14.03.1931
Neðri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (248)

111. mál, opinber vinna

Hákon Kristófersson:

Það sé fjarri mér að vilja gera lítið úr þeirri fyrirhöfn og því hugarþeli, sem þurft hefir til að semja og bera fram þetta frv. Ég veit, að verkið hefir verið unnið sem kærleiksverk af umhyggju fyrir verkalýðnum, en ég vænti þess, að vinur minn hv. 1. flm. afsaki það, þó að ég verði að segja, að mér finnst ákvæði frv. vera sum ónauðsynleg, og ég get ekki stillt mig um að benda honum á, að ef þau verða að lögum, þá banna þau alveg þau samkomulagsákvæði, sem víða gilda í sveitum um vegavinnukaup. Eftir þessu kærleiksfrv. er óheimilt að vinna samkv. slíkum sveitarsamþykktum. Við í Barðastrandarsýslu yrðum að haga okkur eftir kauptaxta á Patreksfirði, því að annað verkalýðsfélag er ekki nær, nema þá kannske nýstofnað félag í Flatey. Ég skil ekkert í því að slíkt frv. sem þetta skuli koma frá jafnagætum mönnum. Ég get verið sammála flm. þessa frv. um það, að 10 stunda vinna á dag sé hæfileg. Það er sem sé sagt í frv., að verkamenn megi vinna allt að 10 stundum 5 daga vikunnar, en með því móti að draga það frá sjötta deginum, en það var nú misskilningur, enda hefir flm. ekki reynt að færa rök að því, að 10 stunda vinna á dag væri skaðleg.

Ég tók eftir því, að hv. flm, sagði, að vegamálastjóri gengi erinda verstu atvinnurekenda. Ég skil ekkert í því, hvað jafngætinn maður talar ógætilega, og um mann, sem hvergi er nærri. Án þess að ég telji þess þörf að taka svari vegamálastjóra hvað þetta snertir, vil ég þó taka það fram, að ég held, að það sé ekki rétt að ásaka hann um það, að hann vilji ekki borga nógu hátt kaup. Hér verður næst fyrir að minnast vegagerðarmanna, sem unnu vestur í Barðastrandarsýslu í sumar. Já, þar unnu menn fyrir 12 kr. á dag, alveg bráðónýtir, já, svo að ég held, að ég hefði ekki þorað að taka þá meðgjafarlaust, þótt ég hefði átt kost á þeim. Það má kannske segja, að þeir hafi ekki verið ónýtir til eins, og það var að fara svívirðilega illa með hestana, sem þeir unnu með. En þarna voru ekki brotin gildandi lög eða ákvæði, því að þarna var borgað samkv. kauptaxta verkamanna.

Í vetur hafa mér borizt fjölda margar fyrirspurnir, bæði bréflega og símleiðis, um það, hvort hægt yrði að fá vinnu fyrir vestan í vor fyrir kr. 8,00–8,50 á dag með 10 tíma vinnu, en þessir menn fengju ekki að ráða sig fyrir þetta kaup, þó að þeir vildu.

Það, sem mér þykir allra skaðlegast við þessi kauptaxtaákvæði, er það, að öllum skuli vera borgað jafnt kaup, bæði duglegum mönnum og lélegum. (HG: Þetta er lagmarkskaup). Var það lágmarkskaup, 12 kr.? Það er einkennilegt, að aðrir eins merkismenn og þessir skuli standa á bak við þetta frv., sem heimtar hærra kaup og minni vinnu. En þó að frv. sé nú ekki betra en þetta, þá vil ég nú, að hv. þd. sýni flm. þann sóma að vísa því til einhverrar nefndar, en jafnframt vildi ég láta leggja ríkt á við þá nefnd, að láta það aldrei koma frá sér aftur.

Ég get tekið undir það með hv. þm. V.-Húnv. og hv. 2. þm. Eyf., að afleiðingarnar af þessu frv., ef það yrði að lögum, ná lengra en til opinberrar vinnu, því þó lögin næðu ekki bókstaflega yfir annað en opinbera vinnu, þá mundi sú venja skapast, að önnur vinna yrði að lúta sömu ákvæðum. Enda sagði minn ágæti vinur, 1. flm., það einu sinni við mig, að ef það væri satt, að við bændur létum vinna svona lengi eins og sagt væri, þá væri ekkert vit í því nema að setja lög til að banna það. Nú, næsta sporið er auðvitað að neita öllum undantekningum og heimta að láta þurrt hey liggja flatt o. s. frv. (HV: ég hefi aldrei talað neitt um þetta; þetta eru ósannindi). Skelfing leiðist mér nú þetta; vegna hv. þm. vildi ég, að þetta væri ósatt mál, en ég verð að reyna að afsaka hann með minnisleysi. En hann hefir líklega misskilið mig. ég var að tala um þá stefnu, sem lægi bak við frv., og mér finnst nú sannarlega skorin færast upp í bekkinn, ef á að fara að banna sveitarfélögum að ákveða kaup við þau verk, sem þau láta vinna, heldur skuli gilda kauptaxtar óviðkomandi fjarlægra héraða.

Það má ekki gleymast, að með ákvæðum um stytting vinnutímans úr 10 tímum niður í 9 eða 8 vinnst þó eitt, og það er það, að það verður minnu afkastað. Í vissum tilfellum gæti þetta nú komið sér illa, ef t. d. verið væri að vinna eitthvert verk, sem þyrfti að vera lokið fyrir ákveðinn tíma, og svo er styttur vinnutíminn um tvo tíma á dag. Það er ekki lengi að draga sig saman, og svo er ekki hægt að ljúka verkinu fyrir vikið, en veturinn skellur á, og meira að segja, það sem búið er af verkinu, stórskemmist. Ég veit eitt áþreifanlegt dæmi frá síðasta hausti, er sannar þetta.

Við nánari athugun hefir hv. flm. þótt viðeigandi að gera ráð fyrir því, að hægt væri að vinna 10 tíma vinnu. Með því er fengin viðurkenning fyrir því, að það sé ekkert skaðlegt að vinna 10 tíma á dag.

Í sveitunum hafa menn nú einmitt komið auga á það, að ekki borgar sig að hafa langan vinnutíma. Þar er alveg hætt að vinna nema 10 tíma á dag, nema sérstaklega standi á. Bændur eru sem sagt komnir á þessa skoðun, og það er því alveg óþarft að vera að setja lög um þetta, því að hér er allt í lagi, og jafnvel þó að góður vilji sé á bak við frv., þá er það jafnóþarft fyrir því. Og svo er nú ekki um neitt smáræði að ræða, ef út af ber, 100–5000 kr. sektir. Raunar er það eitt, sem ekki hefir verið bent á, en leiða mundi af þessu frv., ef það yrði að lögum, að með stytting vinnutímans mundi skapast atvinna fyrir fleiri menn, en það getur nú verið spurning, hversu heilbrigt það er.