17.07.1931
Neðri deild: 3. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (22)

1. mál, fjárlög 1932

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég sé, að ég hefi misskilið hv. 4. þm. Reykv. Mér skildist sem hann ætti við innstæður bankanna hér, en sé nú, að hann hefir átt við aðstöðuna út á við. En ég vil benda á það, að það er mjög ófullnægjandi og beinlínis villandi að taka eingöngu tölur á viðskiptakonto Landsbankans við útlönd, til þess að sýna fjárhagsástandið í landinu. Hér verður að hyggja, að fleiru, til þess að fram fáist rétt mynd af ástandinu. Önnur aðalvara landbúnaðarins, ullin, var til dæmis óseld um síðustu áramót, og eins var þá óselt meira af fiski en um mörg undanfarin ár. (MJ: Þetta er vitleysa!). Ég hefi að vísu engar skýrslur fram að leggja um þetta, en ég hygg, að það sé ekki ofmælt, að í mörg ár hafi ekki legið annað eins fiskmagn í landinu óselt sem nú. Ef draga á upp rétta mynd af fjárhagsástandinu í landinu, verður að taka tillit til þessara sérstöku aðstæðna. Ef það er ekki gert, verður myndin villandi og alveg út í hött.