05.08.1931
Neðri deild: 21. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

1. mál, fjárlög 1932

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég mun síðar fara nokkrum almennum orðum um afgr. fjárl. að þessu sinni og þann heildarsvip, sem þau virðast ætla að fá við meðferð þessarar hv. d., en vil áður víkja nokkrum orðum að einstökum brtt. Vil ég fyrst segja það almennt, út af þeim brtt., sem fyrir liggja, að eins og nú horfir við á öllum sviðum, nær ekki neinni átt, að d. fari að samþ. meginið af þessum till. Ég býst og við því, að hv. dm. sé það ljóst, að slík hækkun á útgjaldaliðum fjárl. eins og það mundi hafa í för með sér, kemur ekki til neinna mála, og að hlíta verður að þessu sinni þeim hækkunartill., sem fjvn. hefir borið fram. Þykir mér rétt að geta þess í þessu sambandi, að þau ár, sem ég hefi átt sæti á þingi, hefir sú verið reglan, að þm. hafa farið eftir till. fjvn. í öllum höfuðdráttum. Hnígur og allt að því, að þetta sé góð og gild regla, því að n. rannsakar rækilega allar fjárbeiðnir, sem þinginu berast, er, ef svo mætti segja, nokkurskonar sigti, sem allar fjárbeiðnir fara í gegnum, og má ganga að því sæmilega vísu, að þær fjárbeiðnir, sem n. tekur upp í till. sínar, eigi mestan rétt á sér af þeim fjárbeiðnum, sem um er að gera. Ég verð því að líta svo á, að það eigi að vera aðalreglan um afgr. fjárl., að þm. fylki sér um till. fjvn., enda hefir jafnan svo verið talið.

Skal ég þá snúa mér að einstökum brtt. Verða þar fyrst fyrir mér till. frá hv. þm. V.-Sk., á þskj. 183, XV, þess efnis, að veittar verði 12000 kr. til brúargerðar á ánni Skálm á Mýrdalssandi, till. frá hv. þm. Barð. á sama þskj., XVII, þess efnis, að veittar verði 5000 kr. til vegalagningar frá Hvalsskeri við Patreksfjörð yfir Skersheiði að Saurbæ á Rauðasandi, og till. frá hv. 1. þm. Árn., á sama þskj., XLII, þess efnis, að 1500 kr. af fé því, sem veitt er til sandgræðslu samkv. fjárl., skuli renna til Páls Guðmundssonar á Baugsstöðum til varnar sjávargangi og sandfoki þar. Þó að ég hafi ekkert á móti þessum till. í sjálfu sér. hefði ég þó kosið, að hv. flm. þeirra tækju þær aftur, þar sem til eru almennar fjárveitingar til þeirra aðgerða, sem till. fara fram á, og þar sem ennfremur fjvn. hefir lagt til sérstaklega, að framlagið til fjallvega verði hækkað. Það mundi leiða inn á óþægilega braut, ef farið væri að samþ. sérstakar fjárveitingar auk hinna almennu fjárveitinga, sem veittar eru í þessu skyni. Sú almenna regla ætti að vera það, að stj. væri falið að ákveða í samráði við ráðunauta sína, hvar og hvernig framkvæmdum væri hagað samkv. hinum almennu fjárveitingum í þessu skyni, og mundi stj. þá að sjálfsögðu taka tillit til þeirra bendinga jafnframt, sem fram kunna að hafa komið hjá þm. Ég vildi því beina því til þessara hv. þm. og annara, sem líkt stendur á um, hvort þeir sæu sér ekki fært að taka þessar till. aftur.

Þá vildi ég víkja nokkrum orðum að brtt. XLIII. á þskj. 183, frá hv. þm. N.-Ísf., þess efnis, að búfjáreigendum í Norður-Ísafjarðarsýslu verði veittur 20 þús. kr. styrkur til fóðurbætiskaupa. Það er á allra vitorði, að meiri hl. íslenzkra bænda á nú við mikil vandræði að stríða vegna þess grasbrests, sem orðið hefir í ár, svo að það getur ekki náð nokkurri átt að fara að taka eitt hérað út úr af fjölda héraða, sem eins stendur á fyrir, og veita því einu styrk af þessum ástæðum. Ég vil og upplýsa hv. þm. N.-Ísf. og aðra hv. þm. um það, að nú fer fram rannsókn um það, að tilhlutun stj., hvað grasbresturinn er mikill úti um sveitir landsins og hvar er mest þörf sérstakra ráðstafana af þessum ástæðum. Eins og eðlilegt er, er þessari rannsókn ekki enn lokið að fullu, þar sem enn er svo snemma sumars, en þegar hún hefir borið fullan árangur, verður hægt að fara að tala um það að gera almennar ráðstafanir til hjálpar á þessu sviði. Ég vildi því beina því til hv. þm. N.-Ísf., hvort hann sæi sér ekki fært að bíða með þessa till. sína, þar sem fyrirsjáanlegt er, að taka verður síðar almennar ákvarðanir í þessu efni. Auk þess vildi ég benda þessum hv. þm. á það, að til er sérstakur sjóður, Bjargráðasjóður, sem hefir það hlutverk með höndum að hjálpa undir slíkum kringumstæðum sem þessum, með því að veita þeim, sem hjálparþurfi eru, vaxtalaus lán.

