20.03.1931
Neðri deild: 29. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í C-deild Alþingistíðinda. (867)

20. mál, búfjárrækt

Lárus Helgason:

Ég býst nú ekki við að tefja tímann með langri ræðu, fremur en minn er vandi. Ég tel hv. frsm. hafa gert svo glögga grein fyrir afstöðu landbn., að litlu sé þar við að bæta. Á hinn bóginn er mér fremur óljúft að deila við hæstv. forsrh. um þetta mál, því að ég þekki of vel hinn eldheita áhuga hans fyrir landbúnaðinum, og ég er þess fullviss, að honum gengur ekki annað en gott til, er hann leggst á móti till. n. Ég tók þess vegna ekki nærri mér í gær að þola ávítur hans til okkar nm. fyrir þær brtt., sem við höfum flutt við þetta frv. Ég get vel skilið, að hæstv. ráðh. sárni það, að við skildum verða til þess að flytja till., sem ganga skemmra en frv. hans, en ég vænti þess, að ræða hv. frsm. hafi fært hæstv. ráðh. heim sanninn um það, að það er ekki tómlæti um hag og velfarnað landbúnaðarins, sem liggur að baki þessum till. okkar. Ég hefi þess vegna nokkra ástæða til þess að ætla, að góð samvinna geti orðið um afgreiðslu þessa frv., þrátt fyrir þennan ágreining, sem í rauninni má heita fremur óverulegur.

Hæstv. ráðh. gat þess í gær, að ef ráðunautar Búnaðarfélagsins, sem hlýddu á umr. í gær, hefðu málfrelsi hér í deildinni, þá myndu þeir styðja málstað hans í þeim greinum, sem á milli ber. Ég held, að ráðunautarnir þurfi ekki að kvarta um það, að þeir hafi ekki málsvara hér í d., þar sem er hæstv. forsrh. Annars skal ég segja það fyrir mína parta, að ég get ómögulega fylgt því gegnum þykkt og þunnt, sem ráðunautarnir leggja til, því að það er nú einu sinni svo, að sérfræðingum getur skjátlast ekki siður en öðrum dauðlegum mönnum. Ég kann ekki við þá hugsun, sem kom fram í ræðu hæstv. forsrh., að óhugsandi væri að framkvæma neitt í þessum málum nema samkv. ráðum sérfræðinganna, og að till, landbn. væri að engu hafandi að því leyti, sem þær fellu eigi saman við till. ráðunautanna. Hæstv. ráðh. veit það þó, að n. er skipuð þeim mönnum, sem væntanlega hafa þó eitthvert vit á þessum hlutum, þar sem um gamla og reynda bændur er að ræða. Ég kann þess vegna ekki við það, ef á að hundsa till. nm. á þeim grundvelli, að þeir hafi ekkert vit á þessum hlutum, eða a. m. k. lítið í samanburði við ráðunautana.

