06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

1. mál, fjárlög 1932

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það hafa komið nokkrar aths. út af því, sem ég talaði um í gær, og vildi ég nota tækifærið til að minnast á þær. Hv. þm. Seyðf. var harðorður í ummælum sínum um brtt., sem ég bar fram á þskj. 207. Hann taldi, að hér væri ekki um nema verklegar framkvæmdir að ræða. Hv. þm. veit, að það er um meira að ræða en verklegar framkvæmdir. Það er fjöldamargt annað en verklegar framkvæmdir í fjárl., sem ekki er lögbundið. Ég hefi við fljóta athugun lítið svo á, að helmingi hærri upphæð sé um að ræða en hv. þm. Seyðf. nefnir, og hann veit, að hér er á ferðinni frv., sem leysir þetta mál, sérstaklega með atvinnubótum. Þetta er mál, sem ekki er ástæða til að blanda inn í umr. nú, þar sem meiri hl. hv. d. hefir þegar ákveðið að afgreiða það í sambandi við sérstakt frv.

Hv. þm. Seyðf. fer háðulegum orðum um þessa heimild til lækkunar á útgjöldum ríkisins handa stj. og fjvn. á vetrarþinginu. En ég get sagt bæði þessum hv. þm. og öðrum, að það er tilætlunin að gera fleira til að lækka útgjöld ríkisins. M. a. býst ég við, að fram verði látin fara rækileg athugun á rekstri ríkisstofnananna með það fyrir augum að gera hann ódýrari. Ég álít fyllilega réttmætt að gera slíkar ráðstafanir sem þessi heimild felur í sér, eins og nú stendur á. Því að meðan góðæriskafli gengur yfir, er jafnan hætta á, að ekki sé haldið eins spart á og ella. Því er ástæða til, að athugað sé í lok hvers góðæriskafla, hvort ekki sé réttmætt og eðlilegt að draga úr ýmsum þeim kostnaði, sem ekki var horft í í góðærinu. Þessi heimildartillaga er ekki nema einn liður af mörgum, sem eiga að miða í þá átt.

Hv. þm. Seyðf. kallar það skrípaleik, að vilja fá heimild til að draga nokkuð úr útgjöldum ríkisins, en koma um leið fram með frv. í því skyni að afla fjár til atvinnubóta. En ég ætla, að segja mætti með ekki minni rétti, að ýmsar aths. hans væru skrípaleikur. Hann sagði m. a., að ekki veitti af því að hin nýja stj. færi að sýna sig. Var svo að heyra, sem hann áliti, að framkoma hinnar nýju stj. í atvinnu- og fjármálum yrði viturlegri en þeirrar, sem nú fer með völd. Heldur hann, að væntanleg stj. styðjist við annan flokk en Framsóknarflokkinn? Eða heldur hann, að þessi till. mín sé komin fram móti ráðum og vilja míns flokks? Það er því ekkert annað en skrípaleikur að þykjast vera að gera ráð fyrir, að hin nýja stj. verði „betri“ í þessum efnum.

Ekki verður það heldur skoðað annað en skrípaleikur hjá hv. þm., að halda því fram, að þessi till. sé fram komin til að standast kostnað við eitt frv., sem er á leiðinni. Frv. þetta lá fyrir á þinginu í vetur, og skal ég segja hv. þm. Seyðf. það til hróss, að hann veitti því þá stuðning sinn og hjálpaði mér til að halda því í því horfi, sem það er nú i. Það er skjalfest í nál. landbn. í Ed., að kostnaður við þetta frv. getur ekki farið fram úr 20–30 þús. kr. árl. og kostnaðurinn á næsta ári fer að líkindum ekki yfir 10 þús. kr.

