25.03.1931
Neðri deild: 33. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (694)

4. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurður Eggerz:

Ég ætla að þessu sinni að minnast á aðeins eina till. frá meiri hl. fjhn. Þessi till. fer fram á að heimila ríkisstj. að gera vissar breyt. á tekju- og eignarskattinum. Eins og kunnugt er, þá kom í frv. ákvæði um að heimila að gera þessar breyt. í fjárlögum. því var skotið undir úrskurð forseta, en sá úrskurður féll þannig, að það stríddi á móti ákvæðum stjskr. að ákveða þetta í fjárlögum. Eins og ég hefi áður lýst yfir, þá er ég hissa á því, að hv. meiri hl. fjhn. skuli nú koma fram með þessa till., sem að minni ætlan er í beinu stríði við þennan úrskurð hæstv. forseta. Ég vil leyfa mér á ný að gera grein fyrir þeirri skoðun minni.

Eins og menn vita, þá byggist úrskurður forseta á 36. gr. stjskr. Þar stendur svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum“.

Nú er spurningin, þegar talað er um lög, hvort þar er einnig átt við fjárlög. Úrskurður forseta var þannig, að þegar talað er um lög, þá væri ekki átt við fjárlög, enda sýna margar greinar í stjskr. það, að munur er gerður á lögum og fjárlögum. Ástæðan til, að stjskr. kveður svo skýrt á um þetta, er sú, að það hefir svo mikla þýðingu fyrir borgarana, að ekki sé hvatvíslega verið að breyta sköttum í landinu. Þetta er hverjum einasta manni viðkomandi, og því vill stjskr. með þessu ákvæði skapa örugga tryggingu fyrir því, að ekkert sé gert í fljótræði, heldur sé lagaleiðin farin.

Á fjárl. og lögum almennt er sá munur, að fjárlögin er hægt að samþykkja í Sþ. með einföldum meiri hl., en til þess að samþykkja önnur lög þarf „kvalificeraðan“ meiri hl.

Úrskurður forseta féll þannig, að ekki væri heimilt að ákveða þetta í frárl., en þegar sá úrskurður er fallinn, þá furðar mig, að menn skuli álíta, að hægt sé að fela stj. að breyta lögunum, þegar ekki má breyta þeim með fjárlagaákvæði, því að svo lengi sem það ákvæði stæði í lögunum, að heimilt væri að breyta skattaálaginu með fjárlagaákvæði, þá væri það í höndum Alþingis, hvort lögunum skuli breytt á einn eða annan hátt. En ef þetta er lagt í hendur stj., þá hefir Alþingi enga íhlutun um þetta. Því sýnist mér það ekki koma til mála að gefa stj. vald til þess að breyta lögum í landinu, eða m. ö. o. gefa henni vald til að leggja á nýja skatta. Þess vegna er nauðsynlegt að halda sér við þetta, sem stjskr. ákveður. Hvernig færi, ef ætti að víkja frá ákvæðum stjskr., t. d. að því er tryggingu þá snertir, sem sköpuð er í stjskr. fyrir dómsvaldið? Hvernig væru þá þeir menn staddir, sem væru á svörtum lista hjá ósvífinni ríkisstjórn, ef þeir ættu ekki næga tryggingu í óhlutdrægni dómstólanna? Ég er hræddur um, að þeir stæðu nokkuð hollum fæti. Fjárhagurinn stæði líka höllum fæti, ef það mætti liggja í hendi eyðslusamrar stj., hvort hún legði á nýja skatta eða ekki. Það er því hin mesta hætta að syndga gegn tryggingarákvæðum stjskr., bæði í þessum efnum og öðrum. Ég verð því að vænta þess, að hæstv. forseti úrskurði það, að þessi till. sé ekki síður í stríði við stjskr. en fyrri till. sem hann úrskurðaði, að væri í stríði við stjskr.

Ég verð að segja það, að ég var alveg hissa, þegar einn hv. þm. í þessari áreiðanlega ekki verið guð Ísraels, sem stóð á bak við hæstv. forseta, þegar hann kvað upp úrskurðinn, heldur hefði það verið guð skattþegnafélagsins, sem stóð þar. Þessi orð hv. þm. er ekki hægt að skilja á aðra leið en þá, að hæstv. forseti hafi kveðið upp úrskurð eftir því, sem einhver annar hafi blasið honum inn, en ekki eftir því, sem hann hafi sjálfur álitið rétt. Það er ekki mitt að svara fyrir hæstv. forseta, en ég er sannfærður um, að sú niðurstaða, sem hann komst að í úrskurði sínum, var rétt og ekki innblásin af öðru en því, sem sterk rödd hinnar heilbrigðu skynsemi hefir sagt honum.

Ég þarf svo ekki fleiri orð um þetta, en vil einnig skjóta þessari till. undir úrskurð hæstv. forseta, og ég er sannfærður um, að hann getur ekki fallið nema á eina leið, því að ef ekki má trúa fjárveitingavaldinu til að breyta lögunum, þá er því síður hægt að trúa stj. landsins til þess, hverjir sem hana skipa.