13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í C-deild Alþingistíðinda. (840)

19. mál, nýr vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Magnús Guðmundsson:

Ég sé ekki af þessu frv., að neinir möguleikar skapist til mjög bráðra framkvæmda, því að í 4. gr. er tilskilið, að veitt sé fé í fjárlögum, og þá eru engar líkur til, að á árinu 1932 verði neitt gert.

Hv. þm. kvaðst líta svo á, að með þessu frv. væri ýtt undir framlög síðar. Ég tel nú vafa á því, ef nú verða lagðar fram 1–2 millj., að þá verði auðveldara að fá enn meira í viðbót eða ef til vill til annarar samgöngubótar. Ég hygg, að betra væri að fá til þessa fé síðar, ef ekki væri að gert nú. En ef þeir þm., sem hér eiga hlut að máli, telja með þessu betur farið en heima setið, skal ég ekki verða meinsmaður þess og mun því ekki greiða atkv.