Þá vildi ég mæla eindregið með þeirri till. hv. fjvn., að Fiskifélaginu verði veittar 5000 kr., til þess að annast birtingu útvarpaðra veðurfregna í verstöðvum landsins. Ég hefi þá trú, að það sé hentara að birta veðurfregnirnar með þessu móti, og hinsvegar mundi það létta mikið af landssímanum, ef hann þyrfti ekki að eiga í því að senda þessar fregnir tvisvar á dag til allra verstöðva landsins. Ef þessu væri létt af landssímanum, mundi það rýma fyrir á línunum og þannig verða til að auka tekjur símans.

Hv. þm. G.-K., hv. 1. þm. N.-M. og hv. þm. Barð. bera allir fram till. þess efnis að hjálpa nauðstöddum hreppum í kjördæmum þeirra. Nefna þeir ákveðnar upphæðir í þessu skyni, sumpart lán og sumpart styrki. Nú er það ómögulegt fyrir þm. í miðjum þingönnum að taka afstöðu, sem hafi við fulla athugun að styðjast, til slíkra beiðna sem þessara, og vildi ég því beina því til þessara hv. þm., hvort þeir gætu ekki sætt sig við að fara þá leið í þessu efni, sem farin hefir verið í svipuðum tilfellum áður, þannig að þingið fæli stj. að gera nauðsynlegar ráðstafanir í þessu efni, að undangenginni rannsókn á fjárhag þessara hreppa. Minnist ég þess, að slík leið var farin fyrir nokkrum árum að því er snerti nauðstadda hreppi í Gullbringu- og Kjósarsýslu, Norður-Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu. Finnst mér, að þessir hv. þm. ættu að geta fallizt á, að fjmrn. væri falið að láta rannsaka þörf þessara hreppa, og síðar yrðu gerðar nauðsynlegar ráðstafanir á grundvelli þeirrar rannsóknar. Þegar þess er gætt, hve skammt er til næsta þings, ættu þessir hv. þm. að heldur að geta sætt sig við þessa lausn málsins.

Svipað hefi ég að segja viðvíkjandi brtt. LXI. á þessu sama þskj., þar sem farið er fram á það, að Sigfúsi Gunnarssyni að Flögu í Skaftártungu verði veittar 10 þús. kr. skaðabætur vegna bruna af eldingu, sem hann hefir orðið fyrir. Ef þetta er samþ. eins og það liggur fyrir, er með því skapað slæmt fordæmi, auk þess sem málið er ekki eins upplýst sem skyldi. Þætti mér betur fara á því, að stj. yrði veitt heimild til að láta rannsaka þetta mál, og síðan yrði tekin ákvörðun um, hvað gera ætti í því. Og að jafnframt yrði þá rannsakað, hversu víðtækar afleiðingar slíkt fordæmi mundi skapa, og hvort ekki væri hægt að verjast því, að það drægi mjög langan hala á eftir sér. Ég álít, að sjálfsagt sé að styrkja þenna mann, en spurningin er, á hvern hátt það á að gera. Ég vildi því beina því til hv. flm. þessarar till., hvort þeir gætu ekki sætt sig við að taka hana aftur, svo að hægt væri að undirbúa málið betur, og gæti þá þingið síðar tekið sínar ákvarðanir í málinu með betri samvizku.

