13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í C-deild Alþingistíðinda. (827)

19. mál, nýr vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Svo langa stigu, sem þetta mál um samgönguþörf landbúnaðarhéraðanna austanfjalls, á að baki sér, svo mikið deilumál sem það hefir verið, hefði mátt búast við, að sú nefnd, sem skilaði áliti um það, hefði klofnað og gengi frá því þannig, að fyrir lægju mjög víðtækar og rækilegar till., er kosta mundu langar og harðar umr. En engu slíku er til að dreifa. Heldur hafa allir nm. orðið á eitt sáttir og skilað sama áliti. Að vísu hafa sumir þeirra skrifað undir með fyrirvara, en af ræðu hv. frsm. mátti heyra, að öll n. væri sammála um það, að málið fengi fram að ganga á þeim grundvelli, sem fyrir liggur.

Hins vegar hefir hv. frsm., 2. þm. Árn., látið í ljós von um meiri og fullkomnari vegabætur síðar, og vona ég líka, að svo fari, ekki aðeins um samgöngur á Suðurlandsundirlendinu, heldur og um samgöngur um landið yfirleitt.

Ég vil því eins og hv. frsm. láta í ljós ánægju mína og þakka fyrir gott samkomulag í hv. samgmn. og glöggan skilning á lausn þessara mála. Vona ég, að þetta bendi til þess, að gott samkomulag fáist í aðalatriðum um bætta vegi og samgöngumál landsins, svo að þetta mál verði ekkert „eilífðarmál“ hér eftir, heldur verði gengið að því fast og ákveðið að bæta samgöngurnar og að byrjað verði við fyrsta tækifæri á þeim vegabótum, sem frv. þetta gerir ráð fyrir.

Eins og hv. frsm. hefir tekið fram, er aðeins um eina efnisbreytingu að ræða í brtt. hv. n. Er. út af fyrirspurn hans viðvíkjandi þessari brtt. (3.brtt), hvort ég sem atvmrh. sé sammála vegamálastjóra, þá er því til að svara, að vel má vera, að nú fari að styttast í því, að ég verði atvmrh., en hitt býst ég við að skipti litlu máli, hvaða skoðun þm. Str. hefir á þessu atriði.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en vona, að málið fái að ganga áfram.