18.08.1931
Neðri deild: 32. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í D-deild Alþingistíðinda. (1666)

28. mál, vegamál

Bergur Jónsson:

Við fyrri ræðu mína vann ég þó það á, að hv. 3. þm. Reykv., sem er mætur maður og frægur fyrir ýmsa hluti, en þó sízt fyrir hógværð, var nú öllu hógværari en í gær og lét vera að beina svigurmælum að öðrum samgöngumálanefndarmönnum en mér. Hefir honum efalaust fundizt hann hafa meira til efni til að skjóta örvum sínum að mér, og get ég látið mér það í léttu rúmi liggja, því að ég er ekki hörundssár. En einkennilegt þótti mér þó, þegar hv. þm. var að gera sig digran yfir mér sem ungum þm. fyrir það, að ég vildi vísa þessu máli til stj. Veit ég ekki betur en að það sé algengt fyrirbæri hér á Alþingi, að málum sé vísað til stj. til frekari íhugunar, og jafnvel til fullnaðarafgreiðslu, og ég ætla, að finna mætti því dæmi, að hv. 3. þm. Reykv. hafi sjálfur fylgt slíkri afgreiðslu mála, ef vel væri leitað í Alþt., og að honum farist því ekki að vera að gera sig breiðan yfir okkur, „þeim ungu“, eins og hann kallar, fyrir það, að við séum á villigötum í þessu máli.

Það voru fáir þm. viðstaddir, þegar ég mælti fyrir dagskrártill. minni, og vil ég því gera stuttlega grein fyrir aðalröksemdum mínum fyrir henni. Ég lít svo á, að í vegamálunum beri að skilja vandlega á milli tveggja atriða: hvar eigi að leggja vegina, og hvernig þeir eigi að vera. Að því er fyrra atriðið snertir, þá verður þingið að gera út um það sjálft. En síðara atriðið snertir framkvæmdarhliðina, og sé litið á það frá öllum hliðum, hve breiðir vegirnir eigi að vera, úr hvaða efni o. s. frv., getur engum dulizt, að þar er komið inn á sérfræðisviðið, enda lít ég svo á, að trúnaðarmenn ríkisins eigi að dæma um þetta sjálfir. Og þetta liggur til grundvallar fyrir till. minni í málinu. Ég vil ekki, að einstakir þm., án þess að nokkur trygging sé fyrir því, að þeir hafi vit á þessum málum, fari að gefa þinginu og þeim, sem með framkvæmdir vegamálanna fara, fyrirskipanir í þessu efni. Ég tek steinstöplana sem dæmi, því að svo segja mér fróðir menn á þessa hluti, að hagfelldara sé að hafa girðingar á vegbrúnum til að varna slysum. Bifreiðarnar brjóti stöplana eða brotni sjálfar við að renna á þá, en hinsvegar megi hafa girðingarnar þannig, að bifreiðar sveigist til um leið og þær lenda á þeim og komist svo óskaddaðar áfram. Ætti og öllum að vera ljóst, að betra er að láta sérfræðinga dæma um þessa hluti heldur en þekkingarlausa þm., að ég nú ekki tali um mislukkaða bílstjóra, eins og hv. 3. þm. Reykv. Við höfum trúnaðarmenn ríkisins í þessum efnum, eins og vegamálastjóra, og eigum að treysta þeim til að ganga svo frá þeim sérfræðilegu atriðum, að fullnægjandi sé. Hitt er annað mál, þó að þingið reki á eftir og láti í ljós óánægju sína um það, sem það er ekki ánægt með, en það nær engri átt að binda hendur vegamálastjóra í einstökum atriðum að því er framkvæmd þessara mála snertir, eftir því, sem einum eða öðrum sérvitrum þm. kann að geta dottið í hug af sínu mislukkaða leikmannsviti. Og þrátt fyrir öll digurmæli hv. 3. þm. Reykv. um vanþekkingu vegamálastjóra og okkar samgmnm., verð ég að segja það, að ég hefi persónulega ekkert álit á sérþekkingu hv. 3. þm. Reykv. í þessum efnum. Fortíð þessa hv. þm. felur ekkert það í sér, er geti gefið honum rétt til að heimta, að farið verði eftir till. hans hvað það snertir að bæta vegagerðir hér á landi. Það er ekkert annað en helber sjálfbirgingsskapur, þegar þessi hv. þm. rís hér upp og heimtar, að þingið fari að samþ. till. hans og þeirra óhamingjusömu þm., sem honum hefir tekizt að véla til fylgis við sig í þessu máli. — Þegar hv. þm. er að tala um það, að ég hafi ekki borið fram neitt mál, sem sé eins mikilsvert og þessar till. hans, þá verð ég að vísu að játa það, að ég hefi ekki borið fram hér á þingi eins vitlaust mál og þessar till. eru, og ég vona, að það eigi ekki fyrir mér að liggja að bera nokkru sinni fram eins heimskulegar og sjálfbirgingslegar till. og þessi till. hv. 3. þm. Reykv. er.