Þá kem ég að brtt., sem ég flyt sjálfur, á þessu sama þskj., LXIV, og eru meðflm. mínir tveir hv. þm. úr andstöðuflokkunum. Fer þessi till. fram á það, að stj. verði veitt heimild til að kaupa til handa landinu lóðirnar milli menntaskólans og stjórnarráðsins, neðan Skólastrætis, en ofan lækjar, ásamt húsum þeim og mannvirkjum, er á lóðunum standa. Er þetta í samræmi við þáltill., sem samþ. var hér á þinginu í fyrra, þess efnis, að gerðar væru ráðstafanir til þess að ríkið næði eignarhaldi á þessum lóðum. Um málið hefir verið útbýtt rækilegu erindi, sem Sigurður Eggerz fyrrv. ráðh. hefir samið, og er þar gerð grein fyrir, á hvern hátt hann álítur, að hægt sé að ná eignarhaldi á þessum lóðum. Skal ég geta þess, að áður hefir verið gerð tilraun til að ná í þessar lóðir landinu til handa, en hún strandaði á því, að K. F. U. M. vildi fá aðra jafngóða lóð í skiptum fyrir þá lóð, sem það á á þessu svæði. Var félaginu boðið upp á lóð á Arnarhólstúninu í skiptum, en það vildi ekki taka því boði. Nú næst samkomulag í þessu máli, ef áðurnefnt félag fær svokallaða Thorsteinssonslóð í skiptum fyrir sína lóð, og er því nú opin leið fyrir ríkið til að eignast þessar lóðir. Vil ég geta þess, að ég hefi því aðeins gerzt flm. þessa máls, að hægt mun að fá slíka samninga um þessi lóðakaup, að kostnaðurinn fyrir ríkið verður sama sem enginn í bráðina. Eigandi Thorsteinssonslóðarinnar er nýlega fallinn frá og mun erfðafjárskatturinn af þeirri eign nema langt til sem svarar fyrstu útborgun fyrir hana. Ég lít svo á, að það sé mjög æskilegt, að ríkið nái eignarhaldi á þessum lóðum, því að þær standa á einhverjum fallegasta stað í bænum, og yrðu þær þá síðar notaðar undir opinberar byggingar. Efast ég og ekki um, það þingið muni fallast á þessa málaleitun, sérstaklega þar sem þetta getur fram farið án mikilla útgjalda fyrir ríkissjóðinn nú, í þeirri von, að betri tímar séu framundan og að síðar verði hægt að borga þetta upp og þá að reisa þær byggingar á þessum lóðum, sem menn þá kunna að hafa í huga.

Þá vildi ég gera eina till. á þskj. 194 að umtalsefni, brtt. XII, frá hv. þm. Mýr. og hv. þm. Borgf., þess efnis, að stj. verði heimilað að gefa Mjólkurfél. Mjöll eftir 15 þús. kr. viðlagasjóðslán ásamt ógreiddum vöxtum. Eru aths. mínar við þessa till. eingöngu formlegs efnis. Með lögunum um Búnaðarbankann afhenti ríkið bankanum Viðlagasjóð sem stofnfé, en hér er um það að ræða, að ríkið taki aftur hluta af því, sem það þannig áður hefir afhent bankanum sem eign. Má slíkt ekki fram fara á þenna hátt, heldur verður að samþ. sérstaka fjárveitingu í þessu skyni. Frá sjónarmiði Búnaðarbankans hlýtur það að vera mjög vafasöm braut að ganga inn á, ef ríkið fer þannig að veita eftirgjafir af eignum bankans. Vildi ég sérstaklega beina þessu til hv. þm. Mýr., sem öðrum fremur ætti að gæta hér hagsmuna Búnaðarbankans. Ég ræði ekkert um málið sjálft, hvort rétt sé að gera þetta eða ekki, en það á a. m. k. ekki að gera það á þenna hátt.

Enn sem fyrr liggja nú fyrir ýmsar og margvíslegar till. um ríkisábyrgðir. Vildi ég segja það, að það er yfirleitt slæmt fyrir ríkissjóð að þurfa að vera að vasast í slíkum ábyrgðum, að ég nú ekki tali um það, þegar um ábyrgðir er að ræða á lánum til óproduktivra hluta, svo sem rafveitu o. fl. Er það eitt þeirra mörgu verkefna, sem við eigum enn óleyst, hvernig koma mætti öðru skipulagi á í þessum efnum, þannig að kauptúnum og kaupstöðum yrði mögulegt að afla sér lánsfjár án aðstoðar ríkisins. Stafar það sem ýmislegt annað af smæð okkar og fátækt, að við skulum þurfa að láta ríkið vera að vasast í ábyrgðum á lánum til einna og annara framkvæmda, sem önnur ríki þurfa ekki að standa i, þau sem stærri eru og auðugri, og hnígur þetta allt að því að rýra lánstraust okkar unga, íslenzka ríkis. Þó verð ég að segja það, að sérstaklega stendur á um ábyrgðina á rafvirkjunarláninu handa Ísafjarðarkaupstað (183, LXV, a). Kaupstaðurinn er að vísu þegar raflýstur, en vélarnar eru knúðar með mótor, og er nú meiningin fyrir Ísfirðingum að fá vatnsafl. Er því ekki hér til að dreifa þeirri mótbáru, að stofnað væri til nýkaupa frá útlöndum, þó að till. næði fram að ganga. Auk þess er Ísafjörður hinn myndarlegasti kaupstaðar, vel stjórnað og á allt gott skilið af hálfu þess opinbera. Loks er að geta þess, að kaupstaðinum var veitt þessi ábyrgð fyrr meir, þó að hann gæti þá ekki notað sér hana.

