11.08.1931
Efri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í D-deild Alþingistíðinda. (1164)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Jón Þorláksson:

Mér þótti sérstaklega vænt um, að hv. 2. landsk. las upp ummæli eftir mig úr umr. um kjördæmaskipunarmálið á þingi 1930. Sú skoðun, sem í þeim ummælum felst, fellur alveg saman við þá skoðun, sem ég hefi enn í þessu máli. Og hv. 2. landsk. veit það ákaflega vel, af þeim umr., sem fóru fram um þetta mál hér í hv. d. í fyrravetur, að ég hefi ekki getað gengið inn á þá kröfu Alþýðuflokksins að gera landið allt að einu kjördæmi, einmitt af þeim ástæðum, sem hann hefir tekið fram og færðar voru fram í þeirri ræðu, sem hann var að lesa kafla úr eftir mig. Ég álít rétt að tryggja það, að fámennari, fjarlægari og afskekktari landshlutar séu ekki sviptir réttinum til að senda sína sérstöku fulltrúa á Alþ., því þeir þurfa að eiga þar hver sinn fulltrúa til að tala máli sínu á þingi sérstaklega. (JBald: Þetta er nákvæmlega það sama og framsóknarmenn segja). Og þessu er auðvelt að fullnægja, þó þingflokkarnir fái þingmannatölu í samræmi við þá atkvæðatölu, sem þeir fá við kosningar. — Hv. þm. er kunnugt um þessa afstöðu mína frá þinginu 1930 og vetrarþinginu á þessu ári.

En um forustu mína í þessu máli er það að segja, að það getur vel verið, að honum þyki mín forusta og Sjálfstæðisflokksins ekki eins góð og hann vildi kjósa. En ég vona þá, að hann finni ekki síður til ófullkomleika hjá sjálfum sér og sínum flokki, sem lagði mikla áherzlu á málið í vetur, en hefir nú ekkert viljað fyrir það gera.