23.07.1931
Neðri deild: 10. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (2222)

69. mál, útvarp

Flm. (Magnús Jónsson):

Enda þótt aldrei nema hv. þm. Dal. sé útvarpsstjóri, þarf hann ekki að brúka annan eins vind og hann gerir í þessari hv. deild. Það eru nú komin hér fram tvö frv. um útvarpsmál, og í búðum þessum málum stendur þessi hv. þm. upp og leggur til, að þessi frv. verði felld þegar í stað.

Ég held, að það hljóti að vera barnabrek hjá hv. þm. Dal. að leggjast á móti því, að þetta mál fari til 2. umr. og fái að athugast í n. Ég álít ekki, að ég viti, hvað bezt er í hverju máli, en ég geri þá kröfu, að frv. fái að fara til 2. umr. og n. Annars er það einkennilegt, að hv. þm. Dal. kvartaði yfir því, að ráðizt væri á grg. í frv. hans um tekju- og eignarskatt, en nú ræðst hann sjálfur á grg. þessa frv. En mig langar ekki út í teoretískar deilur við hann um frjálsa samkeppni og ríkisrekstur, en ég álít, að reynslan muni leiða þetta bezt í ljós. Ég er ekki í neinum vafa um það, að hin frjálsa samkeppni mun tryggja bezt gæði tækjanna. Ég tel ríkisrekstur varasamari í þessu tilfelli, af því að þessi vörutegund er svo ný og framfarir í smíði tækjanna stórstígar, og verzlunin setur út nýjar tegundir í umboðssölu, hverja á eftir annari. Í hinni frjálsu samkeppni verða nú kaupmenn að hafa þessar nýju tegundir til sölu, til þess að verða samkeppnisfærir. En þar, sem einkasala er á þessu, verða menn að láta sér lynda að velja úr þeim birgðum, sem einkasalan hefir í það og það skiptið, þó að það séu úreltari tæki. Viðvíkjandi því, að margar tegundir tækja hefðu verið komnar inn, skal ég geta þess, að verzlunin var að færast í það horf, að 2 verzlunarhús næðu yfirráðum með sölu tækjanna. Það var því skynsamlegt af einkasölunni að taka upp viðskipti við þessi 2 verzlunarhús. En það girðir ekki fyrir það, að hingað flytjist fjöldi af allskonar tækjum. En með mínu frv. væri alveg girt fyrir það, og þá mundu menn ekki verzla nema með ný tæki, svo að gæði tækjanna væru betur tryggð með mínu frv.

Hv. þm. vildi halda því fram, að ekki væri lagt nema 65 þús. í þetta fyrirtæki. Hvernig má það ske? Með því að gera verzlunina mjög óhagstæða, selja ekki nema gegn staðgreiðslu. Ef á að gera verzlunina eins aðgengilega og verzlun einstaklinga, verður ríkissjóður að leggja í hana stórfé. Ástæður mínar standa því óhraktar, enda voru þær sagðar með mestu hófsemd. Ég treysti því, að hv. deild vilji líta á þetta frv. og athuga það í nefnd.