23.03.1931
Efri deild: 31. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í C-deild Alþingistíðinda. (989)

17. mál, brúargerðir

Jón Þorláksson:

Ég hefi ekki borið fram neina brtt. við þetta frv. En það eru sérstaklega þrjú vatnsföll, sem ekki eru tekin með hér í 2. gr. frv., en ég tel mjög æskilegt að tekin hefðu verið. Fyrst er það Andakílsá í Borgarfirði. hún er svo að segja eina stóra vatnsfallið, sem beinlínis er í byggð og í miðju björgulegu héraði og ekki er heimilað að brúa eftir þessum lögum, þar sem alfaraleiðin liggur um. Þó að vegamálastjóri geri hér á 9. bls. grg. sinnar ráð fyrir, að Andakílsá verði í framtíðinni brúuð hjá Ausu, sem mun vera á sýsluvegi, held ég, að vegamálum þessa héraðs sé svo komið, að hvort sem menn hugsa sér brú á Andakílsá í sambandi við ferju yfir Hvalfjörð eða veg inn fyrir hann, þá muni alfaraleiðin verða hjá Grund, enda er það gamli þjóðvegurinn. Þar á tvímælalaust að brúa, og það sem fyrst.

Önnur áin er Grjótá á Öxnadalsheiði. hún liggur eins og kunnugt er á þessum aðalþjóðavegi, sem nú er að verða bílfær og mjög fjölfarinn alla leið úr Borgarnesi til Húsavíkur, og mér finnst ekki viðeigandi að sleppa þeirri á úr þessum lögum, þegar það fer væntanlega að nálgast, að Norðurlandsvegurinn verði samfelldur.

Þriðja brúin, sem ég vildi benda á, er raunar uppi í óbyggðum. Það er brú á Hvítá hjá Hvítárvatni. Með þeim vegabótum, sem nú er komnar og sjáanlegt er að koma á næstunni, aukast stöðugt möguleikar og þörf fyrir að fara að nota aftur gamla veginn um Kjöl til Norðurlands að sumarlagi, meira en gert hefir verið síðasta mannsaldur.

Hefir þegar farið bifreið sunnan frá og upp að Hvítárvatni, og kunnugir segja, að litlar vegabætur þurfi að gera til þess að vel verði bílfært þangað að sumarlagi. En Hvítá er Þrándur í Götu, og þótt reynt hafi verið að hafa á henni ferjubáta, hafa þeir reynzt mjög ótrygg farartæki. Eiga þeir auðvitað að vera alltaf sinn hvorum megin, en oft eru þeir báðir öðrum megin, er ferðamenn koma að fljótinu. Þar við bætist það, að Hvítá er mjög erfitt og slæmt vatnsfall fyrir hesta.

Kunnugir hafa sagt mér, að Hvítá hjá Hvítárvatni sé eini verulegi farartálminn á leiðinni norður í land um Kjöl. En það er einmitt mjög æskileg leið til skemmtiferða á sumrum. Hefir verið byggt sæluhús uppi við Hvítárvatn að tilhlutun Ferðafélags Íslands með styrk úr ríkissjóði. má búast við því, að þar muni verða hægt að fá gistingu, ef farartálmi þessi yrði afnuminn. En þegar þangað er komið, er ekki orðið langt norður í Skagafjörð um Kjalveg.

Ég vildi aðeins skjóta því til hv. n., hvort hún sæi sér ekki fært að taka upp í brúalögin heimild til þess að láta brúa Hvítá hjá Hvítárvatni. Auðvitað þyrfti ekki að byggja bruna strax fyrir því. Vildi ég gjarnan bera mig saman við hv. nefnd um þessi atriði nú milli 2. og 3. umr.