12.08.1931
Efri deild: 27. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í B-deild Alþingistíðinda. (1474)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Jónas Jónsson:

Það er vegna þeirrar brtt. hv. 1. landsk., að það sé hegningarvert, ef starfsmenn væntanlegrar tóbakseinkasölu misnoti stöðu sína, sem ég vildi segja nokkur orð.

Ég er samdóma hv. 1. landsk. um andann í till. hans, það sem hún nær, og hv. 2. landsk. um þá viðbót, sem hann hefir sett inn í sitt frv., og þótt þetta frv. liggi ekki hér fyrir, vil ég minnast á það um leið.

Ég álít, að frv. hv. 2. landsk. sé í mesta máta nauðsynlegt, af því að síðan hegningarlögin voru gerð hefir ríkið, eins og kom fram í ræðu hv. 1. landsk., fært út starfssvið sitt, svo vafasamt er, hvort hegningarlögin, eins og frá þeim er gengið, nái yfir alla fasta starfsmenn ríkisins. Ég ætla að nefna hér eitt dæmi, sem hv. 1. landsk. gat um, og get nefnt nöfn, því þótt maðurinn sé dáinn, er það lofsamlegt fyrir þann, sem átti þar hlut að máli. Þessi maður var Jón Þórarinsson fyrrv. fræðslumálastjóri. Hann var fyrst og fremst fræðslumálastjóri, en eitt af því, sem hann tók sér fyrir hendur, var að sjá um skólabyggingar og útvega vissar tegundir af ofnum til skóla í sveitum. Hann sagði mér einu sinni, að hann hefði lent í klípu út af þessu, því að verzlunarhúsið, sem hann skipti við, heimtaði, að hann tæki umboðslaun, 20%, en hann vildi ekki taka þau, af því að hann leit svo á, að hann ræki ekki verzlun. En annaðhvort varð hann að gera, að taka umboðslaun eða fá vörurnar með smásöluverði. Hann lét því líta svo út sem hann tæki sjálfur umboðslaun, en náttúrlega lækkaði hann verð ofnanna það er því nam. Ég skil það svo vel, sem hv. 1. landsk. sagði. Hann veit, hvernig verzlunarmórallinn er, að heildsölufirmu vilja ekki skipta við fyrirtæki nema fram komi munur á heildsölu og smásöluverði, og ég þykist vita, að það, að hann nú kennir með þessa réttlátu aths., sé af því, að honum sé kunnugt um þær freistingar, sem menn í þessum stöðum. þ. e. a. s. menn, sem kaupa inn fyrir landið ýmiskonar efni til opinberra mannvirkja o. s. frv., eru útsettir fyrir. Það eina, sem ég get sett út á till. hans, er að hún nær ekki nógu langt. Ég álít því ekki hentugt að samþ. hana, heldur samþ. frv. hv. 2. landsk., því að það stefnir í rétta átt, þar sem það nær til allra, sem það þarf að ná til.

Ég vil spyrja hv. 1. landsk. að því, af hverju honum féllu orð, sem mátti skilja svo, að starfsmenn gömlu einkasölunnar hefðu misnotað stöðu sína. Ég álít, að honum sé rétt sjálfs sín vegna að gera grein fyrir, hvað hann átti við með þessu. Annars lít ég svo á, að það hafi verið misgáningur af honum að segja þetta.

Við atkvgr. mun ég að vísu greiða atkv. móti till. hv. 1. landsk., en það er af því, að ég vil ræða frv. hv. 2. landsk., því að með því álít ég stefnt í rétta átt.