10.08.1931
Efri deild: 25. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

1. mál, fjárlög 1932

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Mér þykir leiðinlegt, að hv. 1. landsk. er ekki í eins góðu skapi og hv. 2. landsk. Hv. l. landsk. veik að bókinni „Skýrslur um nokkrar framkvæmdir ríkisins“. Geri ég ráð fyrir, að hv. 1. landsk. hafi valið dæmi sín þannig, að honum þætti þar koma fram á sérstaklega áberandi hátt, hve rangt er farið með í bókinni. Hvað sýna nú þessi tvö dæmi, ef rétt eru skoðuð?

Hv. þm. hneykslaðist á því, að bókin skyldi vitna í ummæli hans, þau er hann hafði, þegar hann var fjmrh. En þar er hvergi farið rangt með né misnotað á nokkurn hátt. Hefir hann ekki undan neinu að kvarta í því efni. Ef þetta á að vera dæmi um hlutdrægni, þá er það annaðhvort illa valið eða það er ekki margt hægt að finna. Hitt dæmið er þó ennþá verr valið. Vitnar hv. þm. í það, sem sagt er á bls. 225 nm sparnað, sem orðið hafi 1927–1929 á kostnaði við berklavarnir. Segir hann, að þar sé rangt farið með, því að sparnaðurinn stafi einungis af breyttri löggjöf. En á sömu bls. stendur einmitt, að sparnaður þessi stafi af minnkandi dýrtíð og breyttri og bættri löggjöf og stjórnarframkvæmdum. Þarna stendur því einmitt það, sem hv. þm. er að halda fram. Stafar þessi breyt. sumpart af aðgerðum fyrrv. stjórnar, en sumpart af aðgerðum stj. þeirrar, er við tók í ágúst 1927. Kom það í minn hlut að framkvæma sumt það, sem fyrirrennari minn hafði ákveðið. — Vil ég ekki halda því fram, að bók þessi sé gallalaus fremur en aðrar bækur, en dæmi þau, sem hv. þm. hefir valið, sýna alls ekki það, sem hann vill sanna.

Hv. þm. vitnaði síðar í ræðu sinni í einkasamtal. (JónÞ: Nei. ekki einkasamtal). Hv. þm. vitnaði í einkasamtal, og hefir enginn í þessari hv. d. gert það nema hv. 1. landsk.

Síðast kom hann inn á innheimtu tekju- og eignarskatts og sagði, að ákvæðin um það hafi hvergi verið framkvæmd sómasamlega nema í Reykjavík einni. Verð ég að segja, að það er langt frá, að þau hafi verið vel framkvæmd þar. Hvílíkur áfellisdómur felst í þessu til trúnaðarmanna ríkisins víðsvegar um land, er áttu að framkvæma lögin! Er ekki hægt að kalla þetta öðru nafni en óráðvendni hjá hv. þm.