20.08.1931
Sameinað þing: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (1216)

74. mál, gæsla hagsmuna Íslands út af Grænlandsmálum

Frsm. (Magnús Torfason):

Tillaga sú, sem hér er til meðferðar, hljóðar svo: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að gæta hagsmuna Íslands út af deilu þeirri, sem nú er risin milli stjórna Noregs og Danmerkur um réttindi til yfirráða á Grænlandi“.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þáltill. þessi er borin fram fyrir þær sakir, að Norðmenn hafa tekið land á Austur-Grænlandi og efnt þar til búðagerðar.

Þótti, sem von var að, ekki mega lengur hjá sitja, er framandi þjóð tók slíkan upp, þar sem oss Íslendinga vissulega mun skipta máli, hvernig fara kann um forráð Grænlands og Grænlandsbyggða.

Að vísu verður því ekki neitað, að vér höfum enn ekki hagnýtt oss gögn og gæði þessara landfláka.

En það skiptir ekki máli, því að hér ræðir ekki fyrst og fremst um hagsmuni líðandi stundar.

Hér er framtíðarmál á ferðum, mál, sem getur haft ómetanlega þýðingu fyrir oss á ókomnum öldum.

Með aukinni þekkingu og bættum tækjum verður æ auðveldara að hafa uppi á auðæfum þeim, sem búa í skauti ísauðnanna, og handsama þau.

Þess vegna vaxa þær árförum í verði, eins og kapphlaupið, sem háð er um yfirráð þeirra, ber svo ljósan vott.

Og víst er um það, að enginn, sem þar ber skyn á, er efins í, að hér geti orðið til mikilla muna að slægjast.

Að því nú er tekur til Grænlands, standa Íslendingar allra þjóða bezt að vígi um að hagnýta sér það.

Ber þar margt til, sem hér er hvorki staður né stund til að rekja. Það skal þó drepið á tvennt.

Við erum þar í nágrenni og færumst tiltölulega nær, með bættum samgöngutækjum, en aðrar þjóðir tiltölulega fjær. Munar þar stórum, að þurfa ekki að sækja þangað yfir Íslandsála eða gegnum hrímþokubakkana fram af Furðuströndum, enda nú þegar borið í munni, að ekki verði komizt hjá að hafa flugstöð á Íslandi, ef hafa eigi samband við Austur-Grænland.

Þá er það nokkurs vert, að Íslendingar eru eina þjóðin, sem virðist vera í færum um að rækta landið.

Það er haft fyrir satt, að Grænlendingar séu alls ófærir til þess að rækta það. Og nefnd danskra þingmanna hefir nú nýlega lýst því yfir, að Dönum muni það heldur ekki fallið.

Hinsvegar hafa Íslendingar að fornu ræktað landið, eftir landkostum að þeirrar tíðar hætti, og haldið þar uppi háborinni menningu, á borð við það, sem þá gerðist hér í landi.

Og raun ber vitni, að landinn á enn í fórum það þol og þrek, þrautseigju og langlund, sem þarf til slíks landnáms í afskekktum óbyggðum, því að sú þjóð, er áratugum saman hefir beitt sér fyrir handplóginn, er sannarlega ekki á vegi til grafar.

Og loks — vér einir þjóða berum þá elsku til landsins, sem megnar að byggja það og klæða.

Í umræðu um tillöguna hefir verið spurt um, hvert tilkall vér hefðum til réttinda á Grænlandi.

Þessu her ekki að svara hér, því að tillagan gerir einmitt ráð fyrir málatilbúnaði af vorri hendi, og hæfir þá alls ekki að láta neitt uppi um, hver gögn eru í máli.

Því einu skal lýst yfir, að vér höfum hvorki fyrr né síðar samið af oss rétt í því efni, er hér um ræðir, heldur á sínum tíma gert aðvart um, að geymt væri ekki gleymt.

En hvað sem öðru líður, þá efi enginn, að tómlæti af vorri hálfu um þetta mál mundi verða virt oss Íslendingum til ógagns.

Væntir mig því, að hæstvirt Alþingi samþykki tillöguna einum rómi.