13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í C-deild Alþingistíðinda. (829)

19. mál, nýr vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Jón Auðunn Jónsson:

Ég hefi unnið að afgreiðslu þessa máls í samgmn. og er einn þeirra 3ja nm., sem ritað hafa undir nál. með fyrirvara. En minn fyrirvari nær aðeins til 2. og 3. brtt. á þskj. 343, enda sé ég ekki ástæðu til að samþ. þær. Seinni málsgr. 2. gr. kveður svo á, að vegarkafli sá, sem um er að ræða, skuli vera vetrarvegur og því engin þörf að fella aftan af gr. orðin „í stað núverandi vegar um Hellisheiði“ þar sem engin ákvörðun er tekin í þessu frv., að vegurinn verði annað en vetrarvegur.

3. brtt. get ég ekki fylgt, eftir að ég hefi heyrt rök vegamálastjóra. Hann segir, að ekki komi til mala að leggja þriðja veginn, því að þó að sú leið sé 1 km. styttri frá Kolviðarhóli og austur, þá yrði sá vegur svo afardýr, að aldrei mundi verða lagt út í að leggja hann. Það munar litlu, hvort vegurinn er 1 km. styttri eða lengri. Hitt er fyrir mestu, að hann sé sæmilegur yfirferðar. Vegurinn yfir Skarðið, ef upp yrði tekinn, eins og liggur opið fyrir að gera, ef þessi brtt. er samþ., er svo, að ekki nær nokkurri átt að leggja hann. Yfirbyggingin ein mundi kosta um 350 þús. kr. Auk þess verður lagningarkostnaðurinn afardýr sakir brattans og halla, enda óvíst, að vegurinn yrði til muna styttri, þegar allir krókar og bugður eru teknar með.

Það er auðvitað áríðandi að fá bættar vetrarsamgöngur um Hellisheiði. En um það má eflaust deila, hvort sú tilraun, sem frv. ráðgerir, bæti úr, og að vegur þessi sé svo upp úr snjó, að hann verði jafnan fær. Ég er þeirrar trúar, að þetta lánist og því ljæ ég frv. fylgi mitt. Hins vegar má ekki búast við öllum þessum vegabótum í náinni framtíð, og engin von um að hægt verði að vinna þetta verk á næstu árum, eins og fjárhag ríkissjóðs er komið. Allir vita, að ríkissjóður er þurrausinn og skuldir ríkisins margfaldaðar, og hlýtur því að verða nokkur bið á, að svo rætist úr, að hægt verði að taka upp aftur nauðsynlegustu framkvæmdir.