06.08.1931
Efri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í D-deild Alþingistíðinda. (1407)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Halldór Steinsson:

Ég bjóst nú við, að ég mundi fá þetta svar, en ég verð að segja það, að mér þykir framkoma hæstv. stj. í þessu máli harla einkennileg. Í byrjun ársins lætur hv. 2. þm. Eyf., þáv. hæstv. fjmrh., greiða 40% dýrtíðaruppbót. Ég geng út frá því, að hv. þm. hafi verið sannfærður um, að þetta væri sanngjarnt, vegna hins þrönga hags starfsmanna ríkisins. Í samræmi við þetta flytur hæstv. ráðh. svo till. á vetrarþinginu, til staðfestingar á þessum gerðum sínum, og efast ég ekkert um, að honum hafi þá verið alvara. En þegar málið kemur svo fram á þingi, þá snýst allur flokkur hv. 2. þm. Eyf. hér í hv. d. á móti málinu. Ég ætla ekki að fara að bregða hv. 2. þm. Eyf. um óheilindi, en mér finnst það þó alleinkennilegt, að hann skyldi bera fram till., sem hann vissi, að allir flokksmenn hans voru mótfallnir. Hv. þm. greiddi þó atkv. með till. út úr hv. d., en er hún kemur nú aftur til d., þá snýst hv. þm. á móti henni. Ég veit, að hv. þm. muni svara því, að nú séu tímarnir erfiðari heldur en menn hefðu vitað þá að þeir myndu verða. En þetta er ekki nægileg ástæða fyrir hv. þm. til þess að snúast á móti sínu eigin máli.

Framkoma hæstv. núv. fjmrh. (TrÞ) í þessu máli er þó ennþá einkennilegri. Hann ber þessa till. fram í þingbyrjun, en þegar hún kemur til umr. í hv. d., þá umhverfist hann og snýst þá á móti henni. Ekki geta tímarnir hafa breytzt mikið á hálfum mánuði, svo ekki getur hæstv. ráðh. afsakað sig með því að vitna til þeirra. Nei, það verður ekki annað séð en að hæstv. stj. sé þarna að leika skrípaleik frammi fyrir almenningi. Það er eins og hún vilji láta það sýnast svo, sem hún sé hlynnt starfsmönnum ríkisins, en þegar á skal herða, þá snýst hún öndverð gegn þeim. — Ég vildi ekki láta málið fara út úr hv. d. án þess að vekja athygli á þessari framkomu hæstv. stj.