20.07.1931
Neðri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í C-deild Alþingistíðinda. (2041)

22. mál, Jöfnunarsjóður

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Reynsla hinna síðustu ára hefir sýnt átakanlega, hve brýn þörf er slíkrar lagasetningar sem hér er farið fram á. Þrjú síðustu árin hafa gefið meira en 15 millj. kr. umfram það, sem áætlað hefir verið í fjárlögum. Af þessu mikla fé er nú enginn eyrir eftir, en kreppa og vandræði framundan. Þetta er önnur hlið málsins. Hin hliðin er sú, að stj. hefir ráðstafað þessu fé án þess að spyrja Alþingi leyfis. Alþingi hefir á þennan hátt verið svipt ákvörðunarrétti sínum um fjármál landsins, fjárveitingarvaldinu. Ef halda skal því áfram að áætla tekjur ríkissjóðs svo „varlega“, að margar millj. verði umfram áætlun, er Alþingi viljandi að afsala sér miklum hluta fjárveitingavaldsins í hendur stjórnarinnar.

Ég hefi hér tekið upp, hve miklar umframtekjur hafi orðið hin síðustu þrjú ár:

1928:

Áætlaðar tekjur ..... kr. 10450000

en urðu ......... ..... — 14400000

1929:

Áætlaðar tekjur ..... kr. 10880000

en urðu ......... ..... — 16320000

1930:

Um það ár hefi ég ekki ákveðnar

tölur, en samkv. yfirlýsingu ráðh.

voru tekjurnar áætl. kr. 12000000

en urðu ......... — 17000000

eða því sem næst.

Umframtekjur hafa því orðið:

1928 ............ kr. 3950000

1929 ............ — 5440000

1930 ............ — 5000000

Samtals kr. 14390000

Mér skildist á hæstv. fjmrh., að tekjur hina sex fyrstu mánuði þ. á. hefðu reynzt svipaðar og tekjur hinna sömu sex mánaða í fyrra. Lítur því út fyrir, að jafnvel þetta ár gefi ríflegar umframtekjur.

Ég skal ekki neita því, að þrjú síðustu árin hafi verið góðæri, en mismunurinn á áætluðum og raunverulegum tekjum er svo mikill, að hann getur ekki legið í því einu.

Niðurstaðan af þessu er þá þessi: Umframtekjurnar eru allar eyddar og enginn eyrir til, til að mæta þrengingum krepputímanna. Ef þetta frv. hefði orðið að lögum 1928 og miðað hefði verið við 12 millj. tekjur í stað 9½ millj., eins og nú er gert samkv. hinni nýju bókfærslu ríkissjóðs, þá væru nú til 2½%, millj. til að mæta komandi atvinnuleysi. Nú er ætlazt til samkv. frv., að á móti framlagi jöfnunarsjóðs komi a. m. k. tvöfalt framlag sveitar- og bæjarfélaga, og því væri hægt að láta framkvæma opinbera vinnu nú fyrir 4–5 millj. kr., ef frv. hefði orðið að lögum 1928. Þessa er líka full þörf, því að útlit er fyrir meira atvinnuleysi framundan nú en nokkru sinni hefir þekkzt áður. Ríkissjóður er nú orðinn stærsti atvinnurekandi hér á landi. Hann má ekki haga sér eins og lélegur svindilbraskari, eyða öllu í góðærunum og kippa svo alveg að sér hendinni og reka þúsundir úr vinnu þegar harðnar í ári. Honum ber skylda til að haga framkvæmdum sínum svo, að þær leiði til festingar og jafnvægis í atvinnulífi þjóðarinnar.

Samkv. fjárlagafrv. eru tekjurnar áætlaðar 10500000 kr. Þetta frv. myndi hækka gjaldahliðina um 150 þús. kr. Nú er rekstrarhagnaður áætlaður 830000 kr. Að vísu er greiðslujöfnuður á sjóðsyfirliti ekki nema 130 þús. En af því fé, sem stj. myndi áskotnast fram yfir áætlun, rynnu 25% í jöfnunarsjóð.