29.07.1931
Neðri deild: 15. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (2010)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Ólafur Thors [óyfirl.].:

Ég hefi ekki mörgu að svara þeim ræðum, sem hér hafa verið haldnar til andmæla því, sem ég sagði í fyrri ræðu minni, en þó vil ég víkja nokkrum orðum að sumu af því, sem fram hefir komið hjá þeim ræðumönnum, sem talað hafa síðan ég talaði fyrr. Sá, sem síðasur talaði þeirra ræðumanna, frsm. n., hv. 1. þm. Rang., sagði, að ég væri enn of ungur til að skilja, hvað hér væri á ferðinni. (JÓl: Ó-nei. Ekki sagði ég það). Hvað var það þá, sem ég var enn of ungur til að bera skyn á? Ef hv. l. þm. Rang. hefir átt við það, að og væri of ungur til að skilja röksemdir hans, þá vil ég að vísu ekki ganga inn á það, ef heimska mín er svo áberandi á unnað borð, að æsku minni sé hér um að kenna, því að ég er nú orðinn 40 ára gamall, og mundi fremur kjósa að álykta sem svo, að annaðhvort væri ég of ungur eða hann of gamall til að taka þátt í meðferð mála hér á Alþingi, og vil ég þó við hvorugu gangast, því að ég álít þvert á móti, að við séum báðir tveir vel til þingmennsku fallnir, enda erum við báðir enn á bezta aldri.

Hv. 1. þm. Rang. sagði, að ég hefði litil rök fært fyrir máli mínu. Það er náttúrlega handhægt að koma með svona fullyrðingar, en ekki held ég, að það sé áhrifaríkt, og þó einkum þegar ekki er sýnd nein viðleitni til að hrekja það, sem andstæðingurinn hefir sagt.

Misskilningur var það hjá hv. þm., að ég hafi sagt, að það mætti sjá það af því, hve margir stólar væru auðir við meðferð málsins, hve málið hefði lítið fylgi meðal þm. Þetta sagði ég ekki, heldur það, að það mætti finna samband á milli hinna auðu stóla og þess, að málinu hefir aukizt fylgi, og átti ég þá við það, að samvizka þeirra þm., sem lofað hafa hinum vinsæla þm. Rang. fylgi við málið gegn betri vitund, væri þó ekki forhertari en það, að þeir blygðuðust sín fyrir að vera viðstaddir umr.

Þá var það enn misskilningur hjá hv. l. þm. Rang., að ég hefði viljað vita það, að þm. settu sig sem bezt inn í málin, til þess síðan að geta fellt þau eða samþ. með rökum, eins og hv. þm. komst að orði. Ég álít það þvert á móti virðingarvert og raunar skyldu þm. að setja sig sem bezt inn í öll mál, þó að þetta sé vanrækt meira og minna, vegna þess, hve málunum er mokað ört hér inn í þingið. Hinsvegar veit ég ekki betur en að þetta mál hafi oft áður legið fyrir þinginu. og bar þm. því skylda til að setja sig inn í það strax í upphafi. Menn mega ekki halda, að þeir geti skotið sér undan ábyrgðinni með því að segja, að þeir hafi verið að setja sig inn í málið, og það er auðvitað eins ábyrgðarmikið að greiða neikvætt sem jákvætt atkv. Ef það því er rétt, að þm. beri skylda til að setja sig inn í málin, þá hafa framsóknarmenn, sem hverfa í hópum í dilk hv. 1. þm. Rang. í þessu máli, brugðizt skyldu sinni sem þm., því að það er staðreynd, að engin ný rök hafa komið fram í málinu nú, heldur stendur málið að því leyti á sama stigi sem það var, er það fyrst var borið fram hér á þinginu.

