30.03.1931
Neðri deild: 37. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

13. mál, tilbúinn áburður

Frsm. (Einar Jónsson) [óyfirl.]:

Svo er háttað um not og nauðsyn þessarar voru, sem nú er til umr., að telja má líklegt, að aukin jarðrækt eigi mikið undir því, hvort mönnum sé gert kleift að nota hana.

Málið er, eins og hv. d. er kunnugt, búið að vera til meðferðar í Ed. og komið til þessarar deildar. Í Ed. var leitazt við að gera breytingar á frv., en þær náðu ekki fram að ganga. Það mun hafa verið eftir ósk Búnaðarfélagsins, að farið var fram á þessar breyt. um tilfærslu á vegalengdum og álagningu á tilbúnum áburði, sem er fluttur inn í landið. Það eru til lög frá 1928, sem gilda um þetta efni, en þar er ekkert rætt um þetta atriði út af fyrir sig, hvort bændur, er uppi í landinu búa, skuli njóta styrks til flutnings. En í reglugerðarákvæðum er gert ráð fyrir, að að þær vegalengdir, sem eru umfram 20 km., skuli styrktar af ríkinu eftir samkomulagi við atvinnumálaráðuneytið og Búnaðarfélagið. Þar er gert ráð fyrir, að álagið nemi 2%. Brtt. Ed. fer fram á, að vegalengdin sé færð úr 20 km. upp í 30 km. og álagningin fari úr 2% upp í 4%, en vegalengdin er 40 km. hjá Búnaðarfélaginu.

Nú hefir Búnaðarfélagið óskað, að n. tæki ákvæðin í frv. eins og búnaðarþingið hafði samþ. nú hefir landbn. komizt að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að fara aðra leið, millileið milli þess, sem Ed. vildi fara, og þess, sem búnaðarþingið samþykkti með öllum greiddum atkv. Þessi brtt. landbn. er á þskj. 287. N. hefir orðið sammála um það að ákveða vegalengdina 35 km. og álagið á vöruna 3%. N. er sammála um, að þetta sé líklegasta leiðin og vonar, að hv. d. taki því vel. En þó að deildinni sýnist önnurhvor leiðin réttari, sem Ed. vill fara og svo Búnaðarfélagið, eða þá einhver þriðja leiðin, þá er n. fús til að hlusta á það, þó að henni sé kærast, að frv. verði samþ. með þessum breyt. á þskj. 287.

Ég legg ekki út í það að halda langa ræðu um nauðsyn málsins. Það vita þeir bezt, sem sveitum og jarðrækt eru kunnugir, að nauðsynlegt er, að liðlegheit fáist frá ríkinu til hjálpar mönnum, sem eiga erfitt með aðflutning. Ég býst við, að flestir eða allir þm., þó að þeir séu ekki kunnugir búskap í sveit, geti gert sér grein fyrir því, hverjum erfiðleikum er bundið með aðflutning fyrir þá, sem eiga heima 100 km. frá höfn, eða jafnvel 200 km., þar sem þessi þungavara á að koma til nota. Mun láta nærri, að flutningsgjald þeirra, sem lengst búa, nemi jafnmiklu og verð vörunnar. Sýnist mér því sanngjarnt að rétta þessum mönnum hjálparhönd. Landbn. og ég persónulega væntum hins bezta af deildinni, að hún samþ. það, sem n. hefir lagt til. — Til þess að tefja ekki tímann, ætla ég að láta nægja þessi fáu orð.