10.04.1931
Efri deild: 43. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í D-deild Alþingistíðinda. (642)

258. mál, lokun Íslandsbanka

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég þarf ekki miklu að svara síðustu ræðu hv. 4. landsk., því að sá hluti ræðu hans, sem að mér sneri, var í alla staði mjög hógvær, og hefi ég því ekki mikið við hann að athuga. Hv. þm. lét falla orð, sem töluð voru af hreinskilni, er hann sagði, að hann kenndi ekki núv. stj. um töp bankans. Og veit ég, að þarna hefir hv. þm. sagt eins og honum bjó í brjósti.

En út af ræðu hv. 1. landsk. vil ég geta þess, að mér þykir einkennilegt, hvernig hann vill snúa þessu máli. Hann vill sem sé halda því fram, að núv. stj. hafi unnið að því eftir megni í sinni stjórnartíð að eyðileggja bankann. Nú er það sannað, að bankinn hefir tapað 20 millj. kr., síðan hann tók til starfa. Það er rétt, að þessi töp hafa flest átt sér stað á seinni hluta starfstímans. En heldur hv. 1. landsk., að annað eins og þetta hafi ekki áhrif á jafnlítinn banka? 1921 átti bankinn raunverulega ekki til fyrir skuldum. Þá er tekið afardýrt lán í útlöndum handa bankanum, svo hann gæti friðað viðskiptavini sína í bili og starfað áfram. Bankinn lánaði þetta fé út fyrir minni vexti en hann varð sjálfur að borga af því. Þetta hefði auðvitað ekki getað staðið til lengdar. En þrátt fyrir það vænkaðist þó hagur bankans á árinu 1924. Þá verður hann vegna gengishækkunarinnar, sem kemur 1925, aftur fyrir miklu skakkafalli og verður að fá fé að láni á ný. Þetta lán útvegaði þáv. fjmrh., núv. hv. 1. landsk. Þá hjarði bankinn sæmilega um hríð, enda voru þessi ár góðæri.

Þá greiðir bankinn bráðabirgðalán, 1 millj. kr., og dregur inn seðla, einnig 1 millj. kr. Ástand bankans var nú samt ekki betra en svo, á þessar greiðslur urðu honum ofraun. Og þetta m. a. er þess valdandi, að bankinn varð að hætta störfum. Allt stafar þetta af þeim töpum, sem bankinn varð fyrir árið 1929. Þegar þetta mál var til umr. í fyrra, var mikið sagt af fjarstæðum um það, hve hagur bankans væri góður, og var því jafnvel haldið fram af bankastjórunum, að ef honum væri veittur 700–800 þús. kr. stuðningur, þá gæti hann vel haldið áfram störfum. Allir vissu þó, að þetta náði ekki nokkurri átt. Og svo þegar álit n. kom opinberlega fram, þá skrifuðu bankastjórarnir, sem þá voru á förum frá bankanum, alllanga grg. til þess að hnekkja skýrslu rannsóknarn. Allt þetta fánýta yfirklór bankastj. er eins árs reynsla búin að sýna, að var einber blekking.

Það kom fram í umr. hér í fyrra, hjá bankastj., að þeir hefðu vitað þá alllengi um hag bankans og ástand. En það var ekki fyrr en í umr. í fyrra, að ríkisstj. var kunnugt, að bankastj. höfðu oft ekki vitað að morgni, hvernig þeir áttu að „klára“ þann og þann daginn.

Ég held, að það sé þýðingarlaust fyrir hv. 1. landsk. að vera alltaf að reyna að leiða hugi manna frá hinum raunverulegu orsökum þess, að bankinn varð að loka. Reikningar bankans koma nú mjög bráðlega fyrir almennings sjónir, og þar auðvitað m. a. skýrslur um afskriftir bankans. Og eftir að kunnugt er um þær, finnst mér þýðingarlaust að vera að gera sér vonir um, að eitthvað fáist upp í þessar afskrifuðu skuldir.

Það þýðir heldur ekki í þessu sambandi að tala um Samvinnubankann danska. Hvort hann hefir getað borgað 80–90%, kemur ekki þessu máli við. Því að það er fullkomlega sannað, að Íslandsbanki gat ekki borgað líkt því svo mikið.

Sé ég svo ekki ástæðu til þess að fara lengra út í að deila um þetta mál. Það, sem hér liggur fyrir, er að skipa nefnd til þess að rannsaka, hver sé hin raunverulega orsök að töpum bankans. Fyrir mér er þetta engin ráðgáta lengur, hvort þau eru að kenna einstökum mönnum eða óviðráðanlegum orsökum. Allir vita, að ef bankinn hefði ekki tapað svona miklu fé, eins og raun ber vitni um, þá gæti hann starfað enn þann dag í dag án alls stuðnings frá ríkinu.