14.03.1931
Neðri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í C-deild Alþingistíðinda. (256)

111. mál, opinber vinna

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég skal vera bæði stuttorður og mjúkorður, svo að hægt sé að ljúka þessu máli, áður en venjulegur fundartími er riti.

Hv. 3. þm. Reykv. hefi ég fáu einu að svara. Ræða hans var að mestu leyti almennar hugleiðingar um lífið og tilveruna, sem ég get með öllu leitt hjá mér. Eitt atriði í ræðu hv. þm. verð ég þó að drepa á. Hv. þm. var að tala um það, að tekizt hefði að koma aðalatvinnurekstri okkar svo mjög á kné, að við lægi, að hann mundi stöðvast. Skildist mér á hv. þm., sem orsökin væri sú, hve miklar kaupkröfur hefðu verið gerðar við þennan atvinnurekstur. Þetta er auðvitað með ollu rangt. Örðugleikar þeir, sem sjávarútvegurinn á nú við að stríða, standa í engu sambandi við kaupkröfur verkamanna. Hinar raunverulegu orsakir fyrir þessum örðugleikum eru þær, að fiskverðið hefir fallið um yfir 1/3. Það er þessi verðlækkun, sem hefir skapað örðugleikana. Hitt getur engum óbrjáluðum manni dottið í hug, að verkamenn geti nokkru um ráðið fiskverðið á Spáni. Og að fara að blanda hinu almenna kaupgjaldi nú í landinu inn í umr. um þetta frv., nær vitanlega engri átt, þar sem frv. fjallar eingöngu um opinbera vinnu, og get ég þó að vísu fallizt á, að samþykkt frv. geti síðar haft einhver áhrif á það almenna kaupgjald.

Hv. 2. þm. G.-K. þarf ég sömuleiðis litlu að svara. Honum er ekki of gott að lita ofan í kokið á mér, ef hann hefir einhverja ánægju af því, og ég vona, að hv. þm. hafi ekki seð þar neitt Ijótt. Hvað ræðu hv. þm. snertir, verð ég að segja það, að mér þótti þar kenna ýmsra fáséðra grasa. Hv. þm. sagði, að kjarni þessa máls væri ekki sá, sem ég hefði sagt hann vera og var það, hvort ríkið ætti að gera verr eða betur við verkamenn sína heldur en einstakir atvinnurekendur, heldur væri kjarni málsins sá, hvort verkamenn ættu að vera liðugri við ríkið en einstaka atvinnurekendur eða ekki í kaupkröfum sínum. Og hv. þm. virtist vilja halda því fram, að verkamönnum ætti að vera ljúfara að vinna við lágu kaupi hjá ríkinu heldur en einstökum fyrirtækjum. Það virtist svo meira að segja, sem hv. þm. teldi þetta skyldu verkamanna. Minnir þessi hugsanagangur hv. 2. þm. G.-K. allmjög á hina alkunnu vísu:

Ó, hve margur yrði sæll

(ÓTh: Og elska mundi landið heitt, mætt' ann vera í mánuð þræll

og moka skít fyrir ekki neitt).

Þetta kann þá hv. þm. En hann virðist ekki hafa komið auga á það, að vísan er kveðin til þess að gera gys að samskonar kenningu og hv. þm. nú flytur hér. Höf. gerir gys að hv. þm. (ÓTh) og speki hans. Þær röksemdir hv. þm., að þeir verkamenn, sem opinbera vinnu stunda, séu jafnframt að skapa sjálfum sér verðmæti, eru alveg út í loftið, því að það eru yfirleitt eignalausir menn, sem þessa vinnu stunda, en ekki hinir, sem fasteignir eiga og njóta því verðhækkunarinnar af opinberum framkvæmdum.

Þá vil ég víkja að vantraustinu. Alþýðuflokkurinn hefir aldrei stutt núverandi stj. og gerir það ekki heldur nú. Það er vitað, að flokkur hv. 2. þm. G.K. er ekki meiri á velli en svo, að stj. hefir aldrei þurft á neinum stuðning að halda. Þm. Framsóknarflokksins eru 19, auk þess sem einn þm. fylgir flokknum að málum. Hinsvegar eru sjálfstæðiskempurnar ekki nema 17, svo að stj. kemst vel af án nokkurs stuðnings, enda hefi ég aldrei stutt hana. Hitt er annað mál, að ég skal ekki verða meinsmaður vantrausts á stj., ef hv. 2. þm. G.-K. ber það fram. En ég býst ekki við því, að hv. þm. verði mikill hugarléttir við þessa yfirlýsingu mína, enda hefir hann heyrt hana oft áður. Það, sem hann hefir út á mig að setja, er það, að ég skuli ekki vilja byggja eina sæng með honum. Hvað mundi taka við, ef íhaldsmönnum lánaðist að koma fram vantrausti? Ætli þeir mundu þá ekki taka við stj. í staðinn sem annar stærsti flokkur þingsins? Og hvað væri unnið við það? Eftir undirtektunum við þetta frv. að dæma, lítur að minnsta kosti ekki út fyrir, að það yrði til mikilla bóta að fá þeim í hendur framkvæmd og yfirstjórn opinberrar vinnu.

Hv. 2. þm. G.-K. var að hlakkast um yfir því, að ég væri til kaups. Ég neita því ekki, að ef hv. þm. vill ganga í endurnýjungu lífdaganna og koma fram áhugamálum verkalýðsins, getur komið til mála, að ég veiti honum og flokki hans lið í bili. En ef hann verður enn bölvaðri í þessum efnum en núv. stj., eins og búast má við, dettur mér það ekki í hug. En eins og ég hefi oft áður sagt hv. 2. þm. G.-K., þá eru það einmitt íhaldsmenn, sem eru stuðningsmenn núv. stj. Vegna þess, hve þeir gáfu illa raun á meðan þeim var trúað fyrir að fara með stj. í landinu, hryllir þjóðinni við þeirri hugsun að fela þeim stj. aftur, hún telur það að fara úr öskunni í eldinn. Hv. þm. var að tala um það, að núv. stj. píndi verkalýðinn með lágu kaupi og háum sköttum. Skal ég verða síðastur til að neita þessu, en ekki hefi ég heyrt það áður úr þeirri átt, þar sem er þessi hv. þm. og flokksbræður hans, enda geri ég mér ekki miklar vonir um umbætur í þessum efnum, þó að hv. þm. tækist að komast til valda. Ætli umbæturnar yrðu ekki svipaðar og hjá Róbóam sálaða forðum — svo að ég leyfi mér að vitna í biblíuna — því að það mun hafa verið hann, sem sagði: „Faðir minn gerði ok yðar þungt, en ég mun gera það enn þyngra; hann refsaði yður með svipum, en ég mun refsa yður með gaddasvipum“.