06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

1. mál, fjárlög 1932

Magnús Guðmundsson:

Hv. frsm. vildi halda fast við skoðun sína um það, hvað ég hefði meint með ræðu minni í þessu máli í gær. Ég vil benda á, þótt það ætti að vera óþarfi, að ég átti við það, að árið 1931 myndi verða betra ár fyrir ríkissjóðinn með þeim fjárl., sem nú gilda, en 1932 eftir þessu frv. Hv. frsm. tók fram, að ekki væri farið út fyrir ramma fjár1., þótt greiðslur færu fram samkv. öðrum lögum. Þetta hafði ég heldur aldrei sagt. En fyrir þessum greiðslum var ekkert áætlað 1931 og ekki heldur í fjárlagafrv. 1932, en þar er tekjuáætlunin hærri og því af minna að taka. „Nauðsynlegar umframgreiðslur“ fara auðvitað eftir sparsemi stjórnarinnar, og ég býst við, að hún verði nokkuð svipuð árið 1932 og 1931. Annars mun tíminn leiða í ljós, hvort sá spádómur minn rætist, að 1931 verði betra fjárhagsár en 1932, ef þetta frv. er samþ. eins og það er.

Um eftirlaun Ólafs prests Stephensens skal ég ekki fara fleiri orðum. Þau hafa ekki enn verið ákveðin, af því að stjórnin hefir ekki fengizt til að greiða þau, en hvert barn getur hinsvegar reiknað þau út eftir þeim reglum, sem eru um eftirlaun presta í lögum.

Ég vil að lokum geta þess, að sjálfstæðismenn munu ekki hefja eldhúsdag að þessu sinni. Þegar við féllumst á að fresta honum til 3. umr., bjuggumst við við, að ný stjórn yrði þá tekin við. En með því að svo er ekki enn, virðist tilgangslítið að hefja slíkar umr. Síðan þingið var rofið, hafa tveir ráðherranna látið af embætti og hafa þeir ekki málfrelsi hér í d. Flokkurinn vill ekki hefja ádeilu á menn, sem ekki geta svarað fyrir sig.