23.07.1931
Neðri deild: 10. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (2213)

63. mál, útsvör

Flm. (Einar Arnórsson):

Hvað viðvíkur því, að þetta frv., muni mælast illa fyrir í sveitum, þá hygg ég naumast, að svo verði. Ég geri ráð fyrir, að bændum þyki vel hlýða að leggja eitthvert útsvar á utansveitarmenn, sem eiga þar jarðir eða aðrar fasteignir í sveit og hafa arð af. Annars er vitanlega eigi hægt að synda fyrir það sker, að einhverjum þyki sinn hlutur verri, því að svo verður jafnan um öll skattalög, sérstaklega í byrjun.

Hv. 2. þm. Skagf. sagði, að það kæmi nokkurnveginn í sama stað niður fyrir bæinn eða sveitina, hvort maður, sem ætti hús í bæ, byggi í því sjálfur eða leigði það, því að með því að leigja það veitti hann bænum annan mann í sinn stað til að greiða útsvar. Þetta er auðvitað fjarri öllum sanni, því að þegar lagt er á leigutakann, er ekki verið að leggja á eign utanbæjarmannsins, heldur leigutakann og eignir hans. Eigandann skiptir það engu máli, því að á leigutakann er lagt án tillits til aðstöðu eigandans. Leigutakinn getur tapað á atvinnu, sem hann rekur í húsi utansveitarmanns, en sá hefir þó ærnar leigutekjur af húsinu. Ef til vill stafar tapið af of hárri leigugreiðslu til utansveitarmannsins. Er þá auðséð, að utansveitarmaðurinn hefir lagt sveitinni, þar sem hús hans er, til lélegan gjaldanda, eða svo getur það verið.

Viðvíkjandi því frv., sem hv. þm. minntist á, þá geri ég ráð fyrir, að hann hafi átt við Skildinganesfrv., en það eru svo margir fleiri staðir, sem skattflóttamenn geta leitað til, að það bætir harla lítið. Hitt gleður mig að heyra, að hv. þm. taldi víst, að það frv. næði fram að ganga, hvort sem þessi orð hans má skilja svo, að hann hafi tekið sinnaskiptum í málinu frá því á þinginu í vetur.