20.03.1931
Neðri deild: 29. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í C-deild Alþingistíðinda. (872)

20. mál, búfjárrækt

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég get látið í ljós ánægju mína yfir ræðum þeirra hv. þm. Dal. og hv. þm. Barð., því að þeir tóku yfirleitt vel í frv.

Hv. þm. Dal. spurðist fyrir um það, hvaða sérfræðingur hefði fjallað um síðasta kafla frv. Um þetta stendur ekkert í grg. frv., og er því eðlilegt, að hv. þm. spyrði um þetta. Eins og ég tók fram, þegar ég lagði frv. fram, er þessi sérfræðingur Brynjólfur Stefánsson hagfræðingur. Er það vinna hans, sem fyrst og fremst liggur til grundvallar þeirri starfsemi, sem ræðir um í þessum kafla frv.

Hv. þm. Dal. spurðist ennfremur fyrir um það, hvort búið væri að stofna bústofnslánadeildina við Búnaðarbankann. Er hér í deildinni einn af bankastjórum Búnaðarbankans, og getur hann svarað til um þetta, en ég hefi alltaf lagt áherzluna á það, að þessi deild yrði stofnuð sem fyrst, og hv. þm. Mýr. er á sama máli og ég um það.

Það er ekki ófyrirsynju, þó að spurt sé um það, hve mikinn kostnað það mundi hafa í for með sér, ef þetta frv. yrði samþ., en hér yrði aldrei um mikinn kostnað að ræða, því að meiri hl. af þessari starfsemi, sem frv. Fjallar um, er nú í höndum Búnaðarfélagsins og þannig borinn uppi af ríkinu. Er hægt að komast fyrir um það fyrir 3. umr., í samráði við starfsmenn Búnaðarfélagsins, hve mikinn kostnað þessi starfsemi hefir haft í för með sér undanfarin ár.

Hv. þm. Barð. tók einnig vinsamlega í frv., og kom það fram hjá honum, að hann vill fylgja því, sem mest horfir fram á við í þessum málum. Þær aths., sem hv. þm. kom fram með við frv., ætti að taka til athugunar milli umr., en sumum þeirra hefi ég þegar svarað með þeim svörum, sem ég hefi gefið hv. þm. Dal. — Þó verð ég að leiðrétta einn misskilning hjá hv. þm. Barð., því að það er misskilningur, ef hv. þm. heldur, að einn af ráðunautum Búnaðarfélagsins hafi ráðið öllu um brtt. n. Hitt er annað mál, að hann vann að athugun frv. með n. og átti þátt í brtt. hennar.