08.08.1931
Neðri deild: 24. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (1900)

26. mál, hafnargerð á Akranesi

Pétur Ottesen:

Ég ætla ekki frekar en hv. frsm. meiri hl. að fara að rekja forsögu þessa máls. Það er ekki heldur ástæða til þess, þar sem þetta er 3. þingið, sem hefir málið til meðferðar.

Það hefir áður verið sýnt svo rækilega fram á, hver nauðsyn er hafnargerðar á Akranesi, að mönnum er það vel kunnugt. Auk þess tóku margir hv. þdm. sér ferð á hendur þangað síðastl. vetur og gátu þeir þá séð með eigin augum, hvernig þar horfir við, og því betri aðstöðu höfðu þeir til að kynnast þörfinni fyrir hafnargerðina, þar sem þá stóð yfir hávertíð.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að n. legði til, að frv. þetta væri hvað fjárframlagið úr ríkissjóði snertir fært til þeirrar reglu, sem gilt hefði um fjárveitingar til hafnargerða. Ég held, að það sé heldur fært frá þeirri reglu, sem gildir nú, því að á þinginu 1929 voru samþ. lög um hafnargerð á Skagaströnd, þar sem þessi regla var tekin upp, að veita í þessu hlutfalli til hafnargerða. Auk þess hafa þau tvö þing, sem síðan eru liðin, sýnt það ljóslega í meðferð þessara þriggja hafnarmála, sem hér liggja fyrir, að þau líta svo á, að þetta sé sú regla, sem eigi að viðhafa í fjárveitingum til hafnargerða yfirleitt.

Á þinginu 1930 voru þessi hafnarmál nær því gengin í gegnum þingið, áttu aðeins eftir eina umr. í Ed., en á þinginu í vetur voru þau komin í gegnum Nd., þegar þingið var rofið. Það, sem n. leggur til, er því að brjóta þá reglu, sem nú gildir hér á landi í þessu efni, og gengur þá líka algerlega í berhögg við þá stefnu, sem þingið hefir tekið í þessum málum.

Ég vil nú bera þann styrk úr ríkissjóði, sem hér er farið fram á til hafnargerða og lögfestur hefir. verið með lögum um hafnargerð á Skagaströnd, saman við þann atbeina, sem þingið hefir veitt og veitir til ýmsra verklegra framkvæmda í þessu landi. Í vegakerfi landsins er t. d. að taka mikið af svokölluðum þjóðvegum, sem byggðir eru fyrir fé úr ríkissjóði eingöngu. Allt viðhald þessara vega er ennfremur greitt úr ríkissjóði. Auk þess er veitt fé úr ríkissjóði til annara vega, t. d. helmingur kostnaðar til akfærra sýsluvega. En þar sem sýsluvegasamþykktir eru, greiðir ríkissjóður meira til byggingar akfærra sýsluvega og auk þess nokkurn hluta af viðhaldskostnaði þeirra.

Ég hefi aðeins bent á þetta hér til þess að sýna, hve mikið skortir á, að ríkissjóður greiði í sama hlutfalli til hafnargerða sem til annara hliðstæðra framkvæmda. Nú vil ég biðja menn að athuga það, að í því tilfelli, sem hér um ræðir, er um stóra hafnargerð að ræða, sem kostar yfir 1 millj. kr. En þá hlýtur öllum að vera það ljóst, að þar sem að þessari hafnargerð stendur aðeins eitt hreppsfélag, nokkuð stórt að vísu, getur hreint og beint oltið á því, í hverju hlutfalli ríkissjóður leggur fram fé til þessara framkvæmda, hvort það reyndist yfirleitt kleift að koma verkinu í framkvæmd eða ekki.

Sem dæmi þess, hver nauðsyn hafnargerða er og hve mikla fjárhagslega þýðingu þær hafa, má nefna hafnargerðina í Vestmannaeyjum. Síðan höfnin var gerð í Vestmannaeyjum, hafa tekjur ríkissjóðs af höfninni vaxið úr 72 þús. upp í nærri því 600 þús. kr. á ári. Það hafa víða orðið miklar framfarir hér á landi síðustu árin, en framfarirnar í Vestmannaeyjum eiga eingöngu rót sína að rekja til hafnargerðarinnar, því án hennar hefði sú mikla framþróun, sem þar hefir orðið á sviði útgerðarinnar, verið með öllu útilokuð. Hér er um sama að ræða. Á Akranesi er góð aðstaða til útgerðar og fiskveiða og góð fiskibátahöfn við Faxaflóa yrði ríkissjóði tvímælalaust góður og öruggur tekjustofn.

Ég vænti því, að hv. d. verði sjálfri sér samkvæm um afgreiðslu þessa máls nú og láti það hlutfall haldast um styrk til hafnargerða, sem lögfestur er í lögunum um hafnargerð á Skagaströnd.