Hæstv. ráðh. fannst það ósamræmi hjá n. að vilja ekki beina tilstyrk hins opinbera að búfjárræktinni í eins ríkum mæli og að jarðræktinni eftir gildandi lögum. Þetta er ekkert ósamræmi, því að jarðræktin er þó undirstaðan og frumskilyrði búfjárræktarinnar, og hinsvegar ber á það að líta, hversu skammt jarðræktin er enn komin hér á landi, svo að segja má, að hún sé enn á byrjunarstigi, eða tæplega það í sumum greinum. Ég er alveg sannfærður um það, að brýnni þörf er oss á að stuðla að aukinni jarðrækt í landinu og aukinni og bættri fóðuröflun handa búfénaðinum heldur en hinu, að fara að taka upp ýmiskonar skriffinnsku og skýrslugerð um það, er lýtur að búpeningsræktinni, og ýmsa mjög vafasama nýbreytni og óreynda hér. Ég tel mjög hæpið að lögfesta slíkt áður en full reynsla er fengin fyrir nytsemi þess, miðað við íslenzka staðhætti. Það er ekki einhlítt að bera okkur saman við önnur lönd hvað þessi mál snertir, því staðhættir eru þar aðrir, og það, sem kann að geta gengið vel þar, er óvist að þrifist her. Fjölbýli er þar meira og samgöngur örari, svo að hægara er að koma þar við ýmsu því, sem þetta frv. á að lögfesta hér á landi svo sem sýningum og ýmiskonar félagsskap til búpeningsræktar. Þó má ekki skilja orð mín svo, að ég sé á móti slíkri starfsemi í sjálfu sér, heldur óttast ég það, að slík löggjöf komi ekki að tilætluðu gagni, eins og búnaði vorum er háttað nú og ætla má að verði næstu ár. Ég get líka ekki varizt þeirri hugsun, að eins og nú standa sakir, þá hafi bændur annað að gera en að halda margbrotnar og flóknar skýrslur eða bókhald um fénaðinn í heild og einstaka gripi; ég býst við, að margir bændur þykist góðir, ef þeim tekst að fá fólk til þess að hirða búpeninginn, þó ekki sé annað. Ég hefi enga trú á því, að þessum lögum verði fylgt, og ég hefi enga trú á þessari skriffinnsku og stauti. Kynbætur búpenings eru að vísu þarflegar, en byrjunarstig allra kynbóta er bætt fóðrun. Þó að tilfærð séu einstök dæmi um arðsemi einstaklinga, þá er það engin sönnun þess, að ekki þurfi annað en að hefjast handa um kynbótatilraunir, því að slíkar tilraunir geta auðveldlega mistekizt, sérstaklega ef fóðrun og hirðing er ekki í því lagi, sem skyldi. Það er t. d. ómögulegt að fá margar ær til að gefa jafnan arð, þrátt fyrir kynbætur, en vitanlega má komast nærri því með kynbótum og góðri meðferð. N. er það vel ljóst, að frv. þetta stefnir að því leyti í rétta átt, og vill því engan veginn leggja stein í gotu þess. Er það álit okkar, að frv. standist betur í framkvæmdinni sem lög, ef brtt. okkar ná fram að ganga.

Það er ekki laust við, að ég kunni illa við það, ef á að lögfesta það, að fara til ráðunautanna með hvert smáræði, sem er, alveg eins og reynsla og þekking gamalla og góðra bænda sé að engu hafandi í hvívetna og í engu treystandi. Þó finnst mér nú skorin færast upp í bekkinn, ef það á að spyrja ráðunautana um það, hvort hafa megi 5 mánaða kálfa lausa ! o. s. frv. Ég hefi litla trú á því, að bændur afsali sér þessu valdi, hvað þá heldur því, sem meira er um vert, enda munu þeir jafnan vilja ráða því sjálfir, hversu þeir haga búskap sínum yfirleitt. Hvað þetta atriði snertir, sem ég drap á, þá vill n. láta hreppsfélögin hafa úrskurðar- og ákvörðunarrétt þess með samþykktum. Sama er að segja um hrútana; það á, samkv. frv., að sækja um leyfi til þess að mega láta þá ganga lausa um vetrartímann. Við álítum heppilegra að láta sveitarfélögin raða þessu. Ég er sannfærður um það, að þótt það væri bannað með logum að láta hrúta ganga lausa frá 1. okt til 1. maí, þá yrði slíkt lagaboð að engu haft í framkvæmdinni. Það yrðu heilar sveitir og heilar sýslur, sem brytu það. En n. er allsendis ófús á það að setja lög, sem hún veit fyrirfram, að verða þverbrotin. Það þýðir ekki að gera of mikið úr sérfræði ráðunautanna; þeir hafa að vísu nokkra bóklega þekkingu, en skortir hinsvegar reynslu á móts við gamla og góða bændur. Ég veit það, að þetta eru góðir menn og áhugasamir og alls góðs maklegir, en oftrú á þekkingu þeirra er háskaleg. Ég vil fara vel með þessa menn, og fyndist mér vel viðeigandi að verja einhverju af þessu fé, sem ætlað er til sýninga og þvílíks, til bústaðar í sveit handa þessum mönnum, svo að þeir geti sýnt búmennsku sína og látið ljós sitt skína yfir nágrennið og þaðan út frá sér, öðrum til eftirbreytni í öllu, er að búskap lýtur. Það yrði nú líklega enginn vandræðabúskapur! Ég er alveg viss um það, að það er margt í þessu frv., sem almenningur myndi álíta hégóma einan og alls ekki fara eftir. Það þýðir ekki að troða slíkri löggjöf upp á fólkið; það verður að fara að því með liðlegheitum í þessu sem öðru. Það er líka fullvíst, að fyrirmyndarbændur til og frá um landið kenna miklu meir og betur út frá sér en þessir „sérfróðu“ umferðaráðunautar, sem eru venjulega með endalausar skýrslugerðir og fanýta skriffinnsku.