22.08.1931
Sameinað þing: 6. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í D-deild Alþingistíðinda. (1450)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Jón Baldvinsson:

Mér finnst standa öðruvísi á með þá menn, sem hafa fengið tiltekinn styrk með verðstuðulsuppbót, sem færður er út í dálk í fjárl., heldur en embættis- og starfsmennina, og mér finnst þeir eiga skilyrðislausan rétt til að fá þetta greitt. Ég held þeir hlytu að vinna mál út af þessu, jafnvel þó að ég játi, að það er ekki greið aðstaða fyrir menn að sækja launagreiðslu til fjárveitingavaldsins með málaferlum. Og sennilegt er, að sumir yrðu kúgaðir til að falla frá rétti sínum, þó að þeir ættu hann. En ég tel alveg rangt af hæstv. stj. að ganga á móti þeim ákvæðum fjárl., þar sem slíkir styrkir eru veittir.

Nú orðið felur þessi þáltill. mestmegnis í sér heimild fyrir stj. eða kvittun fyrir að greiða dýrtíðaruppbót hærri en í fyrra, í stað þess, að upphaflega var till. frá stj. í vetur og aftur á sumarþinginu um það, að heimila henni að greiða þetta allt árið 1931. Till. er því orðin í tvennu lagi. Vildi ég mælast til þess við forseta, ef hann sæi sér fært, að bera upp þrjár fyrstu málsgr. saman, sem eru að mestu leyti kvittun fyrir það, sem búið er að greiða, — og í öðru lagi síðustu málsgr., sem er um frekari heimild en stj. þykist hafa til áramóta.

Það, sem liggur til grundvallar fyrir þessari breyt., hefir ekki enn verið minnzt á, en það er, um hvaða fjárhæð fyrir ríkissjóðinn er að ræða. Þegar þetta var reiknað út í fyrra, var gert ráð fyrir, að útgjaldaaukinn af aukinni dýrtíðaruppbót mundi nema samtals kringum 220 þús. króna. Nú er búið að greiða ¾ af þessari upphæð, eða liðlega 150 þús. kr. Ef litið er annarsvegar á þá fjárhæð, sem eftir er, og hinsvegar á það, hve þetta gengur nærri ýmsum starfsmönnum landsins, þá efast ég ekki um, að ríkissjóður á heldur að greiða þetta fé til starfsmanna landsins heldur en skapa þá óánægju, sem óhjákvæmilega verður út af því að kippa að sér hendi um þetta. Í fyrsta lagi af því, að stj. byrjaði 1. janúar að greiða þetta; í öðru lagi af því, að stj. bar fram till. á vetrarþinginu um þessa greiðslu áfram; í þriðja lagi af því, að það er enn áréttað af stjórninni á sumarþingi. Af öllu þessu hafa starfsmenn fengið fulla ástæðu til að gera sér vonir um greiðslu til áramóta. Ég býst við, að sú upphæð, sem um er að ræða að spara ríkissjóði, sé ekki meiri en 20–30 þús., þegar allt kemur til alls. Þá ímynda ég mér, að það borgaði sig betur fyrir ríkið að greiða þetta en að fá alla óánægjuna, sem hlýtur að koma, og það með réttu.