12.03.1931
Neðri deild: 22. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í C-deild Alþingistíðinda. (936)

27. mál, kirkjur

Magnús Guðmundsson (óyfirl]:

Ég get ekki verið á sama máli og hæstv. forsrh. um það, að fella ætti 9. gr. burt úr frv. Mér finnst alveg sjálfsagt, úr því að sett eru heildarlög um kirkjur, að setja í þau ákvæði gegn misnotkun kirkna í þessu tilliti, sem 9. gr. fjallar um. Hinsvegar mætti orða það svo, að t. d. með samþykki prófasts mætti geyma þá hluti í kirkjum, sem ekki gætu talizt vansæmandi fyrir kirkjuhúsin. Hitt má alls ekki leyfast né þolast, að geymt sé allskonar drasl, svo sem þvottur, slátur eða þvílíkt, í kirkjum. Ég vil láta þessa grein standa og láta n. athuga hana til 3. umr. Ef deildin vill, þá getur hún fellt hana þá, ef henni sýnist svo. Sama er að segja um 2. gr. frv.

Hæstv. dómsmrh. er ekki viðstaddur í deildinni, en annars hefði ég viljað segja honum það, að ég álit það undarlegan stjórnarsið, að bera fram frv., en lýsa því yfir um leið, að hann vilji ekki styðja frv. í meginatriðunum, og síðan stendur annar hæstv. ráðh. upp og vill fella úr því tvær greinar. Ég hefi litið svo á, að ef stjórn vill ekki gera eitthvert mál að sínu máli, þá eigi hún að láta vera að flytja það.

Hv. 2. þm. Árn. vildi ekki lýsa trausti á mér sem kirkjumálaráðherra, og læt ég mér það á sama standa, enda hefi ég ekki beðið hann um neitt þvílíkt. En hann gaf mér nú samt þá traustsyfirlýsingu, sem ég vildi, því að hann varð að viðurkenna, að ég hefði sem ráðh. verið vinveittur kirkjunni, og það álít ég, að hver kirkjumálaráðherra eigi að vera.