23.07.1931
Neðri deild: 10. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (2147)

43. mál, tekju- og eignarskattur til atvinnubóta

Héðinn Valdimarsson:

Þetta frv. frá hv. þm. Dal. og hv. 1. þm. Skagf. ber gleðilegan vott um nýjan skilning hjá þessum hv. þm. og Framsóknarflokknum yfirleitt á atvinnumálum þjóðarinnar.

Fyrir kosningarnar í vor höfum við jafnaðarmenn á öllum fundum bæði lýst því, hvernig ástandið væri að verða í landinu meðal verkalýðsins í sjóþorpum og bæjum, og eins hinu, að það mætti búast við miklum örðugleikum næsta vetur. Þetta stafar ekki eingöngu af heimskreppunni, heldur af ráðstöfunum, sem stjórn Framsóknarflokksins hefir gert á undanförnum árum, sérstaklega síðasta ári, með því að eyða öllum peningum, sem í ríkissjóð hafa komið umfram áætlun, í stað þess að geyma féð til verri tíma.

Hér er verið að tala um það, að atvinnuvegirnir eigi að hafa varasjóð. En það er ekki talað um, að ríkissjóður eigi að hafa varasjóð. Það er gengið út frá, að ríkið eigi að eyða öllum sjóðnum, svo að þegar illa árar eigi að hverfa að atvinnuvegunum, sem enga varasjóði hafa. Ég hygg það hefði verið viturlegra af Framsóknarflokknum — og raunar Íhaldsflokknum líka — að ganga inn á frv. jafnaðarmanna á undanförnum þingum um jöfnunarsjóð ríkisins, sem yrði varasjóður ekki fyrir ríkisreksturinn eingöngu, heldur fyrir atvinnuvegina, þannig að ríkið kæmi með sína atvinnu þegar lítið er um atvinnu hjá einstaklingum. Það væri hyggilegra en að eyða öllu þegar bezt lætur í ári.

Þetta frv. ber vott um það, að þegar þessir hv. þm. koma inn á þing, eftir að hafa þagað við aðfinnslum jafnaðarmanna á fundum eða borið á móti þeim, þá kreppir ástandið svo að þeim, að þeir neyðast sjálfir til að koma með frv. um atvinnubætur. Ég skal lýsa yfir því fyrir hönd jafnaðarmanna, að við munum með ánægju taka í höndina á Jónasi Þorbergssyni og Ólafi Thors um það að gera atvinnubætur í landinu. En með þessu frv. er tekið slíkum vettlingatökum á málinu, að ég álít, að það komi ekki að gagni. Það þarf að fara allt aðra leið og róttækari, ef nokkurt verulegt gagn á að verða að. Nú verður borið fram frv. til atvinnubóta af hálfu jafnaðarmanna næstu daga, og sýnir sig þá, hvaða tökum við óskum að tekið verði á þessu máli. Það eru ýmis atriði í þessu frv., sem eru óhæf, t. d. að hæstv. stj. eigi að setja reglur um það, hvernig eigi að nota þetta fé, jafnvel þó að það sé að fengnum till. bæjar- eða sveitarstjórna. Við vitum, að þessi hæstv. framsóknarstjórn fer ekki eftir tillögum, jafnvel þótt hún sé skyld af fara eftir þeim. Þannig hefir einræðið sýnt sig á undanförnum árum. Eins er nauðsynlegt að taka fram um þau verk, sem vinna á. Við höfum ekkert traust á ríkisstj., hvorki í einu né neinu, sízt á því, hvernig hún muni láta vinna verk til atvinnubóta.

Á fundunum fyrir norðan, þar sem ég var með sumum hv. þm., sem hér sitja, var því svarað þegar við jafnaðarmenn vorum með aðfinnslur út af aðgerðum stj., að það gerði ekkert til, þó að atvinnuleysi væri við sjóinn. Í þann streng var tekið á Hvammstanga og sagt, að ekki væri annað en að senda fólkið upp í sveit, og man ég ekki betur en Framsóknarframbjóðandinn tæki undir það. En hann hefir ekki enn komið með frv. um að senda fólkið upp í sveit. Ætli mörgum kotbóndanum mundi ekki þykja þröngt í búi, ef allir atvinnuleysingjar væru sendir á sveitabæina? (HJ: Hefir þm. efnt loforð sitt að senda bóndanum vinnukraft?). Ég get sent honum tugi og hundruð manna, ef hann óskar, sem hann hefir ekki gert. (HJ: Óskaði hann ekki eftir því?). Hann hefir ekki endurtekið þá ósk. (HJ: Þarf að gera það oft?). Hann vildi ekki þá þegar ganga að þeim skilyrðum, sem ég setti um að taka fjölskyldumenn, og auk þess er mér kunnugt um, að hann á nógu erfitt með sjálfan sig og sína ómegð, þótt ekki bætist á. Á að skoða þessar framítökur svo, að hv. þm. V.-Húnv. neiti, að atvinnuleysi sé í landinu, eða að hægt sé að leysa vandamálið með því að senda menn í sveit? Þá eru tvær skoðanir komnar fram í flokknum. önnur frá hv. þm. Dal., að gera þurfi alvarlegar ráðstafanir vegna atvinnuskorts, en hin frá hv. þm. V.-Húnv., að ekki þurfi annað en senda mennina í sveit. (HJ: Ég var ekki að efast um atvinnuleysið: ég spurði, hvort þm. hefði efnt orð sín).

Annars verð ég að segja það, að bæjaíhaldið á ekki síður sök á þessu en sveitaíhaldið, vegna þess að Íhaldsflokkurinn hefir fúslega gengið inn á það að áætla tekjuupphæðir fjárl. miklu lægri en átti að vera. Það kann að vera svo, að tekjur ríkissjóðs hafi verið ennþá meiri en menn hafa búizt við, vegna þess hvernig fjárl. voru sköpuð.

Ég hefi komið með áskorun til núv. hæstv. fjmrh. og forsrh. um það að koma með skýrslu um það, hvernig afkoma ríkissjóðs hafi orðið síðustu 6 mánuði. Hún fékkst ekki. Væri svo, að tekjur ríkissjóðs séu töluvert meiri en ætla mætti eftir fjárl., þá er minni þörf fyrir aukafjárveitingu en áður. En samt álít ég þess alltaf þörf, og sérstaklega nauðsyn fyrir þetta þing að binda hendur stj. um það, hvaða framkvæmdir hún tekur. Það verður að gera eitthvað, en ég hygg, að fáir menn vilji láta hæstv. stj. hafa einveldi í þeim málum.

Ég mun ekki skipta mér af, hvað verður um þetta frv. Við 1. umr. mun ég ekki greiða atkv. á móti því. Það kann og að vera, að þegar hv. flm. sjá frv. frá okkur, vilji þeir taka höndum saman við okkur. eins og í Tímanum stendur skrifað, og vil ég því ekki að svo stöddu leggja stein í götu frv.