21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (1539)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Það er auðsætt á öllu, að hér er að hefjast sama verzlunin og áður milli Framsóknar og socialista. Þeim hefir auðsjáanlega verið farið að kólna eftir fjögra mánaða útivist frá pilsfaldi Framsóknar og því orðið fegnir að skríða undir hann aftur. Fyrirspurnir þeirra um stjórnarmyndun stöfuðu af því einu, að þeir vildu fá að vita, við hvaða stjórn þeir ættu að verzla með sig. Undir eins og stjórnin er mynduð, selja þeir henni allt, sem seljanlegt er. Þeir höfðu lýst yfir því, að þeir greiddu atkv. á móti fjárl., fjáraukal. og landsreikningi. En þegar þeir sjá landsreikninginn 1929, þetta eindæma plagg, kyssa þeir bara á skjalið í auðmýkt og velþóknun. Ég ætla að vona, að stjórnarflokkurinn verði ekki svo lítilþægur að þiggja stuðning þessara manna, nema þegar mikið liggur við, því að þeir hafa sýnt, að þeir eru ávallt falir fyrir lítið.

Um málið sjálft þarf ég ekki að tala að þessu sinni. Það er búið að margsanna, að einkasalan hefir í för með sér minni tekjur fyrir ríkissjóð og dýrari og verri vöru. En jafnaðarmenn fá kannske einhverjar glefsur fyrir það að láta af hendi réttindi borgaranna með samþykkt landsreikningsins og fjáraukalaganna.