21.08.1931
Efri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

113. mál, verkamannabústaðir

Jón Þorláksson:

Ég er ekki fyllilega ánægður með þessar breytingar á lögunum, af því að með þeim er ekki fyrir því séð, að til verkamannabústaða geti runnið annað lánsfé en það, sem byggingarsjóðirnir hafa. Þetta er sama mótbáran og ég bar fram 1929. Mér finnst óeðlilegt, að verkamannabústaðir geti ekki notað sér l. veðréttar lán, ef þau er að fá, því að vitanlega gerir það byggingarsjóðunum erfiðara fyrir að verða að leggja allt fram, í staðinn fyrir að sjá um annars veðréttar lán. Þeir, sem fá lán úr veðdeild Landsbankans, fá sem stendur út á 1. veðrétt 1/3 hl.–35% af kostnaðarverði. Ef hægt væri að fá slík lán, þyrftu byggingarsjóðirnir ekki að sjá um nema 50% í stað 85% nú. Með því móti fengju þeir miklu meiru áorkað. Forgöngumenn þessa máls hafa ávallt tekið vel í þetta, en þó virðist sem einhverjir örðugleikar séu á því að setja ákvæði um þetta inn í lögin, og býst ég því við, að ef ég kæmi fram með brtt. um þetta nú, yrði því borið við, að það yrði til að málið dagaði uppi, ef hún yrði samþ., eins og sagt var 1929.

Með þessu frv. er ekki heldur séð fyrir því, að byggingarsjóðir hafi aðgang að ríkisveðbankanum. Eins og hv. 2. landsk. sagði, þarf að setja sérstaka löggjöf um það, og yrði þá að breyta þessum lögum aftur, þegar búin verður til sameiginleg peningastofnun byggingarsjóða, til að selja ríkisveðbankanum skuldabréfin, og setja ákvæði um lánskjör og innlausn.

Ég er sammála hv. 4. landsk. um það, að vafasamt sé, hvort gild. ástæða sé til að tvöfalda árstillagið. Það verður þung byrði á ríkis- og bæjarsjóðum. Fyrir Reykjavík verður ríkissjóður t. d. að greiða 60 þús. kr. og bæjarsjóður sömu upphæð. Að vísu kann að vera ástæða til þessa, meðan verið er að bæta úr eklu þeirri, sem nú er á smáíbúðum. En þar sem fé þessu er varið til að veita ívilnun í vaxtagreiðslu, þarf tillagið ekki að vera svona hátt til lengdar, og ég er jafnvel ekki viss um, að þörf sé á þessari hækkun nú.