18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í C-deild Alþingistíðinda. (958)

27. mál, kirkjur

Pétur Ottesen:

Út af því, sem hv. frsm. sagði um tillögur okkar, að við mættum ekki heyra prófast nefndan, verð ég að segja, að það er undarlega mælt, þar sem við gerum ráð fyrir, að prófastur eigi að hafa eftirlit með því, hvernig kirkjum er við haldið, og jafnvel gera biskupi aðvart, ef út af er brugðið, og þá hafi biskup úrskurðarvaldið. En hv. frsm., og að því er virðist nefndin öll, vilja setja prófast í þær óþægilegu kringumstæður, að gera hann jafnréttháan aðila við söfnuðina um það, hvenær kirkjur skuli endurbyggja. Með þessu er verið að opna leið til ósamkomulags milli prófasts og safnaðar, ef sitt sýnist hverjum, sem hætt er við að fyrir geti komið.

Það er með öllu fráleitt að skilja svo við þetta atriði, að þessir aðilar geti rifizt um þetta að eilífu nóni. Samkvæmt okkar tillögum er það söfnuðurinn, sem ráðin hefir, enda líka í alla staði eðlilegast þar sem hann á að bera kostnaðinn.

Út af brtt. við 2. gr. sagði hv. frsm. í dag, að önnur brtt. okkar, 2. liður, sem þeir vilja fella niður, væri eingöngu um endurbyggingu kirkna. það er alls ekki rétt. Þar eru einnig tekin upp ákvæði 5. greinar frv. um þetta efni og miklu skýrar orðuð, svo að sú grein er þá algerlega óþörf.

Ég verð að segja, að það er harla lítið samræmi í því hjá háttv. frsm., að hann vilji ekki skerða vald og áhrif biskups á þau málefni kirkjunnar, sem frv. þetta fjallar um, samtímis því sem hann gengur svo hreint til verks í þessu efni að strika nafn biskups algerlega út úr frv.

Þá fann hv. þm. loks ástæðu til að sletta dálítið halanum, eins og hann orðaði það svo smekklega, og getur þessi samlíking, sem hann sækir til þeirrar dýrategundar, sem hann virðist vera í svo miklum andlegum skyldleika við, mjög vel átt við latæði og tilburði hans sjálfs. — En þegar hann segir, að ég hafi logið upp á Pál postula, þá er það sannast, að ég gerði ekkert annað en að taka upp ummæli hv. þm. Og þau urðu ekki skilin öðru vísi en að Páll hefði verið kvenhollur, — hann sagði, að ég hefði sagt kvennamaður, en ég viðhafði nú ekki það orð. Ég skal nú ekkert um það dæma hvort heldur er, að eitthvað skorti í hjá honum um rétta lýsingu á postulanum eða að á honum sannist máltækið: „Margur heldur mann af sér“. Hv. þm. virtist hafa tilhneigingu til að gera sálfræðilegar athuganir á mér og rökstyðja þær með dæmum að hætti vísindamanna. Ég vil nú bara skjóta því til hans, að honum lægi miklu nær, ef hann hyggði sig hafa nokkra hæfileika í þessa átt, að reyna þá á sjálfum sér, því að ég held, að okkur geti öllum komið saman um, að merkilegra fyrirbrigði í mannsmynd en hv. 2. þm. Árn. hafi maður varla þekkt.