10.08.1931
Efri deild: 25. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

1. mál, fjárlög 1932

Jónas Jónsson:

Ég hefi að vísu ekki heyrt allar þessar umr., en vildi þó segja fáein orð út af nokkrum atriðum, sem fram komu í ræðum hv. þm. Hafnf. og hv. 1. landsk.

Hv. 1. landsk. lét svo um mælt, að skattalögin hefðu ávallt verið framkvæmd með fullum sóma hér í Rvík, en hinsvegar ekki úti á landsbyggðinni. Held ég, að þetta sé oflof að því er snertir skattstjórastarfið hér í bæ, eins og það var undirbúið af hv. 1. landsk. og starfrækt af núv. hv. 2. þm. Reykv., eins og ég brátt skal færa sönnur á með 2 dæmum úr meðferð þessara mála hér.

Meðan núv. hv. 2. þm. Reykv. gegndi skattstjórastarfinu, fékkst aldrei framfylgt þeim fyrirmælum laga, að tekju- og eignarskatturinn væri sundurliðaður á skattskránum. Bar ég fram þáltill. til þess að reyna að fá þessu framgengt, eftir tilmælum nokkurra embættismanna hér í bæ, en engu að síður fékkst engin leiðrétting á þessu meðan hv. núv. 2. þm. Reykv. gegndi skattstjórastarfinu. Var verið að geta þess til, að tilgangurinn með þessu væri sá, að koma í veg fyrir, að það kæmi fram í dagsljósið, hverjar væru tekjur og eignir sumra manna hér í Rvík. Voru bein lagafyrirmæli brotin í þessu skyni, til þess að hægt væri að hylma yfir með eignamönnunum hér í bænum. Skiptir það ekki máli í þessu sambandi, þó að núv. hv. 2. þm. Reykv. sé vel gefinn maður. Það, sem hann gerði fyrir sinn flokk, var rangt og verður aldrei afsakað. Þar var bæði um lagabrot að ræða og brot á efni og innihaldi þess starfs, sem hann átti að inna af höndum.

Hitt dæmið, sem ég vildi hér benda á, er tekið meira sem almennt sýnishorn af því, hvernig skattamálunum yfirleitt hefir verið háttað hér í Reykjavík undanfarið. Íhaldið myndaði þá meiri hl. í skattanefndinni á móti sócíalistum. Þá var sett regla, sem sýnir vel, hvað réttlætið á mikil ítök í huga þessara manna, og var þessi regla á þá leið, að fjölskyldufaðir með 20 þús. kr. tekjur á ári skyldi fá hærri frádrátt fyrir börn sín en verkamaður með 1600–2000 kr. árstekjur fyrir sín börn. Þessi síðari tala er ekki tekin af handahófi, því að ég átti nýlega tal við einn verkamann úr kjördæmi hv. þm. Hafnf., og sagði hann mér, að tekjur sínar næmu eitthvað um þetta. Þessi maður átti 6 börn, og var þó ekki á sveitinni að neinu leyti, en átti hinsvegar erfitt með að standa straum af kostnaðinum við hús, sem hann var að byggja. Samkv. íhaldsréttlætinu ætti nú þessi maður að fá minni frádrátt fyrir börn sín en auðmaðurinn, sem hefir 20 þús. kr. tekjur á ári. Íhaldsskattstjórinn virðist hafa litið svo á, að það væri dýrara að ala upp börn „fína“ fólksins; þau þyrfti að ala öðruvísi upp en börn fátæka fólksins og yrði það því kostnaðarmeira. Þessu ranglæti Íhaldsmeirihlutans í skattanefndinni varð ekki hrundið fyrr en Helgi Briem kom til og lét ranglætið víkja fyrir réttlæti í þessum efnum. Er það eitt af mörgu, sem stuðlað hefir að því, hversu hann er vinsæli hér í bænum, enda er það viðurkennt af öllum almenningi, að með Helga Briem kom þekking, sanngirni og fullur drengskapur að skattamálum hér í bæ. Í tíð fyrirrennara Helga Briems, núv. hv. 2 þm. Reykv., var aldrei um það spurt, hverjir væru lánveitendur þeirra manna, sem gáfu upp svo og svo miklar skuldir, og þess vegna enginn skattur greiddur af þessum upphæðum. Helgi Briem lét hina skuldugu borgara bæjarins vita það, að ef þeir gæfu ekki upp, hverjum þeir skulduðu, yrðu skuldirnar reiknaðar þeim til skatts. Varð þetta til þess, að menn fóru nú að gefa upp lánardrottna sína, til þess að losna sjálfir við að greiða skatt af skuldum sínum. Og þegar okurkarlarnir komust á snoðir um þetta, komu þeir í hópum til skattstjórans, til þess að leiðrétta framtöl sín, og komu þannig fram miklar eignir, sem enginn hafði vitað áður, að til væru. Með þessu var stungið í það graftrarkýli, sem hér var í þessum efnum, og það hreif. Það kemur því úr hörðustu átt, þegar hv. 1. landsk. er að tala um það, að skattalögunum hafi verið framfylgt hér frá því fyrsta með fullum sóma, því að í þeim efnum var hér allt í óreiðu og rangsleitni, þangað til eftirmaður núv. hv. 2. þm. Reykv. í skattstjórastarfinu veitti þessum málum þær aðgerðir, sem nauðsynlegar voru, til þess að rétturinn hefði sinn gang. Og hv. 1. landsk. ætti að geta rennt grun í það, að sá harði dómur, sem flokkur hans fékk við síðustu kosningar, á ekki að litlu leyti rætur sínar að rekja til þeirrar fyrirlitningar, sem þjóðin með réttu bar til þeirra manna, sem stóðu að framkvæmd skattamálanna hér í Reykjavík, og þeirra siðgæðishugmynda, sem gegnsýrðu þær framkvæmdir.