Ég hefi borið fram brtt. við till. hv. þm. Ísaf., sem miðar að því að hindra, að þeir ókostir verði um útvegun lánsfjár, sem einna hættulegastir eru, að hinir og þessir, Pétur og Páll, séu að fara út um lönd og segja: Við höfum ríkisábyrgð. Með till. minni á þskj. 205 er undir þennan leka sett. Samkv. henni á að gera það að skilyrði fyrir endurnýjun ábyrgðarinnar, að lánið verði tekið fyrir milligöngu Landsbankans, þannig að ekki verði aðrir en þessi opinbera stofnun, sem hafa á hendi útvegun lánsfjárins. Ef þessi brtt. mín verður samþ., get ég verið með till. hv. þm. Ísaf., annars ekki.

Þá mun ég víkja að brtt. þeirri, sem ég hefi talið mig knúðan til að bera fram á þskj. 207. Áður en ég sný mér að henni, vil ég þó fara nokkrum almennum orðum um afgr. fjárlaganna.

Ég vil minna á það fyrst, að frá því að fjárlagafrv. var borið fram í vetur af stj., hefir fjvn. hækkað tekjuáætlun fjárl., fyrst með till. þeim, sem hún bar fram á vetrarþinginu, og stj. tók óbreytt upp í frv., sem hún lagði fyrir þetta sumarþing. og svo aftur með till. sínum á þskj. 183. Samtals nemur öll þessi hækkun 1¼ millj. kr. Og þótt ekki verði samþ. aðrar útgjaldatill. en þær, sem fjvn. ber fram, mun þessi viðbótarhækkun tekjuáætlunarinnar nálega eða alveg uppétin. Það má því telja vist, að afgr. fjárl. verði þannig, að bæði tekju- og gjaldaáætlun verði töluvert miklu hærri en nokkru sinni áður. Hinsvegar er vitanlegt, að samhliða þessu, að Alþ. afgr. hærri fjárl. en nokkru sinni fyrr, þá erum við staddir í alvarlegustu fjárkreppu, sem komið hefir yfir þetta land. Við höfum hvað eftir annað fengið þung áföll, en ég hygg, að fyrir atvinnuvegina hafi útlitið aldrei á þessari öld verið jafnalvarlegt. Ef við berum saman það verð, sem við fáum fyrir okkar afurðir, og verð þess, sem við verðum að kaupa, þá verður ekki annað leitt af því en að nú standi fyrir dyrum mjög miklir fjárhagserfiðleikar, sem fyrst munu skella á framleiðendum í landinu, síðan á peningastofnunum, og loks á ríkinu.

Ég býst við því, að allir hv. þm. geri sér grein fyrir því, að þetta, að afgr. annarsvegar fjárlög, sem eru hærri en nokkru sinni áður, og hinsvegar skuli vera framundan slíkt útlit, sem ég nú hefi lýst, það sé mjög óeðlilegt og varhugavert. Ég vil þó játa, að þær till., sem fjvn. hefir borið fram, eiga vitanlega rétt á sér; ég mun fylgja þeim, og ég geri ráð fyrir því, að í aðalatriðum muni ekki verða farið langt út fyrir þær. En okkar fyrsta skylda er að afgr. fjárl. þannig, að við séum vissir um að geta staðið við okkar skuldbindingar út á við og inn á við, og greitt það, sem bein lagafyrirmæli eru um. Það getur samt verið, að þetta geti gengið, þótt fjárl. séu afgr. svona há; en hinu býst ég ekki við að neinn neiti, að það getur líka verið, að það geti ekki gengið.

Þess vegna hefi ég borið fram till. á þskj. 207, um að ef verður að teljast líklegt, að tekjurnar hrökkvi ekki fyrir gjöldunum, sé heimilt að lækka um 25% þau gjöld, sem ekki eru samningsbundin eða ákveðin með lögum. Þetta yrði þá framkvæmt þannig, að í ársbyrjun yrði haldið eftir sem svarar ¼, og í samráði við vetrarþingið yrði svo ákveðið, hvort það teldist fært að borga út þenna fjórðung, sem í upphafi ársins yrði haldið eftir.

Hinsvegar er mér ljóst, að vel getur farið svo, ef fjárkreppan heldur áfram, að ekki verði nóg að gera þetta. Það getur vel verið, að til þess blátt áfram að stefna okkar fjárhag ekki í voða, þurfi að gera sérstakar ráðstafanir, sem e. t. v. gefst tími til á vetrarþinginu, að stöðva einhverjar verklegar framkvæmdir, sem fé er veitt til í fjárlögum.

Ég lít svo á, að eitthvað í þessa átt eigi að samþ. nú á þinginu.