23.07.1931
Neðri deild: 10. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í C-deild Alþingistíðinda. (2156)

43. mál, tekju- og eignarskattur til atvinnubóta

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. þm. Seyðf. spurði, hvort stj. myndi nota sér þá heimild, sem felst í frv. Ég geri ráð fyrir, að þeirri spurningu verði betra að svara við síðari umr. málsins. En ég get þegar sagt, að frá mínum bæjardyrum séð er sú hugmynd, sem fram kemur í frv., að nota eigi getu hinna efnaðri einstaklinga á krepputímum til að létta undir með þjóðarheildinni, góð og réttmæt, og myndi ég því hafa mikla tilhneigingu til að nota mér þessa heimild.

Annars er rangt af hv. þm. Seyðf. að einblína á þetta eina frv., eins og það sé hið eina, sem fram er komið til að mæta afleiðingum kreppunnar. Það er fjölda mærgt annað, sem gert verður, t. d. til að styðja framleiðsluna. Þannig mun verða reynt að forða bændum frá afleiðingum grasbrestsins í sumar, sjómenn studdir til þess að koma út ísvörðum fiski og ýmislegt fleira. Hér þarf mörg átök, og er ekki nægilegt að heimta, að ríkissjóður leggi fram 5 millj. króna til að láta vinna fyrir. Það er full ástæða að minnast á það hér, að barátta jafnaðarmanna hér á landi hefir til þessa verið allt of einhliða kauphækkunarbarátta á flestum stöðum, en of lítið verið gert til að búa í haginn fyrir fólkið að öðru leyti, þótt það hafi verið gert sumstaðar, eins og á Ísafirði. (HV: Hvar hefir verið einhliða kauphækkunarbarátta?). T. d. í Reykjavík. Hv. 3. þm. Reykv. hefir séð þetta sjálfur, er hann ætlaði að stofna kaupfélag hér í bænum, sem að vísu fórst fyrir, og má um það kenna bæði honum, mér og öðrum. En mig furðar á því, að jafnaðarmenn skuli ekki hafa tekið þessu frv. betur en raun hefir á orðið. Þeir eru fullir úlfúðar, þegar þeim býðst útrétt hönd, sem vill hjálpa þeim til að bæta úr ástandinu. Slíkt er í meira lagi einkennileg og óhagsýn pólitík, og gefur jafnvel ástæðu til að efast um, hvort hugur fylgir máli hjá þessum hv. þm.

Hv. þm. Seyðf. lét svo um mælt, að ekki hefði verið þörf á opinberri vinnu til atvinnubóta árið 1930. Mig minnir, að kvæði þó nokkuð við annan tón í Alþýðubl., sem hv. þm. var þá ritstjóri að. Aldrei hafa verið háværari raddir um atvinnubætur en einmitt seinni hluta ársins 1930. Fundahöld og áskoranir um atvinnubætur voru daglegir viðburðir. Hv. þm. sagði ennfremur, að 4/5 þeirra manna, sem undanfarið hefðu unnið í opinberri vinnu, hefðu verið reknir burt. En því er til að, svara, að það, sem af er þessu ári, hafa verið „normal“ framkvæmdir af hálfu hins opinbera. Í fjárl. fyrir 1930 voru áætlaðar litlar opinberar framkvæmdir eins og þau voru lögð fyrir þingið. (HG: En þau fjárlög, sem voru afgreidd?). Það er nú ekki búið að afgreiða ennþá fjárlögin fyrir 1932. Fjvn. hefir þegar komið með allverulegar hækkunartill. Annars álít ég, að ríkið verði að ýmsu leyti að haga sér eins og hagsýnn einstaklingur myndi gera: að nota góðærin til framkvæmda, en kippa fremur að sér hendinni, þegar harðnar í ári.

Hv. þm. Seyðf. var að heimta skýrslur um hag ríkissjóðs. Því var lýst yfir við 1. umr. fjárl., að þær skýrslur myndu koma, er fjárl. yrðu lögð fram til 2. umr., og svo mun verða gert.