18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í C-deild Alþingistíðinda. (959)

27. mál, kirkjur

Frsm. (Magnús Torfason):

Ég þarf ekki að svara mikið þessu, sem hv. þm. Borg. hefir síðast sagt. Um hugsanlegar deilur milli prófasts og safnaðar er það að segja, að eins og málunum er fyrir komið í okkar tillögum, verða þeir tveir aðilar að koma sér saman, fara samningaleiðina. Það álít ég bezt og hollast. Deilur milli þeirra gætu alveg eins risið fyrir því, t. d. ef ágreiningur væri um það, hvort byggja ætti kirkju eða ekki, svo að þessi orð hv. þm. hafa alls ekki hnekkt því, sem ég sagði.

5. gr. fjallar, eins og ég tók fram, sérstaklega um stærð kirkju. Ef mönnum kemur ekki saman, vil ég láta það fara úrskurðarleiðina. mér finnst það sjálfsagt.

Ég skal ekki mæða hv. þm. á því að svara þessu síðasta hjá honum miklu. Hann gat ekkert annað en tekið upp orðin eftir mér. Og eins og strákarnir í gamla daga sagði hann bara: Þú getur verið það sjálfur. Og það hefir aldrei þótt sérlega gáfulegt. En þegar hann lagði mér í munn orðin um kvenhollustu Páls postula, þá sýndi það, að hv. þm. Borgf. hefir saurugri hugsunarhátt en ég vissi um eða hafði heyrt á honum. (SE: Þetta er ókristilegt). Það er nú svona, að maður getur ekki þing eftir þing látið mæða á sér án þess að taka á móti. En af því að hv. þm. Borgf. er nú dauður, skal ég ekki eyða fleiri orðum um þetta, enda mun ég sjálfsagt fá tækifæri til að tala við hann síðar á þessu þingi.