29.07.1931
Neðri deild: 15. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (2007)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Lárus Helgason:

Hv. þm. G.-K. komst þannig að orði, að hv. 1. þm. Rang. hefði smátt og smátt verið að veiða einn og einn þm. til fylgis við þetta frv. Og hann komst líka þannig að orði, að hann hefði fengið einn meðnm sinn til að undirskrifa háð um sig sjálfan og aðra. Mér er nokkuð sama um það, hvernig þessi hv. þm. leggur meiningu í það, að menn skipta skoðun á þessu og þessu máli. Menn þurfa ekki að skipta um skoðun til þess að leggja annað til málanna í ár en í fyrra. Það er margoft þannig, þegar menn sækja á eitthvert mál, að þeir fái það ekki strax, en þeir geta fengið það seinna, þegar málið upplýsist betur og tímarnir breytast. Svo er um þetta mál; það hefir verið að upplýsast betur og betur, og eftir þeim síðustu upplýsingum, sem komið hafa, þá er mjög eðlilegt, að því hafi aukizt fylgi. Ég býst ekki við, að það séu nú margir aðrir en hv. þm. G.-K., sem álíta, að hv. l. þm. Rang. hafi þurft að standa í nokkrum veiðiskap þessu máli viðvíkjandi. A. m. k. neita ég því að hafa orðið fyrir nokkrum slíkum veiðiaðferðum.