Þá vil ég segja hv. 1. landsk. það, að þau orð, sem höfð eru eftir honum frá Sveinsstaðafundinum 1926 í þessu riti, sem hér hefir orðið aðalumtalsefnið, eru rétt höfð eftir, þó að hv. þm. þyki nú hentugt að hlaupa frá þeim. Get ég borið um þetta af eigin reynslu, og hér í d. eru 3 aðrir þm., sem voru á þessum nafnkunna fundi og geta borið um þetta sama, þeir hæstv. forsrh., hv. 3. landsk. og hæstv. forseti deildarinnar. Hv. 1. landsk. spáði því þá, að um 1940 yrði vegakerfi landsins komið í það horf, að bílfært yrði úr Borgarnesi norður á Húsavík. Hv. þm. gat auðvitað ekki látið sér til hugar koma, að hægt væri að komast norður á bíl yfir Kaldadal. Það þurfti leikmann til þess að láta sér detta þetta í hug. Þekking og vitsmunir þessa hv. þm. eru ekki meiri en svo, að hann gat ekki látið sér detta í hug það, sem aðrir sáu, að var hægðarleikur, enda þótt þeir hefðu aldrei gengið í neinn skóla annan en skóla lífsins, og ekki lært að margfalda skakkt í skóla verkfræðinnar. — Glósur hv. þm. til bændanna ber víst að skoða sem nokkurskonar áframhald af páskahugvekju Morgunbl., sem bændur þegar hafa svarað á viðeigandi hátt, enda lét einn af frambjóðendum Íhaldsflokksins við síðustu kosningar svo um mælt við mig, að hann teldi vel sloppið, ef flokkurinn tapaði ekki meiru en tveim þingsætum á slíkum skrifum. Vildi ég ráðleggja hv. 1. landsk. að vera ekki að belgja sig út yfir þekkingarleysi bændanna, því að þeir vinna sín verk áreiðanlega eins vel og þessi hv. þm. hefir unnið sin verk, hvernig sem á það er lítið. — Hv. þm. var að státa af því, að hann væri þm. þjóðarinnar. Það er eins og þessi hv. þm. viti ekki, að hann fékk ekki nema um þriðjung allra greiddra atkv. og að meiri hl. þjóðarinnar vill ekki sjá hann og hefir ekkert traust á honum. Það eru þessar siðfáguðu sálir, sem Íhaldsflokkinn fylla, sem kosið hafa þennan hv. þm., en ekki þjóðin, sem betur fer.

Það er sagt um þá, sem komu siðbótinni af stað, að þeir hafi komið við magann í munkunum. Með sama rétti mætti segja, að stj. hefði með aðgerðum sínum viðvíkjandi berklavarnakostnaðinum komið við magann í læknunum. Er það skiljanlegt, að hv. þm. Hafnf. og einstaka stéttarbræðrum hans hafi verið illa við þann sparnað, sem afskipti stj. af þeim málum höfðu í för með sér.

Þeir, sem fylgdust með og þekktu, hvað sumir læknar græddu á þessu, vissu það, að reikningarnir voru skrúfaðir svo upp, að kostnaður fyrir suma sjúklinga komst upp í 10 kr. á degi hverjum. Svo þegar þetta var tekið til athugunar, fór svo, að kostnaðurinn varð helmingi minni, eða 5 kr. á dag, en lægstur hafði hann áður verið 6 kr. og allt upp í 10 kr., hjá sumum „praktiserandi“ læknum. Landið varð að borga þetta, og það munaði ekki lítið um þann sparnað, sem af þessu leiddi. Ef hv. þm. hefði haft von um, að sá spítali, sem hann vinnur við, gæti heimtað þetta gjald, þá hefði hann óðara látið spítalann fara í mál út af þessu og fengið dóm fyrir því, að ríkið ætti að greiða þetta. Er, læknarnir vissu betur. Enginn þeirra lét sér detta í hug að fara í mál við ríkið, heldur flýðu þeir á náðir þingsins og vildu fá það til að setja lög um þetta efni. Öll þessi gremja hv. þm. stafar því af því, að hann finnur sárt til þess, hvað tölurnar tala illa fyrir hans flokk og læknana. Þjóðin vissi, hvernig ýmsir læknar höfðu hagað sér, enda sýna tölurnar, að aðalsparnaðurinn við berklavarnakostnaðinn stafar af því, að haldið hefir verið í við suma lækna landsins.