Ég verð að játa, að það er ekki nema eðlilegt, þó að Rvík reyni eftir megni að hraða sameiningunni, og voru röksemdir hv. frsm. að því leyti réttar. Það má ætla, að sameiningin verði því ódýrari fyrir Rvík því fyrr sem hún kemst á, og þetta er einmitt ein af ástæðunum til þess, að ég sem umboðsmaður Kjósarsýslu hér á Alþingi vil reyna að tefja málið í lengstu lög, jafnframt sem ég vona, að úr þessari sameiningu verði ekki fyrr en þá af frjálsum vilja þeirra aðilja, sem hér eiga hlut að máli, og án afskipta löggjafarvaldsins Ég fæ og ekki séð, að það sé rétt hjá hv. frsm., að Rvík standi voði af væntanlegum kostnaði við að rífa niður kumbaldana, sem hv. frsm. talaði um að væru að rísa upp þarna suður á Skildinganesi, til þess að geta komið byggðinni þar í stíl við hina fögru og skipulögðu byggð hér í Rvík. Menn ættu að ganga upp í Kínahverfið svokallaða hér í bænum, sem byggt er undir handarjaðri hv. frsm. og bæjarstjórnarinnar hér — þar getur að líta kumbalda, sem talandi er um. Húsin suður á Skildinganesi mundu hrynja af skömm, ef þeim væri búinn annar eins félagsskapur. Þeir þurfa sannarlega ekki að bera neinn kinnroða fyrir byggðinni þarna suður á Skildinganesi, bæjarfulltrúar okkar Reykvíkinga. Getur hver, sem vill, fullvissað sig um það, að þarna suður frá er haldið til jafns um smekk og fegurð í byggingum við það, sem tíðkast hér í sjálfri höfuðborginni, þrátt fyrir allar þær n., sem vaka yfir „hinni fögru Reykjavík“.

Mér þykir það eðlileg forsjálni hjá hv. frsm., að vilja ekki, að sameiningin dragist þangað til farið verður að byggja höfn þarna. Ef þessi sameining á að verða á annað borð, nær engri átt, að farið verði að gera dýrar ráðstafanir til hafnargerðar þarna og landið svo tekið eignarnámi. Reykjavík til stórtjóns og engum til hagnaðar. En ég veit ekki til þess, að nokkuð slíkt sé á prjónunum. Ef svo væri, gegndi hér allt öðru máli. Þá væri hægt að fara að tala um sanngirniskröfu frá hálfu Rvíkur um að fá þennan landskika, og geri ég ekki ráð fyrir, að ég mundi þá öðrum síður skilja þörf bæjarins, enda sæti ekki á mér að berjast móti hagsmunum Rvíkur, þó að mér sé hinsvegar bæði ljúft og skylt að halda fram rétti kjósenda minna, þegar fara á að taka af þeim viss verðmæti og fá þau öðrum, sem ekki hafa þeirra meira gagn en kjósendur mínir skaða af að missa.

Með þessu þykist ég hafa svarað flestu því, sem máli skiptir, og hefi ég fremur kosið að beina orðum mínum til hv. l. þm. Rang. en annara andmælenda minna, af því að hann hefir lengst af verið flm. þessa máls og er auk þess frsm. n. nú.

Hv. 3. þm. Reykv. þarf ég litlu að svara sérstaklega. Hann lét svo um mælt, að bert væri, að ég vildi tefja fyrir þessu máli til þess að þeir, sem eiga lóðir á þessum stað, gætu okrað á þeim, vegna þeirrar verðhækkunar, sem á lóðunum yrði sem afleiðing af vexti Reykjavíkur. Í framhaldi af þessu hélt hv. 3. þm. Reykv. því fram, að Rvík væri vel að þessum landskika komin, áður en lóðirnar hækkuðu meira í verði. Með sömu röksemdafærslu mætti segja, að innlima ætti alla Gullbringu- og Kjósarsýslu og stærstan hl. Árnessýslu í Rvík, því að það er ómótmælanleg staðreynd, að verðhækkun jarðanna í þessum sýslum, eða öllu heldur verðgildisaukning þeirra, stafar af hinum mikla vexti Rvíkur. Ég fæ því ekki séð, að þetta séu frambærileg rök fyrir innlimun hjá hv. 3. þm. Reykv.

