26.03.1931
Efri deild: 34. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

25. mál, bókasöfn prestakalla

Frsm. (Guðrún Lárusdóttir):

Ég ætla strax að svara hæstv. dómsmrh. Ég vildi ekki kasta rýrð á neinn nefndarmanna, enda gerði ég það ekki. Mun hæstv. ráðh. þekkja orðatiltækið: „eigi lasta ég einn, þótt lofi annan“. Þau mál öll, sem kirkjumálanefndin hafði með höndum, eru svo nátengd prestunum og starfi þeirra, að þau hljóta að verða enn heitari áhugamál fyrir þeim heldur en leikmönnum, an þess að ég vilji á nokkurn hátt væna þá um áhugaleysi.

Viðvíkjandi brtt. minni hl. n. vil ég benda á, að ekki er sama fyrir prestana, hvaða bækur það eru, sem þeir hafa aðgang að. Víða hvar á Íslandi eru til lestrarsöfn. Ég hefi séð ýms þeirra, og í sumum þeirra hefi ég varla nokkra bók séð þannig, að presturinn sem slíkur hefði sérstök not af.

Hvað snertir borgun fyrir störf bókanefndar, þá er það tekið fram í 3. gr., að prestar eigi sjálfir að borga flutningsgjaldið af bókunum, og það er vitanlega aðalkostnaðurinn. Annars gætu orðið lítilsháttar útgjöld við bréfaskriftir og bókapantanir, og það yrði því hið eina, sem felli til bókanefndar, því að laun til hennar virðast mér ekki geta komið til mála. Í frv. var upphaflega tekið fram, að bókanefnd skyldi starfa alveg kauplaust. Hv. Nd. sleppti þessu ákvæði. Ég get að vísu ekki ímyndað mér, að bókanefnd fari að ásælast kaup fyrir starfa sinn. En allur er varinn góður, og ef einhverjir menn veldust til þessa starfs, er svo aumlega hugsuðu, þá er ástæða til að taka þetta greinilega fram. Mér þykir engin ástæða til að málið þvælast lengur hér í hv. d., þegar allir eru eiginlega sammála um það, sem máli skiptir. Get ég því látið máli mínu lokið og vænti þess, að hv. d. samþ. frv.