Þessu til samanburðar skal það nefnt, að til eru lög frá árinu 1923, sem yfirfæra á ríkið nokkuð af kostnaði við lækningu sárasjúkra manna. Varð sá kostnaður auðvitað mestur hér, því að hér er mest um þessa menn, og svo er það líka svo, að úti á landi fara þessir menn til héraðslæknanna, en hér til „specialista“, sem hafa fastan taxta. Þessir læknar þurftu svo ekki að gera neinum grein fyrir sjúklingum sínum nema landlækni, en þrátt fyrir það hygg ég, að þeir hafi gert þetta samvizkusamlega, en árlega varð að greiða þeim 6–12 þús. kr. hvorum. Þegar berklavarnirnar voru teknar til athugunar, var þetta tekið einnig, og það var samið við læknana, að þeir skyldu fá 3000 kr. hvor á ári, gegn því að hafa opnar stofurnar ákveðna daga og veita þá ókeypis læknishjálp. Þannig var fengið aðhald fyrir læknana, að láta sjúklingana borga, ef þeir gætu það, en kostnaðurinn af þessu fyrir ríkið hefir lækkað um 5000–6000 kr. í Reykjavík einni.

Hv. þm. Hafnf. er sennilega kunnugt um það, að það var allgóður atvinnuvegur fyrir ýmsa lækna að fá sér ljóslækningatæki, sem kostuðu ekki mörg þús. kr., en sköpuðu þeim veltu upp á 10 þús. kr. á ári. Þegar svo Guðmundur Björnson fór utan árið 1928, fór hann til að athuga fyrirkomulag ljóslækninga í Englandi. Hann gaf síðan stj. skýrslu um ferð sína, og í þeirri skýrslu segir hann, að í Englandi megi ekki aðrir læknar hafa slík tæki en þeir, sem séu þaulvanir að fara með þau og hafi nægan undirbúning. Hann gaf þannig til kynna, að vísu með kurteisum orðum, að sumir þessara lækna myndu ekki uppfylla þau skilyrði, sem nauðsynleg væru til að mega meðhöndla slík verkfæri og nota þau til þessara lækninga.

Svo tilkynnti stj. læknunum, að hún sæi sér ekki fært að greiða reikninga þeirra, aðra en þá, sem trygging væri fyrir, að verkið hefði verið vel af hendi leyst, og svo fór, að þessi kostnaður hvarf alveg. (BSn: Hver borgar nú?). Sumir af „humbugistunum“ fá nú ekki alveg eins miklar tekjur eins og þeir höfðu áður, en ef þeir geta fengið einhverja fáráðlinga til að borga sér of fjár fyrir verra en ekkert starf, þá er það verst fyrir fáráðlingana, en auðvitað gott fyrir „humbugistana“. Þetta stafaði sem sagt af frekju læknanna og ósvífni, en nú er svo komið, að ríkið kostar ákveðnar ljóslækningastofur, en vel má vera, að þær séu ennþá of fáar, einkanlega úti um landið. En þetta hefir orðið til þess, að „humbugistarnir“ fást ekki lengur við slíkar lækningar.

Hv. þm. Hafnf. hefir játað, að við þetta hafi orðið sparnaður, en hv. 1. landsk. neitaði því, en svo sagði hann, að nú kæmi þessi kostnaður bara á aðra, einstaklinga, hreppsfélög eða bæjarfélög. Það kann vel að vera, að nokkuð sé hæft í því, en ef menn vilja ekki láta sjúklinga sína á Kristnes eða Vífilsstaði, þá þeir um það.

Það var vel farið, að þessi hv. þm. skyldi koma hér fram fyrir hönd stéttarbræðra sinna og bera fram kveinstafi þeirra yfir því, að ég skuli hafa orðið til þess að spara þarna 300 þús. kr. fyrir ríkissjóðinn, sem læknarnir höfðu náð með því að seilast óleyfilega djúpt ofan í hann. Ég get skilið, að hv. þm. líki það illa, að maður eins og ég, sem honum er illa við, hefir orðið þess valdandi, að sparnaður, sem þessu nemur, hefir komizt á, þrátt fyrir ágengni læknanna, og þyki það leiðinlegt, að nú er komin skýrsla um þetta inn á hvert heimili á landinu, og þannig gert kunnugt að þjóðarhneyksli, eða jafnvel glæpsamlega athæfi, sem læknarnir hafa gert sig seka um.