Þá hafa þeir hv. 2. þm. Skagf. og hv.1. þm. Rang. borið fram aths. út af till. um heimild til að kaupa lóðirnar austanvert við Lækjargötu. Þeir vörpuðu báðir fram þeirri spurningu, hvaða hús stj. vildi láta reisa á lóðunum. Ég vil geta þess, að stj. hefir ekkert annað gert í þessu máli en að hlýðnast vilja Nd. Nd. óskaði eftir tilboðum og ríkisstj. hefir útvegað þau og lagt fyrir hv. d. Ríkisstj. á því ekki frumkvæðið að þessu máli. Hinsvegar tel ég sjálfsagt, að landið festi kaup á lóðum þessum og tel það mikilsvert framtíðarmál. En ég álít það alls ekki liggja fyrir mér að gera „plön“ um byggingar á þessum lóðum. En ég get þó nefnt byggingu, sem ég tel, að þurfi að rísa þar innan skamms og það er stjórnarráðshús. Húsið, sem nú ber það heiti, þótti hæfilegt tukthús fyrir hundrað árum. (ÓTh: Þá voru líka færri óbótamenn en nú). Landsmenn voru miklu færri þá en nú og óbótamenn sjálfsagt líka.

Í þetta hús koma ýmsir ágætir menn af öðrum þjóðum til að kasta kveðju á ríkisstj., en þar er þó svo umhorfs, að flestar verzlanir í bænum munu hafa veglegri húsakynni til að taka á móti gestum sínum. Það er sannarlega ekkert ánægjuefni að fara með slíka gesti gegnum forstofu stjórnarráðshússins, en þó eru það oft einhver fyrstu kynnin, sem þessir menn fá af íslenzkri menningu.

Í dómsmrn. er svo áskipað, að menn geta vart unnið þar fulla vinnu fyrir þrengslum. Þar er skjalabunki ofan á skjalabunka, svo að ekki verður þverfótað. Ég álít því, að bygging stjórnarráðshúss geti af engum ástæðum dregizt lengi, og að slíkt hús eigi að standa sunnan við Bankastræti. Þá má einnig henda á það, að reisa þarf, er stundir líða og ástæður leyfa, hús fyrir háskólann, Alþingi og hæstarétt.

Hv. 1. þm. Rang. spurði, hvenær ætti að byggja á þessum lóðum. Þeirri spurningu get ég ekki svarað, heldur mun Alþ. gera það á sínum tíma. Eins og ég hefi áður sagt, hefir stj. aðeins framkvæmt vilja Alþ. í þessu máli, að leita tilboða.

Hv. l. þm. Rang. taldi eins gott að kaupa þessar lóðir síðar. Ég er honum sammála um það, ef það væri mögulegt. En mér er sagt, að K. F. U. M. muni mjög bráðlega byggja stórhýsi á hornlóðinni milli Lækjargötu og Bankastrætis, ef ekkert verður að gert. Ég skal játa það, að ef ekki hefði staðið þannig á, hefði ég ekki talið réttmætt að hera þessa till. fram nú.

Hv. þm. sagði ennfremur, að breyting sú, er skapazt hefði hér á Alþ. um þessi lóðakaup, hefði orðið til að hækka lóðirnar í verði. En ef svo er, stafar sú hækkun ekki af því, að stj. hafi leitað tilboða, heldur af yfirlýsingu Alþ. Sú yfirlýsing hefir orðið til þess að opna augu eigendanna fyrir því, hve ágætlega þessar lóðir eru fallnar fyrir ýmsar opinberar byggingar. Hér er því ekki um neina óeðlilega hækkun að ræða.

Hv. 1. þm. Rang. benti á, að ef þessar lóðir rentuðu sig ekki, yrðu þær dýrari með hverju ári. Ég tel víst, að tvær þessara lóða renti sig, en ein að líkindum ekki.

Hv. 2. þm. Skagf. spurði, hvort stj. hefði tekið fé, sem ætlað var til ákveðinna framkvæmda, og notað það til annars. Hv. þm. nefndi engin sérstök dæmi, svo ég tæki eftir, (MG: Ég gerði það), en ég býst við, að hann hafi átt við veg í Skagafirði. Get ég upplýst, að ákveðið er, að sá vegur verði lagður fyrir það fé, sem til hans var veitt. (MG: En símalínan?'). Um það efni get ég ekki gefið upplýsingar að svo stöddu.

Hv. þm. G.-K. talaði um aðrar aðferðir til sparnaðar á ríkisfé eins og almennan niðurskurð. En ég hygg, að allir viðurkenni, að þar sé um mun harkalegri aðferð að ræða en þá, sem till. felur í sér, einkum þar sem þar á að vera samferða fullkomnara eftirlit með rekstri ríkisstofnana í sparnaðarskyni. Mér finnst því hv. þm. G.-K. standa illa að vígi um að fallast ekki á till. mína.