09.04.1931
Neðri deild: 42. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (360)

89. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég þarf ekki miklu að svara, en þó vil ég beina fáeinum orðum til hv. frsm. meiri hl.

Hann sagði, að það væri auðsætt, að meiri hluti fólksins vildi sameinast Reykjavík, en ég tók það fram, að rétta er fólk, sem er alveg nýflutt þangað og hefir engin tengsli við þennan stað. Þess vegna hlýtur maður að leggja meira upp úr orðum þeirra, sem eiga þessar jarðir og hafa verið þar lengi og vilja vera þar áfram.

Hv. þm. segir, að ekkert sé að byggja á útsvörunum, en mér skildist hann viðurkenna, að skattarnir væru háir, og það er þó á því að byggja. Þeir eru alveg eins háir þar og í Reykjavík. Þessi skattaflotti er því ekkert nema tilbúningur. Skattar eru eins háir þar eða hærri.

Hv. frsm. kvaðst ekki vita um sýslusjóðsgjaldið, en það skiptir miklu máli. ég vil nú spyrja hv. frsm., hvort hann vilji ekki fyrir 3. umr. útvega upplýsingar um það, hve hárri upphæð bærinn vilji bæta sýslunni þann tekjumissi, sem sýslan yrði fyrir, ef frv. yrði samþ. Það getur verið, að Reykjavík vilji borga ráð allt, en ég vil þá sjá það svart á hvítu, því að Kjósarsýslu er þetta mikið áhugamál.

Hv. frsm. heldur sér við það, að þessi partur úr Skildinganeshreppi tilheyri Reykjavík, af því að hann sé eyja innan Reykjavíkur. þetta á sér viða stað. ég hefi áður nefnt í því sambandi Friðriksberg og Kaupmannahöfn. Það þykir ekki nægileg ástæða til að heimta innlimun á minna sveitarfélagi, þó að það sé orðið eyja innan í hinu stærra. Ef við litum á þetta nánar og athugum hinn hluta Seltjarnarnessins, þá mætti eins segja, að þegar Reykjavík er búin að þenja sig suður að Skerjafirði, þá ætti eins að mega innlima það Rvík, því að þá er það orðið eins og rofa út úr Rvík. Í 4. gr. sveitarstjórnarlaganna er gefið skilyrðislaust leyfi þeim kauptúnum, sem hafa 300 íbúa eða fleiri, að vera sérstakt sveitarfélag, en þessi réttur á hér að verða af þeim tekinn, og það loforð, sem þeim var með lögum gefið, á að verða að engu haft.

Þá viðurkenndi hv. 3. þm. Reykv., að það væri engin augnabliksnauðsyn að fá þetta land, en af því að hann sæi lengra en út fyrir sitt asklok, þá sæi hann, að rétta mundi verða, og því fyrr, því betra. En ég sé ekki, hvers vegna þetta þarf að verða. Ég sé ekki, hvers vegna þarna má ekki vera sérstakt kauptún. Hv. þm. heldur, að þarna verði byggt svo heimskulega, að Reykjavík verði vegna þess að eyða stórfé, því að hún hafi áður orðið að gera það. En fyrst það hefir komið fyrir Rvík sjálfa, þá er ekki rétt að setja aðra undir Reykjavík, svo að þeir komist út í þessa sömu ófæru. Ég skil ekki annað en að aðrir ættu þar að læra af óförum Reykjavíkur.

Hv. þm. talaði um höfn við Skildinganes. Ég hefi ekki heyrt fyrr, að Reykjavík ætti á hættu, að höfn kæmi við Skildinganes. En má ég spyrja: Getur Reykjavík hindrað það, að höfn verði byggð við Skerjafjörð, þó að Skildinganes væri innlimað Reykjavík? Hafa menn þar ekki rétt til þess að setja þar hafnarbætur? Það sér hver maður, að þeir hafa þann rétt, en ég er hinsvegar ekkert hræddur um, að það komi fyrir, því að sú höfn yrði ærið kostnaðarsöm, þegar ekki er lengra en þetta til Reykjavíkur.

Þormóðsstaðayfirlýsinguna þarf ég ekki að minnast a. Hv. 3. þm. Reykv. er þar eigandinn, svo að það er eðlilegt, að vilji eigandans falli saman við vilja hv. þm. í þeim efnum. Hv. þm. segir, að þeir noti vegi og önnur gæði Reykjavíkur, en það gera Árnesingar og Rangæingar líka, og mun hv. þm. Þó ekki vilja halda fram, að eigi að innlima alla Árnesinga og Rangæinga fyrir þær sakir.

Þessi „önnur gæði“ mun vera atvinna hér í bænum. Þeir, sem hana sækja, færa bænum hagsmuni í staðinn. Þeir hafa hér viðskipti, sem bærinn hefir tekjur af. Ef þeir fá sér kaffibolla á „Borg“, greiða þeir fé fyrir, og svo leggur aftur bærinn útsvar á hóteleigandann. (HV: „Hótel Borg“ greiddi ekkert útsvar árið sem leið). Jæja, það má þá alveg eins taka „Hótel Ísland“ sem dæmi.