28.03.1931
Neðri deild: 36. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

33. mál, skattur af húseignum í Neskaupstað

Frsm. (Lárus Helgason):

Svo sem kunnugt er, er þetta frv. komið fram eftir ósk bæjarstjórnarinnar í Neskaupstað í Norðfirði. Það er kunnugt, að samskonar lög og þessi hafa nú á síðari árum verið samþ. fyrir ýmsa aðra kaupstaði á landinu. Í grg. frv. er nokkuð komið inn á nauðsyn þessa máls. Er þess getið, að bærinn þurfi að leggja þennan skatt á til þess að standa straum af sorp- og salernahreinsun, sótun, framkvæmdum í brunamálum, holræsagerð o. fl.

Eins og nál. allshn. ber með sér, hefir n. orðið sammála um frv. eins og það liggur fyrir, og hefi ég því ekki meira um það að segja fyrir hönd n. en að hún væntir þess, að hv. þd. samþ. frv.