20.02.1931
Neðri deild: 5. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í C-deild Alþingistíðinda. (729)

9. mál, ríkisbókhald og endurskoðun

Magnús Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að tala langt mál. En ég varð vonsvikinn, að hæstv. fjmrh. skyldi ekki gefa upplýsingar um kostnað af þessu frv. og hvað sparaðist, því að enginn má vera skeytingarlaus um það, sízt nú, þegar þm. stjórnarinnar sjá ekki annað bjargráð í fjármalaöngþveitinu en að draga 10% af kaupi þingmanna.

Út af því, sem hæstv. fjmrh. greip fram í um laun skrifstofustjóra, er hafa að byrjunarlaunum 5 þús. kr., verð ég að staðhæfa, að þessi endurskoðandi á að hafa hærri laun en þeir. (Fjmrh.: Hann er gamall endurskoðandi. — SE: Er Sambandið sama og ríkið?). Hann er að byrja endurskoðun hjá ríkinu.

Mér skilst þetta vera gert eftir nokkurskonar kröfu frá erlendum ríkjum, og hæstv. ráðh. vísaði mér til sendiherra okkar í Kaupmannnahöfn og Jóns Krabbe. Það þykir mér undarlegt.

Það er raunar freisting að fara út í einstök atriði. Hvernig eiga t. d. endurskoðendur eins og segir í 8. gr. 3. málsl. að gæta þess, að engin útgjöld séu innt af hendi án lagaheimildar, að fjárveitingar séu réttilega notaðar samkvæmt fyrirmælum og að útgjöld, tekjur og aðrir liðir viðskiptanna séu bókfærðir á réttan hátt.

Það er ómögulegt að heimta þetta af endurskoðendum, því að þeir fá ekki að vita um annað en það, sem búið er að borga. Og þá held ég, að athugasemdirnar yrðu nokkuð margar, ef endurskoðendurnir ættu að láta þær ná yfir allt, sem stjórnin hefir greitt án heimildar í fjárlögum. Það er nokkuð mikið vald, sem þessum endurskoðendum er gefið, þar sem þeir eiga að geta lagt fyrir ráðuneytið að rannsaka frá rotum hvaða atriði, sem þeim finnst athugavert. Skrifstofustjórarnir eiga þá að fara að verða vikadrengir þeirra. Annars skal ég lýsa ánægju minni yfir þeim upplýsingum, sem endurskoðendur eiga kost á að fá samkv. 2. gr., því að stundum hefir viljað bresta á, að þær fengjust.

Mér finnst launin í þessu nýja embætti vera mikil. Maðurinn, sem þegar er settur, fær 5400 kr. árslaun, og bráðlega mun þurfa fleiri menn til þessara starfa í stjórnarráðinu. Þó að samþ. yrði hin ágæta till. um 10% lækkun á þingfararkaupi, nægði það ekki einu sinni til að borga einum endurskoðanda, hvað þá tveimur mönnum eða fleirum.