, að þó að það sé gott, að ungu, óreyndu mennirnir fái tækifæri til að kynnast nýjum staðháttum, þá er hitt þó ennþá betra, að þeim gefist kostur á því, sem þegar hafa tekið til starfa og fundið þá, hvar skórinn kreppir og hvað þeir þurfa sérstaklega að kynna sér.

Vér höfum vafalaust öll hitt að máli menn og konur, sem dvalið hafa erlendis í því skyni að afla sér víðtækari þekkingar á einhverju vissu viðfangsefni, t. d. til þess að kynna sér skólamál eða mannúðarmál, svo sem meðferð munaðarlausra barna, gamalmenna, sjúkra, — og þeim ber vist alloftast saman um það, að svo margt hafi verið að sjá og læra, að tíminn og féð hafi vanalega hvergi nærri hrokkið til.

Alþingi berast árlega margar fjárbeiðnir í þessu skyni. Mörgum þeirra hefir verið sinnt, þótt ekki hafi verið meiri trygging fyrir því, að þær yrðu að gagni, heldur en þar sem prestar vorir eiga í hlut.

Ég býst nú við, að menn geti yfirleitt orðið sammála um þetta. Og ég er viss um, að það verður öllum kirkju- og safnaðarvinum landsins gleðiefni, ef þetta frv. verður samþ. hér á hinu háa Alþingi. Ég mun taka þátt í þeirri gleði, enda þótt ég harmi það, að styrkurinn skuli ekki vera svo ríflegur, að prestarnir geti tekið konur sínar með sér. Þetta þykir nú kannske ekki koma málinu við. En þó verð ég að segja það, að þýðingarlítið er það ekki fyrir prestinn, ef kona hans er ekki einungis hans hægri hönd í búskapnum, heldur fylgist og með í prestsstarfi hans, og sérhvað það, sem færi í þá átt, væri þá ekki einskis virði. Mér finnst, að íslenzku prestskonurnar verðskuldi það, að þeirra sé minnzt. Þær hafa unnið í kyrrþey góð störf fyrir þjóðina. Ver eigum sjálfsagt öll hlýjar minningar um einhverja góða prestskonu, sem ávallt rétti fram hjálpandi hönd, þegar með þurfti. Vel gæti ég unnað þeim þess að kynnast víðtækari verkahring en þær hafa flestar hingað til átt kost á.

Um brtt. við frv. þetta get ég verið fáorð. Þær eru smávægilegar.

Með brtt. við 1. gr. er farið fram á að veita fríkirkjuprestum sama rétt til utanfararstyrks og þjóðkirkjuprestum. Það er nú liðin tíð, sem væntanlega kemur aldrei aftur, að fríkirkjumenn og prestar þeirra séu hafðir útundan, já, jafnvel fyrirlitnir. Gæti ég manna bezt borið um það, en slík verður jafnan viðurkenning þeirra manna, sem nýjar brautir ryðja eða fara ekki eftir fjöldans vegum.

Brtt. við 2. gr. er til þess að ganga sem bezt frá því, að utanferðir presta komi þeim að sem mestum notum. Gera má ráð fyrir því, að kirkjuráð verði, auk biskups, sem jafnan verður formaður þess, skipað málsmetandi mönnum, sem þekktu vel til ytra og hefðu vakandi áhuga fyrir því að koma prestunum á framfæri, þar sem vel yrði seð fyrir fór þeirra í hvívetna, til þess að hún yrði bæði prestunum sjálfum og sofnuðum þeirra og þjóð til gagns og sóma.

Ég treysti því fastlega, að hv. þdm. líti sanngjörnum augum á þessa liðsbón fyrir hönd þjóna kirkjunnar og greiði fyrir því, að frv. nái fram að ganga.