Þá fengu þeir kveðjuna hjá hv. 3. þm. Reykv., nýliðarnir í þessu máli. Sagðist hann vona, að þeir draugar, sem áður hefðu staðið á móti þessu máli, væru nú kveðnir niður. Einn þessara „drauga“ er nú þegar kveðinn niður með eiginhandarundirskrift sinni undir nál., hv. þm. V.Sk. Verða framsóknarmenn nú að þiggja þetta draugsheiti í ofanálag við kvalir samvizkunnar fyrir að hafa svikið málstað sveitanna, til þess að kaupa sér frið við „Reykjavíkurvaldið“. Og verður ekki annað sagt en að þeir séu vel að þessu heiti komnir, einkum ef það er rétt, sem hv. þm. V.-Sk. sagði, að „maður þyrfti ekki að skipta um skoðun til þess að geta greitt öðruvísi atkv. í málinu nú en áður“. Eða er þetta ekki rétt haft eftir hv. þm.? (LH: Jú). Ég vissi það, að hv. þm. V.-Sk. hefir ekki skipt um skoðun í málinu, enda þótt hann ætli nú að greiða atkv. í málinu þvert ofan í það, sem hann áður hefir gert. Og þm. ætlar ekki aðeins að gera þetta, heldur hefir hann til að bera þá óvenjulegu hreinskilni að játa það fyrir öllum þingheimi, að hann muni nú greiða atkv. á annan veg en hann áður hefir gert, enda þótt skoðun hans á málinu sé óbreytt.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að hv. 2. þm. Reykv. Hann vitnaði til 3. gr. sveitarstjórnarl. og sagði réttilega, að ákvæði þeirrar gr. vikju eingöngu að því, hvað framkvæmdavaldið má gera í þessu efni. Var hreinn óþarfi fyrir hv. þm. að vera að fræða menn um þetta, því að það var öllum ljóst áður; a. m. k. var mér það ljóst. En ég vil leyfa mér að benda þessum hv. þm. og öðrum hv. þdm. á 19. og 42. gr. nefndra l., en þó að ég leyfi mér að henda þessum hv. þm. á þessar lagagr., er það ekki af því, að ég ætli mér að fara að kenna honum l. Til þess er ég sízt fær. (EA: Ég er þakklátur hv. þm. fyrir að vilja benda mér á þetta). Það er óþarfi fyrir hv. 2. þm. Reykv. að vera mér þakklátur í þessu efni, því að það vita allir, að hann er einn af mestu og beztu lagamönnum þessa lands. (EA: Hv. þm. sparar mér með þessu vinnu við að leita þessar gr. uppi). Ég geri ekki ráð fyrir, að það taki hv. 2. þm. Reykv. mikinn tíma eða fyrirhöfn að leita uppi lagagr. í svo merkilegum l. sem sveitarstjórnarl.

Í 19. gr. sveitarstjórnarl. segir svo: „Eigi skal neinu máli, er varðar einhverja sérstaka sveit, til lykta ráðið fyrr en álits hreppsnefndar þar hefir verið leitað um það“.

Og í 42. gr. nefndra l. segir svo:

„Eigi skal neinu máli, er varðar einhverja sýslu sérstaklega, til lykta ráðið fyrr en álits sýslunefndar þar hefir verið leitað um það“.

Nú hefir hv. 3. þm. Reykv. upplýst það, að leitað hafi verið umsagnar hreppsnefndarinnar í Seltjarnarneshreppi í þessu máli fyrir 2 árum, og hreppsnefndin lagt á móti því. Má þetta vel vera, en svo mikið er víst, að álits sýslunefndarinnar hefir ekki enn verið leitað í þessu máli, svo sem ber þó að gera samkv. þeirri gr. sveitarstjórnarl., sem ég las hér upp áðan.

Ég get ekki gengið inn á, að það komi til mála, að þetta varði ekki sýslunefndina, því að ekkert liggur fyrir um það, að þessi hluti hreppsins æski þess að verða sérstakt hreppsfélag, þótt þorpið hafi hinsvegar lagalegan rétt til þess, þar sem íbúatalan er komin yfir 300. En ég verð að benda hv. 2. þm. Reykv. og öðrum hv. þdm. á það, að ef þeir ganga út frá því sent vissu, að þorpsbúar í Skildinganesi ætli að hagnýta sér þennan rétt sinn og verða sérstakt þorp, þá finnst mér ekki rétt að meina þeim það með þessu frv. og hindra þá í því að njóta fullkomins frelsis. Ef þessum hv. þm. er það svo ljóst, að íbúar þessa þorps óski þess að verða sérstakt hreppsfélag, þá má þeim ekki síður vera það ljóst, að þeir geta ekki óskað þess, að þetta frv. verði samþ., og það er þá í raun og veru brot á því persónulega frelsi, sem sveitarstj.lögin ætla íbúum einstakra héraða til ályktana um sjálfstæði sitt, að samþ. þetta frv. Og hvað sem líður lagaskýringum um hin minni atriði, þá verður það alltaf kjarni málsins, að hér er verið að ræða um hagsmuni hrepps- og sýslufél. gagnvart hagsmunum Rvíkur, og það hefir ekki verið sýnt fram á það með neinum rökum, að Rvík ræki nauður til að sækja fríðindi til þessa sýslufélags.

Málið liggur nú þannig fyrir, að Rvík hefir sömu hlunnindi af sameiningunni sem svarar skaða hreppsbúa og sýslunnar, ef þetta frv. nær að verða að l. Þeir, sem vilja taka réttindin af sýslufélaginu og afhenda Rvík þau, þeir greiða frv. atkv. sitt, hinir vænti ég að verði á móti.