24.08.1931
Neðri deild: 40. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (2087)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Hv. þm. G.-K. var að tala um, að einhverjir samningar hefðu átt sér stað á milli framsóknarmanna og jafnaðarmanna um þetta mál. Ég vil leyfa mér að mótmæla þessu. Mér er a. m. k. alveg ókunnugt um, að nokkrir slíkir samningar hafi átt sér stað. Það lítur helzt út fyrir, að hv. þm. G.-K. hafi tekið það að sér að vera sáttasemjari milli þessara tveggja flokka. Og hann hefir rækt það starf með einskærri trúmennsku og fórnfýsi, þar sem hann nú er alveg hættur að herjast fyrir þessu áhugamáli sínu, sem hér er til umr.; hann er búinn að fórna því. Sem bráðabirgðaafsökun fyrir þessu hátterni er hv. þm. að gefa lögskýringar á frv., og vill með því láta líta svo út, sem hann sé sama sinnis og áður. (ÓTh: Ég fylgist ekki með — er þetta alvara eða gaman?). Ég býst við, að hv. þm. sé vanur því, að talað sé til hans í alvöru hér í hv. d.

Mér kemur það mjög undarlega fyrir sjónir, að hv. þm. G.-K. skuli vera að bendla Framsóknarflokkinn við samninga, sem hann hefir aldrei gert.

Hv. þm. hefir ekki fylgt þessu máli nú sem á undanförnum þingum, en ég frábið mér, að ég hafi skipt um skoðun á þessu máli.