18.03.1931
Efri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

100. mál, úrskurðarvald sáttanefnda

Frsm. (Pétur Magnússon):

Ég þarf ekki að bæta neinu við þær skýringar, er ég lét fylgja þessu frv. við 1. umr. Aðalefni þess er, eins og hv. þd. er kunnugt, að auka rétt sáttanefnda til þess að kveða upp úrskurði í minni háttar skuldamálum.

Frv. hefir nú verið fyrir allshn., og hefir hún orðið ásátt um að leggja til, að frv. verði samþykkt.

Þó komst n. að þeirri niðurstöðu við nánari athugun, að vegna þeirrar fjölgunar á úrskurðum, sem af frv. hlýtur að leiða, og aukinnar vinnu sáttanefnda, yrði eigi komizt hjá að auka litið eitt þóknun til sáttanefndarmanna.

Eftir gildandi lögum fá sáttanefndarmenn aðeins 25 aura þóknun hvor fyrir allan þorra þeirra mála, er þeir fjalla um. Fyrir satt skal þó greiða 83 aura og fyrir úrskurð 1 kr. til hvers sáttanefndarmanns, er um hann fjallar. Ef nú úrskurðum sáttanefnda fjölgaði að mun við samþykkt þessa frv., þótti n. tæplega verjandi að leggja aukakvöð á sáttanefndir án þess að auka þóknun þeirra. Hefir n, orðið ásátt um að leggja til, að þóknun til sáttanefndarmanna fyrir úrskurð hækki úr 1 kr. í 2 kr. til hvors nefndarmanns fyrir þau mál, þar sem kröfuupphæð fer fram úr 50 kr.

Ég held, að allir hljóti að verða sammála um það, að þessari hækkun sé mjög í hóf stillt. Sýnist, að úrskurðir sáttanefnda geti ekki talizt tilfinnanlega kostnaðarsamir, þó þóknunin sé hækkuð þetta, og a. m. k. verður miklu ódýrara að fá aðfararheimildina en nú er.

Að svo mæltu vænti ég þess, að hv. d. geti fallizt á frv. eins og það liggur fyrir ásamt brtt.